23.02.1926
Efri deild: 12. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (2903)

34. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá

Flm. (Eggert Pálsson):

Í greinargerðinni eru, eins og lög gera ráð fyrir, teknar fram ástæðurnar fyrir því, hvers vegna þessi till. er fram komin, en jeg hygg þó, að ekki geti talist öðruvísi en viðeigandi, að jeg fylgi henni úr hlaði með nokkrum orðum.

Þessi tillaga er í tveimur liðum, og báðir liðir byggjast á hinu sama, en þó með nokkrum mismun.

Að því er snertir fyrri liðinn, þá byggist hann á þeirri hugsun, að vinna megi tvent í einu, sem sje koma í veg fyrir landbrot af völdum Þverár, og í öðru lagi gera hægra fyrir með að komast yfir ána, sem má teljast mjög erfitt og einatt ómögulegt, eins og nú er ástatt.

Þeir, sem búa við Þverá og verða fyrir mestum skemdum af hennar völdum, sem sje Fljótshlíðingar, þeim blöskrar að horfa á það ár frá ári, að áin brýtur niður land af þessari gæðasveit, og það sjerstaklega þar sem þetta land, sem áin brýtur niður, er engir óræktarmóar, heldur gróðursæl tún eða áveituengjar með svo að segja síbreiðugrasi. Áin hefir þegar brotið niður mikið af Hlíðinni; t. d. er sagt, að í tíð hins merka manns Vigfúsar Thorarensens, sem bjó að Hlíðarenda, hafi fengist 500 hestar af áveituengi, sem nú sjest sama sem ekkert af. Einnig í Hlíðarendakoti, æskustöðvum Þorsteins Erlingssonar, má segja, að á 50–100 árum sje farinn fullur helmingur af túninu. Víða annarsstaðar er mikið brotið, en þó hvergi eins og á þessum tveim stöðum. En þó að mikið sje farið af Hlíðinni, er þó talsvert enn eftir handa ánni að brjóta. Og er skamt þess að minnast — það eru tvö ár síðan í vor — að áin tók gersamlega í einu hálfrar til heillar dagsláttu spildu af engjum. Þá stóð svo á, að bóndi nokkur var þar á ferð, þegar landið sprakk frá; hestarnir ærðust við skellinn, sem varð, og maðurinn myndi ekki hafa komið þeim til lands, ef ekki hefði viljað svo vel til, að honum barst hjálp einmitt í þeim svifum. Að áin hefir altaf eitthvað til þess að brjóta niður, stafar af því, hvernig hún rennur; hún hefir sem sje ekki fastan farveg, heldur rennur í sífeldum krókum og hlykkjum; þegar hún hittir laust jarðlag, þá er sveiflan, sem hún tekur suður á bóginn, tiltölulega lítil; en þegar hún hefir brotið niður þetta lausara jarðlag og svo er komið, að fyrir henni verður fastara jarðlag, sendist hún lengra suður og kemur svo aftur að Hlíðinni nokkru neðar en áður og tekur að mölva þar. Og með þessu lagi er það sýnt, að henni tekst með tímanum að mölva niður alt undirlendið, þar til komið er upp í fjallsrætur, og svo þegar Hlíðin er farin, þá fer hún að mölva af Hvolhreppnum að neðan.

Þegar á þetta er litið, þá er síst að undra, þótt mörgum manninum, sem þarna á heima, sje áhugamál að fá eitthvað við þessu gert, enda var svo í vetur, að nær allir, sem hjer áttu hlut að máli, undirskrifuðu erindi til sýslunefndarinnar í Rangárvallasýslu, svo sem annars og næsta málsaðila, samkvæmt lögum 14. nóv. 1917, um að hefjast handa í þessu máli. Efast jeg ekki um, að hún taki þetta mál til athugunar og beini því síðan til stjórnarinnar. Hinsvegar er því svo háttað, að þeir, sem búa neðar með ánni, svo sem Vestur-Landeyingar og Þykkbæingar, hafa ekki nú sem stendur jafnsterkan hug á því, að hlaðið verði fyrir framrensli Markarfljóts í Þverá, og stafar það af því, að þeir þykjast hafa fengið nokkra bót í bili með fyrirhleðslu í Fróðholtsós og Valalæk Landeyjamegin, og Djúpós Þykkvabæjarmegin, sem, eins og hv. þm. er kunnugt, styrkur var veittur til fyrir nokkrum árum. Þó er það auðsætt, að vatnið verður þar aldrei trygt í farvegi sínum á meðan allur vatnsþunginn hvílir á. Því þótt sjálfar fyrirhleðslumar standist, af því að þær eru úr góðu efni, föstum og seigum hnausum og viði, þá er það víst, að vatnið hlýtur altaf að sprengja nýja og nýja ósa. Þegar svo ber til, að vötnin leggur, en vöxtur kemur svo í Markarfljót, leitar vatnið sem það getur undir ísskorpuna. En sje hún orðin svo sterk, að vatnið geti ekki sprengt hana, hljóta bakkarnir að bila, þar eð þeir eru úr fínum sandi, og vatnið á þar hægra um uppgöngu. Enda hefir reynslan orðið þessi, því að t. d. í vetur hefir vatnið brotið nýjan ós hjá Fróðholti, nokkru vestar en áður var, og svona mun það ganga á meðan vatnsþunginn er svona mikill í ánni.

