05.05.1926
Efri deild: 67. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í D-deild Alþingistíðinda. (3159)

100. mál, málshöfðun gegn Sigurði Þórðarsyni

Forsætisráðherra (JM):

Jeg býst við því, að a. m. k. hv. flm. (JJ) minnist samtals þeirra feðga Sturlu Sighvatssonar og Sighvats á Grund eftir orustuna í Bæ. Þá var uppgangur Sturlu sem mestur, og varð þeim feðgum tíðrætt um orustuna. Sighvatur sagði Sturlu, að nú þyrfti hann að búa sem best um sig, hafa stórt bú og marga þjónustumenn. Taldi hann upp þá, er þjóna skyldu til Sturlu, og voru það allir hinir helstu höfðingjar. Síðan berst saga þessi suður í Hítardal til Lofts biskupssonar. Líkaði honum hið besta og sagði, að þetta væri allkerskilega mælt, en þó vel til komið, og hverjum fengið það, er best henti. En er kom að honum sjálfum, en hann átti að vera hestasveinn Sturlu, hljóp hann upp og mælti: Djöfull hafi þeirra hróp ok þrífisk þeir aldrei!

Það virðist vera eitthvað líkt með hv. flm. (JJ). Þegar þessi pjesi kom út, var hann allgleiður og sá þá aðeins það, sem þar var ilt sagt um mótstöðumenn hans. Í Tímanum var hið ákafasta lof um pjesann, og vil jeg fara að dæmi hv. flm. og biðja hæstv. forseta í eitt skifti fyrir öll leyfis til að lesa upp nokkra kafla.

Fyrst talar blaðið um, hve „geysimikla athygli og umtal“ ritið hafi vakið, og „verða kaflar úr því birtir hjer í blaðinu“. Síðan er því jafnað við Aldarhátt Hallgríms Pjeturssonar. „Höf. er einn af helstu og merkustu lögfræðingum landsins, maður, sem ávalt hefir notið mikils trausts og virðingar“. (Sbr. framsöguræðuna í gær). „Þess vegna mun mikið tillit verða tekið til þessarar ádeilu hans. Hefir rit hans marga og merka kosti, en um leið nokkra galla“, — Nokkra galla! — „einkum ávantanir . . . En þakklæti alþjóðar á Sigurður Þórðarson skilið fyrir að hafa gerst rödd hrópandans á gamals aldri, því að vitanlega hefði honum verið um alt þægilegra að „þegja þunnu hljóði“. — Þetta er óttalega hátíðlegt. — „Mun enginn efa, að heilög vandlæting og rjettlætistilfinning valda því fyrst og fremst, að ritið er samið“. Svona gengur dælan áfram. Þeir, sem vilja sannfærast um, að hjer sje rjett hermt, þurfa ekki annað en lesa Tímann frá 10. jan. 1926. Svo bætir höfundur ritsins úr einni „ávöntuninni“, dómi um 3. landsk. sjálfan. En þá fer fyrir honum eins og Lofti biskupssyni. Höfundur „Nýja sáttmála“, þessi stórmerki maður, rödd hrópandans á eyðimörku, hann er alt í einu orðinn að geðveikum manni. Jeg ætla að láta þetta nægja til þess að sýna, hvað veldur öllum þessum gauragangi í hv. 3. landsk. Hann sagði, að Tíminn hefði þegar í upphafi fordæmt þá hlið pjesans, sem sneri út á við. En það var ekki fyr en síðar. Í byrjun var það talið meinlaust. Yfirleitt var ekki hægt að lofa pjesann í hærri tónum en Tíminn gerði, og er óhætt að segja, að pjesanum var ekki ver tekið en í Verði og Morgunblaðinu. Hv. þm. talaði um ávantanir í ritinu. Honum var ekki nóg, að sú væri tekin með, er jeg nefndi áðan. Hann vildi líka hafa með mótökuna í Reykjavík og Krossanesmálið. Það er dálítið spaugilegt að vilja hafa mótökuna með. Jeg fæ ekki sjeð, hvað hún kemur stjórnmálum við. En um Krossanesmálið er það að segja, að hv. þm. mun eiga nokkuð erfitt með að vekja það upp. Það er búið að kveða það svo vandlega niður.

Hv. 3. landsk. sagði, að í ritinu væri aðallega ráðist á mig og hv. þm. Seyðf. (JóhJóh). Þetta er fjarri öllu lagi. Það er ráðist svo að segja á alt og alla, á alla stjórnmálaflokkana, á háttv. 1. landsk. (SE) og enn marga fleiri nafngreinda menn, auk þess á þjóðina alment o. s. frv. En það er rjett, að sumu í bæklingnum er beint til mín og hv. þm. Seyðf. Jeg er ekki vanur því að svara, þótt á mig sje ráðist í blöðum eða flugritum eða þesskonar. Jeg minnist þess ekki, að jeg hafi nokkru svarað í blöðunum ásökunum á mig. Vinir mínir hafa að vísu sagt mjer, að jeg hafi hlotið tjón af því, að jeg hefi ekki tekið til andmæla. Jeg hefi samt ekki orðið þess svo mjög var, að svo hafi verið. Þegar jeg hefi leitað almenningsdóms um mig, svo sem stjórnmálamenn einatt gera, þá hefi jeg ekki orðið þess var, að sá dómur hafi verið mjer svo andstæður. Meðan jeg var dómari kom það fyrir, að jeg var sakaður um það opinberlega, að jeg jafnvel gegn betri vitund dæmdi ranga dóma. Jeg bar þetta alls ekkert af mjer, en æðri dómur svaraði fyrir mig.

