08.03.1926
Efri deild: 22. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í D-deild Alþingistíðinda. (2976)

54. mál, kaup á snjódreka og bifreiðum

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer finst ekkert athugavert við það, þó jeg játi, að jeg hafi upplýsingar mínar í þessu máli frá vegamálastjóra. En hitt veit jeg ekkert um, hvort hv. flm. (JJ) getur staðið við það, að vegamálastjóri verði sjer til minkunar fyrir það, sem jeg hafði eftir honum. En eftir því að dæma, sem hv. flm. fórust orð í framsöguræðu sinni, þá hefir hann aldrei sjeð þennan bíl og veit ekkert um hann annað en það, sem hann hefir lesið og sjeð um hann í auglýsingaritum frönskum, sem honum hafa borist, og eftir frásögn einhvers prófessorssonar hjer í Reykjavík, að mjer skildist. En móti þessu er skýrsla vegamálastjóra, sem þekkir bílinn bæði af sjón og reynd, því hann hefir að líkindum einn hjerlendra manna ferðast með honum. Jeg verð nú að segja það eins og það er, að mjer virðast gögn þessara tveggja manna ærið ólík. Hv. flm. (JJ) hefir aðeins sjeð myndir af bílnum og lofar hann, samkvæmt auglýsingameðmælum, á hvert reipi. Vegamálastjóri hefir ferðast í bílnum og komist að þeirri reynslu, meðal annars, að hann sje ónothæfur í lausasnjó.

Jeg skal játa það, að jeg skoðaði þetta sem snjóbíl, og studdist þar við orðalag tillgr. En nú vill hv. flm. leggja meiri áherslu á torfærur eða vegleysur á auðri jörð. Jeg get ekki talið Holtavörðuheiði vegleysu, eins og hv. flm. (JJ) vildi halda fram til stuðnings máli sínu, að þar mundi bíllinn gefast vel. Eins og jeg tók fram, þá skil jeg till. þann veg, að bíllinn, eftir frásögn hv. flm., sje jafnvígur í snjó og á vegleysum. Nú hefi jeg upplýst, samkv. skýrslu vegamálastjóra, að bíllinn komist ekkert áfram í lausasnjó. Hann kemst þá því aðeins yfir Holtavörðuheiði að vetrarlagi, að harðfenni sje, en það geta allir bílar.

Jeg viðurkenni ekki, að frá mjer hafi andað neinum kulda gegn þessu máli, þó jeg hafi skýrt hjer frá upplýsingum, sem opinber starfsmaður landsins ljet mjér í tje um málið, og það einmitt sá maðurinn, sem stjórninni er skylt að leita til, þegar um samgöngur innanlands er að ræða. Enginn getur ætlast til, að stjórnin segi já og amen við hverju nýmæli, áður en hún hefir leitað sjerfræðinga þeirra, sem hún hefir sjer til aðstoðar.

Þess vegna kemur mjer dálítið á óvart, að hv. flm. (JJ) firtist við mig, þótt jeg segi frá upplýsingum þeim, sem ráðunautur stjórnarinnar í þessu máli hefir gefið mjer. Sjálfur hefi jeg ekki, fremur en hv. flm. (JJ), sjeð þennan bíl, öðruvísi en í auglýsingaritum, sem enginn hörgull er víst á.

Annars finst mjer óforsvaranlega hart að kveðið hjá hv. flm. (JJ) að telja vegamálastjóra ekki færan um að gegna starfi sínu framvegis, fyrir það eitt, að vilja ekki gleypa við þessari flugu flm. að órannsökuðu máli. Og sjerstaklega hart tel jeg þetta af því, að jeg ber hið besta traust til þessa embættismanns og tel, að hann standi mjög vel í sinni stöðu.