Frá sjónarmiði þeirra manna, sem þarna búa, er það ekki neitt vafamál, að það er brýn nauðsyn á því að fá Markarfljótsvatnið leitt af, til þess að þessi lönd lendi ekki aftur í sama voðanum og áður var. En að þetta sje hægt, að veita vatninu af, held jeg fyrir mitt leyti, að sje ekki vafamál, með þeirri þekkingu, þeim áhöldum og útbúnaði, sem nú er til. Og því frekar ætti nú að vera hægt að gera það, sem það er vitanlegt, að áður fyr, þegar Vigfús Thorarensen bjó á Hlíðarenda, tókst með ófullkomnum áhöldum að varna því, að Markarfljót færi vestur eftir. Hafði hann það fyrir reglu að boða menn hópum saman til sín, til þess að stoppa fyrir vatnið, og með þessu tókst honum að verja jörð sína og annara fyrir ágangi vatnsins á meðan hans naut við. En þegar hann fjell frá, var ekki meira um það fengist. Má vera, að frá þeim tíma stafi vísa Bjarna sonar hans: „Bágt er að heyra, ef brýtur meira bannsett á“ o. s. frv.

Að þetta sje hægt, efast jeg ekki um, en hitt er víst, að ef það er gert með krafti og á eins fullkominn hátt og verkfræðingar telja, að best færi, þá mun það kosta mikið fje. Árið 1917, þegar lögin urðu til, var áætlaður kostnaður við fyrirhleðsluna alla leið frá Þórólfsfelli og báðumegin við Dímon og viðgerð við Seljalandsgarðinn um 167000 krónur, fyrir utan kostnað af brúargerð yfir Markarfljót.

Nú má gera ráð fyrir því, að þessi áætlun muni ekki með neinu móti geta staðist og ekki veita af upphæðinni tvöfaldri eða þrefaldri. En hitt sýnist geta komið til álita, hvort ekki mætti gera eitthvað kostnaðarminna og með minni fyrirhöfn, að minsta kosti til bráðabirgða. Jeg er auðvitað enginn verkfræðingur, en mjer dettur í hug, að hægt mundi vera að koma vatninu af sjer, að minsta kosti í bili, með miklu minni fyrirhöfn en ráðgert hefir verið. Jeg hygg, að það væri ekki frágangssök að hlaða aðeins í farveginn, þar sem vatnið kemur úr Markarfljóti, og jeg veit, að margir kunnugir menn þar eystra eru á sama máli, og slík fyrirhleðsla í sjálfan farveginn eða farvegina myndi ekki þurfa að kosta mikið fje. Þar er alt við höndina, nógur viður inni á Þórsmörk og næg möl, sem nota má til að fylla upp með, er vírnet eru strengd fyrir, svo að þetta þyrfti í sjálfu sjer ekki að kosta svo sjerlega mikið. En það er vitanlegt, að á þetta er að líta eingöngu sem bráðabirgðaráðstöfun og að í framtíðinni yrði að hugsa um að ganga betur frá öllu.

Það er vitanlega svo, eins og allir geta skilið, að þeir, sem að austan búa, bæði Landeyingar og Fjallamenn, vilja ekki láta hlaða fyrir vatnið og veita því þar með í austurfarveginn. En vatnið verður vitanlega einhversstaðar að renna fram, og þá sýnist eðlilegast að velja því þá leiðina, sem það liggur beinast fyrir og skemdir af því verða minstar, en það er frekar að austanverðu en vestan. Og hvað Fjallamenn sjálfa snertir, sem búa austur með Fjöllunum, þá verður að ætla, að þeim sje ekki hætta búin, þó að vatnið fari í eystri farvegina; þá er það þó víst, að það skapar aldrei eins vonda samgönguteppu þar eins og ef það heldur áfram að fara í Þverá. En fyrir þá, sem að austanverðu búa, er náttúrlega aðalatriðið nú að losna við þau samgönguhöft, sem Þverá leggur á þá. Þeim stendur vitanlega á sama, þó að vatnið sje að vestanverðu, en þeim stendur ekki á sama um samgönguteppuna. Og þess vegna fara þeir fram á það, að Þverá verði brúuð.