Eitt af því, sem hv. 3. landsk. talaði um alveg fyrir utan efnið, var síldarmálið gamla. Það er ógeðslegt, hversu þessi hv. þm. er stöðugt að reyna að glefsa í andstæðinga sína, þótt hann viti, að þeir geti ekki svarað fyrir sig, og það snerti ekki það mál, sem um er að ræða. Það var mjög óvandað og átti ekki við að leiða það mál inn í umræðurnar hjer. Það mál var eingöngu rógsmál og hafði engin áhrif á mannorð þeirra manna, sem fyrir árásunum urðu eða álit almennings á þeim. Það var og er rógsmál.

Þá skal jeg að nokkru snúa mjer að ásökunum þeim á mig, sem hv. þm. las upp úr ritinu, og hann gerði að sínum og verður að bera ábyrgð á, úr því að hann flutti þær hjer inn. Hann sagði — í annara orða stað. — að stjórnarráðið hefði kæft undir sjer alt velsæmi og rjettlæti. Svona ummæli eru vitanlega einskis virði. Þetta eru stór orð, sem slegið er fram algerlega út í bláinn og alls ekki er hægt einusinni að rökstyðja. Ein af þeim fyrstu ásökunum, sem hv. þm. gerði að sínum með því að taka þær upp, voru sýslumannaskiftin í Árnessýslu. Jeg man nú ekki, hvað hann sagði um þetta, en jeg tók eftir, að hann sagði, að um tveggja ára skeið hefðu sýslumennimir verið 15 eða 16. (JJ: Það stendur í bókinni). Hv. þm. ber ábyrgð á því eigi að síður. Þessu var svarað fyllilega á þinginu 1919, og um það átti hv. þm. að geta vitað. Þá voru þeir reyndar ekki heldur nema 13–14. Þá rak jeg þetta alt til baka og leiðrjetti þessa tölu. Jeg sýndi fram á, að lengst af þessum tíma hefðu þjónað sýslunni lögfræðingar, alls 3. Stuttan tíma þjónaði hreppstjóri embættinu, geðugur maður. Kom það til af því, að lögfræðingur sá, sem settur var til að þjóna embættinu, veiktist hjer í inflúensunni 1918 og ekki var hægt að fá lögfræðing í staðinn. Loks þjónaði einn maður um stuttan tíma. Það er þess vegna miður vandað, bæði af höfundi ritsins og hv. þm., að taka þetta þannig upp, þegar jeg leiðrjetti það á þinginu 1919, og því var ekki mótmælt. Þetta sýnir, á hve góðum rökum ásakanirnar eru bygðar. Það, sem sagt er að sjeu 14 eða 15, eru í raun og vera 3 lögfræðingar og 1 hreppstjóri, sem kemur í staðinn fyrir veikan lögfræðing, og enn einn maður. Hitt hefir komið fyrir, að sýslumennirnir hafa brugðið sjer í burtu 1–2 daga, og gegnir þá t. a. m. skrifari sýslumannsstörfunum. Hefir vitanlega ekki verið að því fundið. Jeg veit ekki til, að verið sje að skifta sjer af því, þótt nú hv. 1. þm. Árn. (MT) skreppi við og við til Reykjavíkur. Annars er það merkilegt, bæði af höf. og hv. flm., að taka upp þessa sögu, sem væri fyrnd, ef um sök væri að ræða.

Eitt atriði hafa höf. og hv. flm. fundið í sambandi við þetta, sem þeir eru mjög gleiðgosalegir yfir, en það er, að sýslumaður skuli hafa verið settur á eigin ábyrgð. Til þessa segja þeir, að aldrei hafi þekst dæmi fyr. Jeg hafi fundið það upp og eigi heiðurinn af.

Að þetta skuli vera sagt í svona hátíðlegri deilu, sýnir, hversu lítilfjörlegt það er, sem hægt er að tína til, og auðvitað er það ekki satt, að þetta sje eins dæmi. Jeg gæti nefnt ýms dæmi, en skal láta mjer nægja að nefna tvö nokkuð gömul.

Þegar Grímur amtmaður dó 1849, var settur dómari úr landsyfirdómnum til þess að þjóna amtmannsembættinu norðan og austan, og aftur annar embættismaður til þess að þjóna dómaraembættinu, að sjálfsögðu á eigin ábyrgð. Er Ólafur stiftamtmaður Stefánsson var nefndur með öðrum til þess að athuga embættaskipunina, var hann leystur frá stiftamtmannsembættinu um stund, og amtmaðurinn í Vesturamtinu, Vigfús Jónsson, Eiríkssonar, settur til að þjóna stiftamtmannsembættinu með sínu á eigin ábyrgð. Og það stendur beint í sjálfum launalögunum, að svona skuli að farið. Ef hv. þm. hefði vit á að lesa lög, þá gæti hann sannfært sig um það. Þar stendur, að ef maður er á þennan hátt tekinn úr embættinu, þá skuli hann láta af hendi laun þau, er fylgja embætti hans sjálfs, auðvitað af því að hann á þá ekki að útvega mann í sinn stað.

