23.02.1926
Efri deild: 12. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í D-deild Alþingistíðinda. (2906)

34. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá

Flm. (Eggert Pálsson):

Jeg finn ástæðu til að þakka hæstv. stjórn góðar undirtektir í þessu máli, og sömuleiðis hv. 1. landsk. (SE).

Viðvíkjandi því, hvort láta skuli framkvæmdir bíða þar til ítarlegar rannsóknir hafi verið gerðar, t. d. til næsta árs, þá verður auðvitað svo að vera, ef ekki þykir hægt að ljúka rannsókn á skemri tíma. Annars held jeg, að verkfræðingur gæti fljótt komist að niðurstöðu um það, hvort tiltækilegt væri að setja brú á ána eða ekki. Ef ekki þykir í það leggjandi, virðist þýðingarlaust að draga lengur en til næsta sumars að gera tilraun með fyrirhleðslu. Eftir því sem landsverkfræðingurinn hefir látið í ljós við mig, og einnig kom fram í ræðu hæstv. atvrh. (MG), telur hann slíka fyrirhleðslu ekki frágangssök. Það eina, sem á móti mælir, er andstaðan að austan.

En eins og jeg sagði áðan, verður vatnið einhversstaðar að renna, og þá helst þar, sem það gerir minst tjón, og það er óneitanlega frekar að austan en vestan. En vitanlega verður þess að gæta, að það falli ekki þar heldur í einn einasta ál, meðan engin er brúin.