04.03.1926
Neðri deild: 22. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (2816)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Fjármálaráðherra (JÞ):

Till. leggur það undir mat Íslandsbanka, hvort hann álíti von um vinning við það að láta fjelagið halda áfram fyrst um sinn. Það á ekki að gefa veðrjettinn eftir, nema því aðeins, að fjelagið fái rekstrarlán. Fáist það ekki, kemur eftirgjöfin ekki til greina. Ríkissjóður hefir enga von um að fá neitt upp úr þessum veðrjetti. En hinsvegar býst jeg naumast við, að bankinn muni sjá fjelaginu fyrir rekstrarfje áfram, nema hann telji einhverja von um, að tap sitt verði minna en ella. Og jeg verð að halda fast við það, sem jeg hefi áður sagt, að jeg tel það tæplega rjett af löggjafarvaldinu að taka á sig sjerstaka ábyrgð á því, hvað bankinn gerir, þar sem ekki er til neins að vinna fyrir ríkissjóðinn.