Þá átti það að vera mikil sök að taka sýslumanninn í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og setja hann í bæjarfógetaembættið í Reykjavík, er jeg varð ráðherra fyrst, en setja aftur annan í hans stað í sýsluna. Hjer ber enn að sama brunni. Það er merkilegt, að hv. þm. skuli detta í hug að bera fram slík smáatriði sem þessi. Jeg hefi annars ekki orðið var við neina óánægju hjá viðkomendum út af þessu. Enginn hefir kvartað um, að sýslumaðurinn, sem settur var í bæjarfógetaembættið, hafi gegnt því illa, og ekki hefir heyrst, að sá, sem settur var í sýsluna, hafi staðið illa í stöðu sinni. Hver hefir þá beðið skaða af þessu? Ekki ríkissjóður. Kostnaður var ekkert meiri fyrir hann.

Hv. þm. var eitthvað að tala um, að sýslumanninum muni hafa áskotnast meiri peningar með þessu móti. En það er ekki bent á, að nokkur hafi skaðast við þetta. Því þá alt þetta uppþot? Ja — þetta eru nú hinar miklu sakir.

Jeg er hræddur um, að jeg kunni að hlaupa yfir eitthvað af því, sem hv. þm. hefir tínt upp úr pjesanum og gert að sínum orðum. Jeg ætla ekki að orðlengja mikið um það, sem hann sagði um embættismanninn, sem leystur var frá embætti sínu um stundarsakir. Þetta er maður, sem hefir þjónað embætti sínu mjög lengi og með miklum dugnaði og int af hendi annars mjög margt til þjóðþrifa, það, er þjóðin á honum mikla þakklætisskuld fyrir að gjalda. Jeg ætla ekkert að afsaka þetta og held, að hv. flm. hefði verið sæmra að láta þessa afsökun liggja. En þar sem höfundur ritsins og háttv. flm. eru að tala um ranga skýrslu, sem jeg hafi gefið í þessu sambandi, þá eru það hrein og bein ósannindi hjá báðum. Jeg veit ekki, hvort hv. flm. veit einu sinni, hvað höfundur pjesans meinar með þessu. En það hefði verið innan handar fyrir báða að fá að vita hið sanna um þetta atriði í stjórnarráðinu. Jeg gæti einnig vísað til hv. 1. landsk. (SE) um það efni, og mundi hann staðfesta það, er jeg segi um þetta, ef þörf væri.

Þá talaði hv. flm. um, að komið hefði fyrir sjóðþurð hjá embættismönnum, ríkissjóður hefði skaðast og ekkert hefði verið tekið á þessu. Það er nú ekki nýtt, hvorki hjá höf. pjesans nje hv. flm. (JJ), að tala um linleika í þessu efni hjá stjórninni. Það hefir og verið talað um þetta í blöðum, og mjög svo hvatvískega í einu, út af sjóðþurðinni í útsölu áfengissölunnar. En það vildi nú svo til, að það var einmitt tekið mjög svo hart á þeirri sjóðþurð. Það komu meira að segja fram raddir um, að þar væri farið alt of hart í sakirnar.

Þeir, sem fyrst og fremst áttu að bera ábyrgð á því, voru í upphafi rannsóknar settir í gæsluvarðhald, skipaður sjerstakur rannsóknardómari og gert alt, sem hægt var; en einmitt þetta dæmi nefnir höfundur „Nýja sáttmála“ og svo hv. þm. (JJ). (JJ. Jeg mintist ekki á þetta mál). Nei, ekki berum orðum, en hv. þm. (JJ) sveigði að því, og „Nýi sáttmáli“ nefnir einmitt þetta mál. En jeg skal segja hv. þm. (JJ) það, að eftir minni skoðun ber einmitt, eftir öllum atvikum, afarlítið á sjóðþurð hjá opinberum innheimtumönnum. Og þegar verið er að lofa hinar fyrri kynslóðir á kostnað hinnar núlifandi, þá má ekki gleyma því, að sjóðþurð kom og áður fyrir hjá embættismönnum, t. a. m. seinast á 18. öld og á 19. öldinni, og var sannarlega ekki tekið harðara á því en nú. Embættismennirnir mistu ekki einu sinni altaf embættin fyrir það. En þegar það nú hefir komið fyrir, svo að nokkur brögð hafa að verið, hafa mennirnir orðið að láta af embættum sínum, jafnvel þótt þeir hafi bætt sjóðþurðina að fullu, og það er einmitt merki upp á það, hve vandaðir embættismenn landsins eru, hve lítið skuli bera á þessu, og svo er verið að ásaka embættismannastjettina fyrir bæði það og annað.

Hið sanna er, að menn, sem varla hafa nægileg laun sjer og sínum til framfæris, verða að standa skil á hundruðum þúsunda króna, enda skila hverjum eyri. Ásökun á embættismannastjettina er mjög ómakleg. Náttúrlega hlýtur altaf að koma fyrir eitthvað, er að má finna, en jeg staðhæfi, að embættisstjettin íslenska sje yfirleitt mjög góð og heiðarleg stjett.

Annars man jeg ekki í bili til, að það hafi verið tekið neitt verulega hart á nema einu einasta tilfelli sjóðþurðar, nema það, að á síðustu tímum hafa viðkomandi embættismenn svo að segja altaf orðið að láta af sínum embættum, og heldur hv. þm. (JJ), að það sje ekki nokkur hegning? Hegningarlögin líta að minsta kosti þannig á, að svo sje.

Jeg neita því afdráttarlaust, að stjórnin eigi nokkra ásökun skilið fyrir of mikinn linleik í þessu efni, og allra síst, að vægara sje tekið á þessu á síðustu tímum en áður.

