14.05.1926
Efri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í D-deild Alþingistíðinda. (3125)

124. mál, sýslumenn og bæjarfógetar megi ekki eiga sæti á þingi

Forsætisráðherra (JM):

Um það, hvort stjórnin muni leggja til breytingar á stjórnarskránni, ætla jeg ekki að segja nú. En hvað þau atriði snertir, sem hv. flm. till. (JJ) gat um, er það rjett, að til þess að semja ákvæði um þau þarf stjórnarskrárbreytingu.

Um tillöguna sjálfa skal jeg geta þess, að mjer þykir alveg nógu langt farið að útiloka hæstarjettardómara frá þingsetu. Og þó að jeg væri í þeirri nefnd, sem á sínum tíma hafði það mál til meðferðar, er jeg ekki viss um, að það hafi verið svo vel ráðið. Ef þær breytingar verða gerðar, að dómsvaldið er alveg skilið frá umboðsvaldinu, þá kæmu allir dómarar landsins undir ákvæði stjórnarskrárinnar. Það er vafasamt, hvort nokkurt gagn er að því, að reynt sje að byrgja fyrir, að dómarar taki þátt í pólitík landsins. Dómarar munu hafa sínar ákveðnu skoðnir, hvort sem þeir eru á þingi eða ekki, svo að jeg held ekki, að þetta, sem alls ekki er alstaðar í stjórnarskrám landanna, sje svo klókt.

Jeg skal vera stuttorður, eins og hv. flm. (JJ), en jeg vil bæta því við, að sýslumenn, sem verða að skifta sjer af allskonar málum, geta oft ekki komist hjá því að lenda í pólitík. Pólitík grípur svo oft inn í sveitamálin. Jeg mundi því ekki treysta mjer til að taka slíkt ákvæði upp, en komi fram frv. um breytingar á stjórnarskránni á næsta þingi, er hægt að koma þessu að af þingmanna hálfu.