04.03.1926
Neðri deild: 21. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í D-deild Alþingistíðinda. (2808)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Hákon Kristófersson:

Síðustu ummæli hv. frsm. gefa mjer tilefni til að mótmæla þeim skilningi algerlega, að það hljóti að vera undir hverjum kringumstæðum bindandi fyrir komandi ráðherra, sem fráfarandi ráðherra kynni að hafa lofað. (BL: Samkvæmt lögum). Ef þessi skilningur á að vera „praktiseraður“, þá erum við komnir inn á dálítið hættulega braut. Jeg hjelt, að mörg endemi gætu komið fyrir, en jeg bjóst ekki við að heyra slíkum skilningi haldið fram hjer. (BL: Jeg held fast við hann). Það er nú altaf hægt að segja, en það er ekki þar með sagt, að sú fastheldni sje bygð á rjettum rökum. Og ef nokkuð er bygt á rökum heimskunnar, þá er það þetta. Hitt er annað mál, hvort stjórn er skylt að halda þau gefnu loforð, sem kanske er ekki hægt að koma í framkvæmd á þeim tíma, sem fráfarandi stjórn hefir gefið þau.

Jeg skal ekki fara mikið inn á þær deilur, sem hafa átt sjer stað um þetta mál, enda þótt jeg álíti, að dálítill misgáningur hafi átt sjer stað í því að heimta nauðsynlega tryggingu gagnvart ríkissjóði frá þessu fjelagi. Hv. frsm. hefir bent á það í síðustu ræðu, hversu tryggilega hefir verið um hnútana búið gagnvart þremur öðrum fjelögum. Nú er mjer spurn: Hvers vegna hefir þetta fjelag komist að betri kjörum en önnur? Því að vitanlega var loforð eða heimild Alþingis bundin þeim föstu skilyrðum, að stjórnin áliti trygginguna, sem fjelögin hefðu að bjóða, fullkomlega frambærilega.

Bæði hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) og fleiri hafa sagt, að það væri lítil hjálp gagnvart fjelaginu, ef við ætluðum að setja upp nægilega tryggingu. Það er dálítið einkennilegt að heyra þetta, því vitanlega gæti þannig á staðið, að það geti verið næg trygging fyrir ríkissjóðinn, sem hlutaðeigandi bankastofnun tekur ekki gilda.

Þessi mótmæli mín gilda jafnt gagnvart ummælum hæstv. fjrh. (JÞ), þar sem hann taldi ríkissjóðinn bundinn við ábyrgðina. Ef stjórnin gengur inn í tryggingar, sem ríða í bága við þær heimildir, sem fyrir liggja, þá eru slíkar ráðstafanir mjög athugaverðar og ríkissjóður tæplega bundinn við þær.

Jeg vil leyfa mjer að beina þeirri spurningu til hæstv. fjrh. (JÞ): Hver er eiginlega hjálpin, sem í því liggur fyrir fjelagið, ef till. þessi verður samþykt? Þar segir reyndar: „Fái fjelagið þessa ósk uppfylta, þá mun rekstrarfje fást frá Íslandsbanka“. Þetta má vel vera, en er ekki þá verið aðeins að bæta einum lið við þá óhappakeðju? Og eru nokkrar líkur til, að þetta rekstrarfje borgi sig? Því er ömurlega lýst, ástandinu í þessu fjelagi, og það er sjálfsagt svo. En það liggja ekki mjer vitanlega fyrir neinar upplýsingar um það, hvernig eignum fjelagsins og skuldum er varið. Heyrt hefi jeg lauslega, að það ætti fyrirliggjandi mjög mikið af fiski frá síðasta sumri. Mjer hefir einnig verið sagt, en ekki veit jeg, hvort það er alveg rjett með farið, að salan hafi fyrirfarist af óheppilegum ráðstöfunum fjelagsstjórnarinnar.

Það var borið á mig og það af jafnmiklum manni og hv. þm. Str. (TrÞ), að því leyti sem jeg á hlut að máli, sem einn verandi í Íhaldsflokknum, að hann hefði viljað gefa stórgróðamönnum í Reykjavík 613 þús. kr. í fyrra. Þetta var prentað feitu letri í því víðlesna blaði, sem vinur minn er ritstjóri að. Nú lýsir hv. þm. því yfir, að hag þessa fjelags, sem um er að ræða, sje þannig háttað, að það sje alls ekki borgunarfært fyrir þessum 42 þús. kr. Ætli mætti þá ekki að rjettu lagi draga þessar 42 þús. kr. frá þessari gjöf Íhaldsflokksins? Gjöf, sem auðvitað aldrei átti sjer stað nema í huga þeirra manna, sem ekki er vel sýnt um það að segja sannleikann.

Þá sagði hv. þm., að það væri af því, hvað peningar væru illa verðfastir, að fjelagið væri í vandræði komið. Það má vera, að gengissveiflan hafi haft mikil áhrif. En þetta fjelag hefir altaf verið á heljarþröminni frá fyrstu byrjun. Mjer er nú spurn, hvort það eigi ekki að láta fara sem fara vill um það, sem ekkert vit er í að vera að hanga lengur með. Ef aflaleysi er fyrir dyrum, eins og sýnist líta út fyrir, þá er það aðeins stundarfrestur, sem við gefum fjelaginu, en það hlýtur hvort sem er að kollvarpast.