Jeg veit ekki nema jeg geymi mjer það dálítið enn að tala um það svo kallaða „morðmál“. Jeg veit það nú líka, að hvað sem jeg segði um það, mundi hv. flm. (JJ) alls ekki skilja mitt mál. En það var annað mál, sem hv. flm. (JJ) nefndi, sem hann kannske, og þó líklega ekki, skilur, því mjer dettur ekki í hug að halda, að alt þetta skilningsleysi, sem einmitt kemur hjer fram hjá hv. þm. (JJ), um almenn málefni, sem snerta lög, sje uppgerð. Jeg held, að það sje virkilega svo, að hv. þm. (JJ) skilji það ekki.1).

Málið, sem jeg vildi nefna og hv. þm. (JJ) taldi svo óskaplegt, það er málssókn lögregluþjónsins í Reykjavík. Ásökunin þar er mjög óvönduð, bæði hjá hv. flm. (JJ) og hjá höfundi ritsins. Dylgjurnar um það, að mál þetta sje sprottið af því, að hið opinbera hafi þurft að dylja eitthvað, eru rakalausar. Jeg hefi spurt lögreglustjórann í Rvík, hvernig standi á þessu, og hann sagði, að dylgjumar um þetta væru gersamlegur uppspuni. Hann sagði einnig, að aldrei hefði komið til tals annað en meiðyrðamál, vegna þess, að hann áliti, að það, sem fram fór í því húsi, sem lögregluþjónninn kom í, væri þannig lagað, að það væri mjög óvíst, að mótgerðin gegn lögregluþjóninum yrði skoðuð brot gegn embættismanni við embættisverk. Það ráð var því tekið að höfða einkamál, heldur en að eiga það á hættu, að málinu yrði vísað frá, vegna þess, að það heyrði ekki undir opinbera málssókn, og þá væri kærurjetturinn í einkamálum burt fallinn, því að hann er svo stuttur.

Jeg sagði það áðan, að jeg gerði ekki ráð fyrir því að tala mikið um hið svo kallaða morðmál, en jeg ætla samt að minnast ofurlítið á það. Jeg held, að hv. flm. (JJ) hafi sagt eitthvað á þá leið, að það mætti leggja nokkuð mikið upp úr dómi höfundarins um þetta mál, því að hann hefði haft svo mikla reynslu í slíkum málum, að óhætt væri að gera það. (JJ: Hann hefir lagt langmesta vinnu í þann kafla bókarinnar). Hv. þm. (JJ) sagði, að hann færði fram mest rök í þessu máli. Höfundur bókarinnar var að vísu nokkuð lengi sýslumaður, en hann hafði ósköp litla reynslu í þessum málum. Það er nefnilega svo, að reynsla í sakamálameðferð hefir enginn dómari verulega, nema dómarinn í Reykjavík. Jeg tala nú ekki um sýslumenn í sveitasýslum, svo að það er alls ekki leggjandi mikið upp úr dómi höfundar „Nýja sáttmála“ þess vegna, og það er eitt merkilegt um þá menn, sem hafa litla reynslu í svona málum, að þeir halda, að þeir geti sjeð sekt eða sakleysi svona manna fyrirhafnarlítið, sjái það „út“, bæði af gögnum og öðru. En það er álit þeirra manna, sem bestir eru taldir meðal dómara — og þar vil jeg sjerstaklega vitna til enskra dómara, sem kanske eru frægastir meðal allra dómara heimsins — að ekkert sje eins hættulegt og mat þeirra manna, sem ekki hafa reynslu í þessum efnum. Það er nú ekki einu sinni svo, að það, sem talið er líkur, sje það í augum manna, sem hafa haft nokkuð mikið með slík mál að gera. En setjum nú svo, að óreyndum manni sýnist vera býsna miklar líkur fyrir sekt. Þá er þó ekki eins mikið á því að byggja og því, sem rannsóknardómari, er með málið hefir farið, segir og veit um það. Hans þekking stendur ólíkt dýpra en þekking bæjarmanna, sem aðeins heyra um prófin úr blöðum og ýktum ummælum manna á milli.

