08.03.1926
Efri deild: 22. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í D-deild Alþingistíðinda. (2981)

54. mál, kaup á snjódreka og bifreiðum

Flm. (Jónas Jónsson):

Að jeg nefndi Djúpós, var af því, að jeg vildi með dæmi sýna, að það er ekki altaf tryggilegt að treysta sjerfræðingunum. Nú hefir hv. 1. þm. Rang. (EP) játað, að vegamálastjóri hafi í fyrstu ætlað að hlaða fyrir ósinn, en ekki þorað að láta það uppi.

En hann bætti því við, að verkfræðingurinn hefði leynt menn því, hvað hann ætlaði að gera. En það sjá allir, að enginn getur um það vitað, nema sá alvísi, þegar annað er sagt en það, sem hugsað er. En flesta mun gruna, að þessi frásögn um leynifyrirætlanir í sambandi við Djúpós sje tómur skáldskapur. Það var nefnilega engin ástæða til að leyna þessu, einmitt því, sem kunnugu mennirnir á staðnum heimtuðu.

Jeg vil nú leyfa mjer, alveg án þess að ætla mjer að erta nokkurn mann, að benda hv. 1. þm. Rang. (EP) á, hvað kyrstöðumönnunum getur yfirsjest. Hann lýsti því með sterkum orðum á þinginu 1913 eða 1914, að óhugsandi væri, að bændur í Rangárvallasýslu gætu nokkurn tíma haft gagn af bílum. Hvern gat grunað það þá, hve geysimikla þýðingu vöruflutningabílar mundu koma til með að hafa fyrir bændur þar eystra? (EP: Jeg veit ekki betur en að jeg hafi altaf verið með því að styrkja bílana). Jeg skal sýna hv. þm. það einhvern tíma seinna, hvað hann hefir sagt um þetta. Annars get jeg þessa ekki hjer til þess að erta hann, heldur til þess að sýna yfirboðara hans, hæstv. atvrh. (MG), hve hættulegt og varasamt það getur verið að vera vantrúaður á nýjungar. Hæstv. ráðh. sagðist vera til með að fylgja þessari till., ef það væri sannað, að gagn yrði að. En það situr illa á hæstv. ráðh. að segja þetta, þar sem hann hefir „bóndafangað“ deildina til þess að greiða atkvæði með 5 þús. kr. fjárveitingu til nets yfir Þverá, sem mjög litlar líkur eru til að komi að nokkru gagni. Jeg greiddi atkvæði með því sem tilraun, af því að mál þetta er stórt, og móti ágangi Þverár má ekki láta nokkurt ódýrt úrræði ónotað.

En jeg fæ ekki betur sjeð en að þeir, sem greiddu atkvæði með því að veita 5 þús. kr. til nets yfir Þverá, geti einnig staðið sig við að veita 10 þús. kr. til þess að kaupa þennan snjóbíl, því að áreiðanlega eru meiri líkur til, að hann komi að gagni, heldur en vírnetið í Þverá.