Hvað þá hlið málsins snertir, hve mikla samgönguteppu Þverá leggur á þá, held jeg að megi fullyrða, að á Íslandi sje ekkert vatnsfall, sem jafnmikið teppir alla umferð, þegar tillit er tekið til þess, hve mikið þarf yfir ána að fara; það kemur fyrir svo að segja daglega, að það er ómögulegt að komast yfir Þverá, fyr en þá langt inn frá, og þá skilja menn, hve mikil fyrirhöfn það er fyrir Út-Landeyjamenn að þurfa að fara lengst inn í Hlíð til þess að komast t. d. upp að Hvoli, til þess að sækja lækni, að jeg ekki tali um, hvílíkum örðugleikum það er undirorpið að koma nokkrum flutningi yfir Þverá án þess að hann vökni. Svo kemur það líka einatt fyrir, að áin er algerlega ófær frá fjöru til fjalls; t. d. kom það fyrir í sumar, að það átti að halda unglingamót í Landeyjum. Var fenginn snjall ræðumaður hjeðan úr Reykjavík til að halda þar ræðu. Hann kom austur að Garðsauka í tæka tíð, en svo varð hann að sitja þar fastur sjálfan mótsdaginn, því að áin var alófær. Þetta haft, sem Þverá leggur á samgöngurnar, er nú þeim mun verra en áður, því að þá var þó hægt að koma við ferju hjá Hemlu, en nú fellur áin þar í tveim kvíslum og breið eyri á milli þeirra, svo að ómögulegt er að nota ferjuna. Og reynist það nú svo, að ófært sje að fara þá leið að veita vatninu úr Þverárfarveginum, þá er sýnt, að ekki er um aðra leið að tala en að brúa ána, og þá yrði jafnframt að gera ráð fyrir því, að vatnið hjeldist áfram í henni.

Um það, hvaða leið skuli fara í þessu efni, skal jeg ekkert segja frekar, en einhverja breytingu verður að fá á þessu máli, og jeg vænti þess, að hæstv. stjórn og vegamálastjóri eða verkfræðingur landsins sjái best, hvaða leið skuli fara. Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um þessa till., en legg hana öruggur á vald háttv. deildar og Alþingis yfir höfuð og vænti þess, að hún verði samþ. og að hæstv. stjórn og verkfræðingur geri í þessu máli það, sem skynsamlegast telst. En að eitthvað verði að gera til þess að leysa úr þessum annmörkum, það hygg jeg að engum dyljist.

Jeg hefði nú fyrir mitt leyti haldið, að ekki hefði þurft að fara með þessa till. þannig, að hafa tvær umr. um hana, því að því er snertir framkvæmdir samkvæmt fyrri hluta hennar, þá er þar þegar til heimild í lögum nr. 69, 14. nóv. 1917. En til þess að fullnægja seinni lið hennar, virðist eigi þurfa neitt fjárframlag úr ríkissjóði.

En hæstv. forseti hefir litið svo á, að vissara væri að hafa tvær umræður, og jeg því alls ekki mótfallinn. Jeg treysti því, að það verði ekki málinu til skaða, þar sem enn er skamt liðið á þingið og því nægur tími fyrir höndum. Ef tillagan verður sett í nefnd, kýs jeg helst, að henni verði vísað til samgöngumálanefndar. Að vísu var mál þetta hjer á árunum hjá landbúnaðarnefnd. En þess ber að gæta, að tillagan er fram komin einkum vegna farartálma þess, sem áin veldur, og hjer í lestrarsalnum liggja frammi áskoranir frá 250 mönnum sunnan Þverár, sem fara fram á, að áin verði brúuð. Þó að jeg eigi ekki sæti í samgöngumálanefnd, treysti jeg henni til að greiða fyrir þessu máli. í Nd. á háttv. samþingismaður minn sæti í samgöngumálanefndinni, og þykir mjer vel við eiga, að honum gefist þar kostur á að vinna fyrir málið.