Jeg minnist þess frá minni eigin reynslu, að jeg hafði einusinni með morðmál að gera. Þar voru tveir menn við riðnir. Annar þeirra játaði tiltölulega fljótt, en hinn, sem líkurnar bárust að, og meira að segja mjög miklar, játaði aldrei. Það var gengið nokkuð hart að þessum manni, af því að líkurnar voru, í augum mínum og annara, sem til þektu, svo afskaplega sterkar. Svo fór að bera á því, að maðurinn virtist vera eitthvað ruglaður. Jeg bar mig saman við geðveikralækninn, og vorum við báðir sammála um það, að þetta mundi vera uppgerð. Svo liðu tímar, og aldrei komst maður lengra en svo, að það voru aðeins líkur, og maðurinn neitaði stöðugt. Svo var loks ekki annað ráð en að setja manninn í geðveikrahælið á Kleppi. Þetta var árið 1914. Þar er maðurinn enn, annaðhvort vitskertur eða eitthvað minna ruglaður, og hefir aldrei nokkur skapaður hlutur frekar komið í ljós um það, að hann væri sekur, miklu fremur það, sem heldur fer í gagnstæða átt. Jeg, hefi, síðan jeg hafði þetta mál til meðferðar, verið bæði ragari við að byggja á líkum, og sömuleiðis verið ragari við að heimta af öðrum, að þeir byggi á líkum. Ef maðurinn hefir verið saklaus, sem vel getur verið, þá á jeg að vísu enga sök á því, hvernig fór, enda veit jeg, að enginn, sem til þess morðmáls hefir þekt, hefir talið það, en það eru þá hegningarlögin og rannsóknaraðferðin, sem eiga sökina á því, að maðurinn hefir síðan verið vitskertur. Þeir, sem hafa vit á þessu, eða hafa reynslu í þeim efnum, þeir láta ekki hrífast af því, þó að líkur sjeu um það, að maður sje sekur, því að það getur verið svo, að það, sem rannsóknardómarinn hefir upplýst, sje ekki einu sinni líkur. Jeg veit það ósköp vel, að það er ekki til neins að tala svona við hv. flm. (JJ). Hann annaðhvort tekur ekki eftir því eða skilur það ekki. En jeg vona, að margir, sem þetta heyra, muni skilja það, einkum og sjer í lagi, ef þeir hafa reynt og athugað sálarástand annara manna, reynt að skygnast undir yfirborðið í þesskonar sökum. Jafnvel höfundur ritsins sjálfur held jeg að mundi ekki skilja þetta, því að hann er auðsjáanlega svo bundinn við löngu yfirgefna hegningarmálaskoðun, að hann myndi ekki geta skilið það. Jeg veit það, að á meðan málið var á ferðinni, en jeg var þá ekki dómsmálaráðherra, fylgdist skrifstofustjórinn í stjórnarráðinu með um málið, og jeg get sagt það, að hann, eins og bæjarfógetinn, var sannfærður um það, að maðurinn væri ekki sekur, því að það er lítið að byggja á því, þótt maðurinn hafi orðið tvísaga, eða ekki munað rjett, því að það er ótrúlegt, hvað reynslan hefir sýnt, að vitni eða sakborningar muna lítið eða muna skakt. Það voru eitt sinn gerðar margar tilraunir með það, hve áreiðanlegt sje minni vitna, og það kemur í ljós, að það er ótrúlegt, hvað menn muna lítið, taka lítið eftir o. s. frv.

Svo leyfir hv. þm. (JJ) sjer (jeg man ekki, hvort nokkuð er um það í „Nýja sáttmála) að fara að finna að eða tala um merkilegan dóm í Kveldúlfsmálinu (landhelgisbroti). En þótt það mál færi öðruvísi í hæstarjetti en í undirrjetti, þá get jeg sagt hv. þm. (JJ) það, að þegar jeg ákvað að áfrýja því máli, var jeg alls ekki viss um, að annað yrði ofan á, en fanst málið svo vafasamt, að rjett væri að láta æðsta dómstól skera úr því. En það er oft örmjótt á milli, hvort dómari ákveður að áfella eða sýkna. Þess vegna er um þetta talað af manni, sem ekkert getur um það borið, þegar talað er um það, að þessir dómar sjeu undarlegir.

Jeg held, að þetta nægi í rauninni, sem jeg hefi sagt, til þess að sýna, að það er óvarlegt af hv. flm. (JJ) að vera að bera þetta mál fram hjer, eða vera að tala um slælega rannsókn. Það er einnig broslegur barnaskapur hjá höf. „Nýja sáttmála“ og hv. flm. (JJ) að ásaka dómarann fyrir það að bóka rjett það, sem sakborningur hefir sagt. Þetta er ásökun um það, að dómarinn skuli vera svo lítilþægur, svo mikið vesalmenni að bóka rjett það, sem sakborningur hefir sagt. Nú get jeg sagt hv. þm. (JJ) það, sem hann ekki veit, að það er einmitt mjög nákvæmleg bókun á framburði sakborninga í stærri málum, sem hefir hina mestu þýðingu. Framburðurinn er oft ekki aðeins bókaður í einu lagi, heldur líka spurningarnar og svörin, því að það er oft mjög mikils virði að bóka þetta eins og sakborningur hefir sagt það, og svo á þetta að vera einhver óskapleg vesalmenska. Þó að þessu sje haldið fram í „Nýja sáttmála“, ætti hver heilskygn maður að sjá, að það er hreinasta fásinna. Það er óráðvendni gagnvart sakborningi og embættislögum að breyta í nokkrum sköpuðum hlut því, sem hann hefir sagt.

Hv. flm. (JJ) ræddi nokkuð um, að hegningar vorar og hegningarfyrirkomulag og rannsóknaraðferðir væru orðnar úreltar. Hann mun nú ekki bera mikið skyn á það, en nokkuð mun þó hæft í þessu. En það get jeg fullyrt, að skoðanir manna hafa mjög breyst í þessum efnum, enda skal jeg játa, eftir að hafa fylgst vel með í þessu, að jeg hefi fengið þá trú, að þær kenningar hafi meira gildi fyrir heiminn, sem miða að því, að farið sje betur með afbrotamenn. Jeg get ekki farið langt út í þessar kenningar, sem eru margvíslegar og menn ekki sammála um. En af því að talað hefir verið um, hvað linlega væri hjer á eftir fylgt um einstök atvik í framkvæmd þeirri að refsa afbrotamönnum, þá ætla jeg að tala ofurlítið um, hvað aðrar þjóðir hugsa og gera í þessu efni.

Jeg geri ráð fyrir, að hv. flm. (JJ) og einnig höfundur pjesans byggi báðir á refsiskoðunum 19. aldar, sem komu fram hjá Napóleon og hjeldu svo áfram að þróast, þar sem það er aðalatriðið að meta glæpi til hegningar — meta verkið sjálft eftir einskonar verðlagsskrá. Menn sögðu aðeins: Nú er glæpur drýgður. Fyrir hann á að koma þess hegning, án þess að taka nokkurt tillit til þess, sem glæpinn drýgði. Allir gleymdu sjálfum manninum, sem brotið framdi, eins og hann væri ekki til. Þannig litu menn á endur fyrir löngu.

