11.05.1926
Neðri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í D-deild Alþingistíðinda. (3065)

118. mál, rannsókn veiðivatna

Flm. (Halldór Stefánsson):

Jeg þarf raunar ekki margt að segja. Hv. þm. N.-Þ. (BSv) hefir tekið af mjer ómakið að nokkru með því að lýsa nauðsyn þessa máls. Jeg þykist skilja, að jeg hafi e. t. v. gert mjer of góðar vonir um undirtektir, en þó er jeg ekki enn búinn að sleppa þeirri von.

Það hefir verið bent á, að fjvn. muni ekki hafa viljað sinna þessu máli, en síðan hafa ástæður breyst. Ætlunin var í fyrstu að fara aðra leið, en nú er sú leið lokuð, og því er till. borin fram, frekar en að málið falli niður. Það má auðvitað segja, að óviðkunnanlegt sje að koma fram með þetta eftir að fjárlög eru nýsamþ. En meðan fjárlögin voru í Ed. varð ekki vitað, hvaða afdrif þau fengju, og gert var ráð fyrir, að tækifæri gæfist til að koma þessu að við eina umr. hjer. Það var ekki fyr en við flm. vissum um það samkomulag, sem varð um að samþ. fjárl. óbreytt eins og þau komu frá Ed., að við tókum það ráð að fara þessa leið.

Þá vildi hæstv. atvrh. segja, að ekki væri nauðsyn á að nota aðstoð þessa útl. manns, af því að von væri á innlendum manni, Pálma Hannessyni, sem gæti tekið að sjer þetta verk, og taldi hann, að frá þessum manni væri verkefni tekið. Það má kanske segja sem svo, en verkefnið er þá ekki eins mikið og við höfðum ætlað, ef dr. Reinsch lýkur miklu af því á einu sumri. Jeg get bent hæstv. ráðh. á, að í öðrum löndum, t. d. Noregi, eru margir starfandi fræðimenn af þessu tæi. Á það má líka líta, að þessi maður hefir bæði vísindalega og verklega þekkingu, og það má vel hugsa sjer, að störf hans hjer yrðu góð undirstaða fyrir Pálma Hannesson, sem kemur fræðilega lærður, en vantar verklega þekkingu til að byrja með. En hjer er áreiðanlega um svo mikið verkefni að ræða, að eins sumars verk getur ekki tekið mikið frá Pálma.

Jeg tók fram í fyrri ræðu minni, að upphæðin, sem farið er fram á, væri lág, en gæti þó nægt. Hún er að vísu lægri en það, sem reyndist þurfa í fyrra, en þá voru það ekki nema sum hjeruðin, sem kostuðu dvöl dr. Reinsch innanhjeraðs. Nú er ætlast til, að þau geri það öll, og að sjálfsögðu mundi Búnaðarfjelagið ekki láta á sjer standa að greiða það, sem á kynni að vanta.

Um fjárveitinguna til að sprengja fossinn er sama máli að gegna og um hitt, að ætlað var að bera þá till. fram við eina umr. í Nd., en þessi leið tekin, þegar þau sund voru lokuð. Jeg sje svo ekki ástæðu til að segja meira, en þakka góðar undirtektir yfirleitt.