08.04.1926
Sameinað þing: 4. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í D-deild Alþingistíðinda. (3140)

73. mál, kröfur til trúnaðarmanna Íslands erlendis

Jón Baldvinsson:

Jeg skal ekki lengja umr. að þessu sinni, en vil aðeins í örfáum orðum gera grein fyrir atkv. mínu.

Jeg ætla að greiða þáltill. þeirri, er hjer liggur fyrir, atkvæði, og tel í rauninni óhugsandi annað en að hún verði samþykt, svo sjálfsögð er hún í mínum augum.

Og þó að jeg skrifi ekki undir alt, sem hv. flm. (JJ) sagði í framsöguræðu sinni, þá var því miður alt of mikið satt í því, er hann sagði um embættismenn og fulltrúa þjóðarinnar marga hverja, að þeir hafa ekki komið fram svo sem ætlast verður til af þeim mönnum, er þjóðin tyllir í virðingar- og trúnaðarstöður. Og þótt nokkrar ákúrur kunni að felast í ályktun þessari til stjórnarinnar, þá lít jeg aðeins á það sem þarflega áminningu, er sjálfsagt sje að samþykkja.