En þessari skoðun hefir verið snúið við á seinni tíð, svo að fyrsta spurning þeirra manna, sem hinni nýju kenningu fylgja í þessu efni, er sú: Hvað er hægt að gera við manninn, sem brotið framdi, svo að ekki stafi hætta af honum framvegis, og hvernig verður búið við slíkan mann, svo að sem tryggast sje, að hann brjóti ekki aftur?

Fyrir þeim mönnum, sem þessari kenningu fylgja, vakir hið sama og læknunum. Þeir grafast fyrir sjúkdóminn, reyna að lækna hann og fyrirbyggja með ráðstöfunum sínum, að hann taki sig upp aftur. Þeir, sem trúa á mannúð og vægð gagnvart brotamönnum, treysta því, að hægt sje að lækna þá til fulls og fyrirbyggja, að þeir brjóti aftur. Þess vegna hafa margar ráðstafanir verið gerðar úti um allan heim í þessu efni og gefist vel, t. d. að taka tillit til brota ungra manna og geðbilaðra, og sleppa um stund brotum fullþroskaðra manna, með það fyrir augum, að þeir bæti ráð sitt.

Það er mikið rjett, sem haldið er fram, að hegningarlöggjöf okkar sje orðin á eftir tímanum. En þeir segja báðir, hv. flm. (JJ) og höfundur pjesans: Við höfum lög, og lög eru lög, sem fara verður eftir. Þetta, sem þeir bera fram, er nú kanske að ýmsu leyti rjett, en nú vill svo vel til, að brotið hefir verið stórt skarð í hegningarlögin, með lögunum um skilorðsbundna hegningu, og með ákvæði stjórnarskrárinnar um, að sleppa megi málssóknum, þegar sjerstaklega stendur á, að jeg ekki nefni náðunina, sem gefur brotamönnum upp allar sakir. Með þessum lögum er ákæruvaldið frjálst að því, hvernig fara eigi með afbrotamenn, hvort hegna eigi þeim eða sleppa í bili. En það er mikið vandameira að fara með ákæruvaldið, þegar greina á milli þeirra, sem þarf að hegna, og hinna, sem á að sleppa, því að sumir líta svo á, að iðrun og hugarangur sumra brotamanna sje þeim það þung hegning, að á hana sje ekki bætandi.

Annars ætla jeg ekki að fara út í það við hv. flm. (JJ), hvaða ráð skuli höfð við þá, sem altaf eru að brjóta upp aftur og aftur. Það er eflaust vandaminst fyrir ákæruvaldið að fylgja lögunum og segja við þann, sem kærður er: Þú hefir brotið. Þú skalt þess vegna í svartholið. Og það vantar síst, að sá dómarinn fær hrós, sem rekur brotamenn hópum saman í hegningarhúsið, en hinn, sem fara vill samviskusamlega í sakirnar og lítur á þann, sem brotið framdi, eins og meðbróður sinn, hann fær harðari dóm og verri, þegar þessir tveir valdsmenn eru bornir saman. Það eldir svo sem eftir af þeirri gömlu skoðun enn, að það sje afar mikilsvert að hræða þá til meðkenningar, sem ákærðir eru, og hegna þeim, sem brjóta.

En sagan sýnir best, hvernig þetta hefir reynst. Á meðan harðast var farið með brotamenn og hegningarnar voru verstar, þá var virðingin minst fyrir lögum og rjetti.

Mjer skildist, að hv. flm. (JJ) vildi hafa mikla hegningu, þó að hann hins vegar nefndi ekki dæmi nein í því sambandi eða benti á, hve mikill og hörð hegning skyldi lögð við þessu og þessu broti. En jeg skal nefna eitt dæmi, sem oft er gripið til, þegar minst er á harða og mikla hegningu:

Manngarmur, sem talinn var geggjaður, gerði tilraun til að myrða Loðvík XV. Maðurinn var dæmdur af lífi og tekinn af að viðstöddu afarmiklu fjölmenni. Og eftir því, sem sagan segir frá, voru það ótrúlegustu kvalir og pyntingar, sem manninum voru sýndar. Þegar búið var að kvelja úr honum lífið, var líkaminn partaður í sundur og hestar látnir draga líkamshlutana um torgið til að þóknast æstum mannfjöldanum. En þess er sjerstaklega getið, sem dæmi upp á, hvað fólkið var orðið sljótt, að þegar aftakan var um garð gengin og búið að brenna líkamshluta mannsins til ösku, þá mælti ein hefðarfrúin, sem horft hafði á þennan sorgarleik, þessum orðum: Ó, Jesús minn! hvað jeg kendi í brjósti um vesalings hestana.

En hjer kemur eitt til athugunar, þegar verið er að tala um milda eða harða dóma, og það er, að taka verður tillit til almenningsálitsins. Og þá kemur spurningin: Er íslenska þjóðin nógu þroskuð til þess að bera þetta? Jeg veit ekki, hvað menn mundu alment segja, en benda vil jeg á það, að í sögum okkar er aldrei um langar pyntingar að ræða, heldur er þar um mildari hegningar að ræða en tíðkuðust annarsstaðar á sama tíma. Jafnvel á Sturlungaöldinni, sem oft er vitnað í, beittu menn ekki slíkri hegningu við brotamenn eins og dæmi annara þjóða sýna. Og sama var einnig á þeim tíma, þegar erlenda valdið rjeð hjer lögum og lofum, að minna bar á löngum og kvalafullum pyntingum hjer, á móts við það, sem tíðkaðist í nágrannalöndunum.

