09.03.1926
Neðri deild: 26. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

3. mál, happdrætti og hlutaveltur

Forsætisráðherra (JM):

Mjer skilst, að við hv. 2. þm. Reykv. sjeum sinn á hvorri skoðun um happdrætti, og sennilega hlutaveltur líka. Hv. þm. vill auðsjáanlega gera mönnum sem allra hægast fyrir að fá leyfi til að halda happdrætti, en jeg vil ekki, að aðgangurinn að því sje greiður. Jeg álít nefnilega, að hvorki slíkar hlutaveltur nje happdrætti sje mjög æskileg. Jeg hygg, að hjer í bænum, að minsta kosti, sjeu menn farnir að finna til þess, að hlutaveltur eru orðnar hreinasta plága, því að bæði rekur einatt hver hlutaveltan aðra, og stundum eru fleiri haldnar á einum og sama degi, enda hefir líka bæjarstjórnin talað um það, að henni þætti þetta ekki gott. Jeg hygg líka, að menn yrðu fljótt þreyttir á því, ef svo að segja hver maður hefði leyfi til að halda happdrætti. Jeg tel vel fallið, að dómsmálaráðuneytið veiti þessi leyfi. Jeg hefi tekið þá afstöðu um sinn, að neita svo að segja öllum um leyfi til að hafa happdrætti. Það er aðeins eitt einasta fjelag, sem fengið hefir slíkt leyfi árlega, og mætti segja, að það hafi fengið hefð á því. Annars hefi jeg altaf neitað, og jeg skal geta þess, að jeg tel, að rjett væri að takmarka mjög hlutaveltur. Sem sagt, skoðanir okkar hv. 2. þm. Reykv. eru hvor á móti annari, og vil jeg ekki orðlengja frekar um þetta að sinni, en vitanlega verða hv. þm. að greiða atkvæði um þetta mál eftir því, hvort þeim þykir æskilegra, að mikið verði eða lítið um happdrætti. Því að það mega hv. þm. vera vissir um, að ekki mun verða mikil fyrirstaða hjá einstökum bæjar- eða sveitarstjórnum um að leyfa happdrætti. Slík happdrætti eru vanalega í góðu skyni, en samt álít jeg, að þau eigi að takmarka.

Þá þykir hv. þm. undarlegt, að það skuli vera aðrir, sem leyfi hlutaveltur en happdrætti. En hlutaveltur eru meir bundnar við sveitirnar og bæina, þar sem þær eru haldnar, heldur en happdrættin. Það er oft tilgangurinn að selja happdrættismiða um alt landið.