Jeg held virkilega, að þjóðin sje fær um að meta svona aðferðir um hegningu brotamanna, þó að hálfmentaðir menn í þessu efni geri sig að dómurum í þeim sökum, sem þeir auðsjáanlega bera ekki nokkurt skynbragð á.

Jeg veit líka, að hjer líta menn alt öðruvísi á brotamenn en hv. flm. (JJ) vill láta skína út úr því almenningsáliti, er hann heldur skildi fyrir. Mjer er kunnugt um stórþjóf, sem verið hefir hjer í hegningarhúsinu og unnið með fjölda manna, en aldrei orðið annars var en að skift væri við hann eins og aðra menn.

Þeir, sem eru að tala um, að enginn munur sje gerður á sekum og saklausum, eru hræsnarar. Þeir tala eins og Farisear, vegna þess að þeir vita sig ekki hætis hót betri en hina, sem uppvísir hafa orðið að því að brjóta í bága við lög og reglur þjóðfjelagsins. Það eru fáir jafnhreinskilnir eins og skáldið Göethe, sem haft er eftir, að það væri ekkert það brot til, sem hann hefði ekki getað drýgt einhverntíma á æfinni.

Að jeg hefi talað svona lengi um þetta eina atriði, byggist á því, að jeg ætlast til, að framkvæmdir mínar á þessu sviði fyr skýri sem best, hverjar muni verða framkvæmdir mínar framvegis, þegar brotamenn eiga í hlut. Og jeg þykist ekki þurfa að skýra þetta betur til þess, að mönnum skiljist, hver afstaða mín sje, eins og t. d. til stjórnarráðskvistsins, náðun Júlíönu eða til hinna þriggja manna, sem gefnar voru upp sakir. Jeg læt mjer í ljettu rúmi liggja, hvað sagt er um afskifti mín af þessum þrem atriðum, en það, sem jeg gerði, var ekki gert til þess að breiða yfir brot þessara manna, heldur var það sprottið af þeirri skoðun minni, að það sje þjóðfjelaginu hollast að halda brotamönnum sem lengst frá fangelsunum, þar sem andrúmsloftið er slæmt og spillandi.

Hv. flm. (JJ) varð skrafdrjúgt um byggingu stjórnarráðskvistsins og fullyrti, að hann hefði orðið óhæfilega dýr. Jeg býst nú við, að hann hefði sparað sjer slíkar fullyrðingar, ef hann hefði gert sjer það ómak að grenslast eftir, hvað mikið var gert við húsið. Hefði hann gert það, þykir mjer sennilegt, að hann hefði komist að annari niðurstöðu og hagað þá orðum sínum öðruvísi. En í staðinn fyrir það að afla sjer nauðsynlegra gagna til þess að dæma um málið, nefnir hann aðeins nokkurn hluta byggingarinnar og miðar allan kostnaðinn við það. Það sanna í þessu máli er það, að þessu gamla húsi var gerbreytt, ekki aðeins hvað alla herbergjaskipun snertir, auk margs fleira í því sambandi, heldur var einnig komið upp sjerstöku húsi handa dyraverðinum og fjölskyldu hans. Og þeir, sem þekkja, hvað það kostar að breyta gömlum húsum og gera þau sem ný, þeir segja ekki, að þessi bygging hafi orðið óhæfilega dýr.

Þá gerði hv. flm. (JJ) sjer mikinn mat úr náðun Júlíönu og þótti henni dept úr haldi eftir alt of stuttan tíma, sem hann heldur að hafi verið 4 ár. Það er nú að vísu ekki rjett með farið, að tíminn væri svo stuttur, en því ætla jeg samt að sleppa. Það má kanske segja, að 6 ár sje líka stuttur tími, en þann tíma hafði hún verið í haldi, þegar hún var náðuð. En jeg ætla að nefna það, sem maður einn, sem jeg virði mikils, sagði um náðun þessa. Honum fórust orð á þá leið, að það hefði ekki aðeins verið rjett að náða þessa konu, heldur hefði það verið það eina, sem forsvaranlegt var að gera. Og fyrir þessu færi jeg ekki aðrar ástæður en þær, sem jeg hefi hjer fyrir mjer í brjefi hjeraðslæknisins í Reykjavík. Þessi kona var sett í fangelsi árið 1913, og ætla jeg að leyfa mjer að lesa upp úr brjefi hjeraðslæknisins, sem hann segir um heilsu konunnar:

„ Í gæsluvarðhaldinu komu snemma í ljós miklar meltingartruflanir, taugaveiklun á háu stigi“ o. fl. o. fl. Henni fór versnandi svo að í apríl var það ráð tekið, að hún var sett inn í sjúkrahús. Þar var hún um tíma og hrestist svo, að hún var aftur flutt í fangelsið. En þá ótti í sama horfið, henni hríðversnaði, hún gat ekki sofið sólarhringum saman og megraðist mikið. Þá var hún aftur flutt í sjúkrahúsið, og var líðanin slæm, enda varð að gera á henni holskurð, vegna krabbameins, sem læknarnir hjeldu að gengi að henni. Í sjúkrahúsinu var hún alllengi við slæma heilsu, en smábatnaði þó svo, að hún fór að geta aðstoðað lítilsháttar við vinnu þar í sjúkrahúsinu. Læknirinn segir, að ef hún verði flutt í hegningarhúsið aftur, muni fara á sömu leið um heilsu hennar.

Þetta hefði vitanlega mátt gera, „en það væri sama og drepa hana“, bætir læknirinn við. Því var það ráð tekið að veita heldur ófullkomna uppgjöf en að láta hana ganga gæslulausa í sjúkrahúsinu.

Ef jeg eða dómarinn hefði þá haft yfir að ráða deild fyrir sjúka fanga, eins og tíðkast í öðrum menningarlöndum, þá hefði verið alt öðru máli að gegna, en jeg býst ekki við, að Alþingi hefði veitt fje til að koma slíkri deild á stofn, þó jeg hefði farið fram á það. Slík deild gæti með öllu og öllu kostað um 100 þús. kr. eða svo. Jeg læt mjer nægja þetta, en þeir um það, sem vilja ásaka mig fyrir framkomu mína. Jeg gerði það, sem jeg áleit rjettast, og það eina, sem forsvaranlegt var að gera.

Þá er það uppgjöf á hegningu þriggja manna, sem dæmdir voru fyrir innbrot. Húsið var lítilfjörlegt, auðvelt að komast inn í það. Ákvæði hegningarlaganna um innbrot „gamaldags“, en mennirnir allir ungir og höfðu sætt miklum tíma af hegningunni. Jeg taldi sjálfsagt, þegar á alt var litið, að draga úr hegningunni, og rjeðst í að gefa þeim dálítið eftir af tímanum. Og engum, sem þekkir nokkuð til, hefði dottið í hug að nefna þetta á nafn mjer til ásökunar, enda tíðkast þetta í öllum öðrum löndum. En jeg vil að endingu segja það, að svona dómar, sem sumpart eru fram komnir fyrir áhrif frá miður vandaðri blaðamensku, þeir eru ekki mikils virði. Enda verður hver dómari að sætta sig við nokkrar aðfinslur í þessum sökum, og má ekki kippa sjer mikið upp við það.

Þá kem jeg að sjálfri till. eins og hún liggur fyrir.

Jeg verð að taka það fram, að mjer finst ekki sjerstök ástæða til að orðlengja mikið um 1. lið hennar. Þó skal jeg taka fram, að mjer finst það næsta broslegt, ef Alþingi færi að höfða mál út af því, þó að sagt sje eitthvað misjafnt um það. Jeg er ekki heldur viss um, að Alþingi geti það. Jeg talaði um þetta nýlega við einn af okkar þektustu og skýrustu lögfræðingum, og hann var þeirrar skoðunar, að Alþingi gæti ekki farið í meiðyrðamál. Þetta virðist þeim mönnum ef til vill ólíklegt, sem ekkert þekkja til dómsúrskurða, en svona er það samt. Þessa læt jeg aðeins getið, en hvað um það, hvort það sje fært að fara dómstólaleiðina, skal jeg ekkert fullyrða um. En hitt verð jeg að segja, að lítið legðist fyrir Alþingi, ef það þolir ekki, þó að einhver maður segi því bituryrði. Nei, jeg held, að hv. flm. (JJ) hefði átt að skjóta þessum lið till. undir þennan örugga dóm almennings, sem honum varð svo skrafdrjúgt um. Það væri þá bágt ástand í landinu, ef Alþingi þyldi ekki önnur eins gífuryrði og þessi margumræddi pjesi hefir fram að bera. Annars vil jeg í þessu sambandi láta þess getið, að mig furðar það stórum, að menn skuli hafa gert svo mikið úr því, sem stendur í pjesanum. Spurningin er, hvort höf. hans sje fær um að bera vitni í þeim málum, sem þar eru tekin til meðferðar. Höf. er gamall maður, sem auðsjáanlega er haldinn mikilli bölsýni. En hann er ekki geggjaður, eins og hv. flm. (JJ) heldur fram. Hitt er kunnugt, að bölsýni magnast hjá gömlum mönnum, og pjesinn er ekkert annað en upptugga eldri og yngri blaðaskamma, að viðbættu hrafli hjer og þar úr skammarræðum á þingi.

Annars er jeg ekki að tala um höf. pjesans sem gamlan mann vegna þess, að jeg telji mig mikið yngri, enda mætti segja við mig líkt og Gunnlaugur á Fróðá sagði við Kötlu: Jeg væri því aðeins ungur, að ekki þyrfti jeg að bregða Sigurði Þórðarsyni um elli. En bölsýni magnast með aldri hjá sumum mönnum, og hjer er það á háu stigi.

En svo jeg víki aftur að till. og forðist að nota um hana óþingleg orð, úr því að hv. flm. er farinn að temja sjer það, ja, þá verð jeg að minsta kosti að segja, að það sje mjög óviturlegt að bera fram slíka till. sem þessa, er fer fram á, að Alþingi geri svo lítið úr sjer að fara að höfða mál gegn gömlum manni. Jeg verð að segja það, að till. er hv. flm. til stórmikillar minkunar. Alþingi er aumt, ef það þolir ekki slíkt.

Þá skal jeg víkja að seinni hl. till. Það var sagt við mig í morgun af vitrum manni, sem þekti til þessara mála, að sjer hefði þótt rjettast, að forseti vísaði till. frá. Hygg jeg, að þetta hefði sjerstaklega getað átt við seinni hl. hennar, því að það, sem þar er farið fram á, er ekkert annað en lögleysa, svo augljós, sem frekast getur orðið. Það er sem sje farið fram á, að þingið skori á mig sem embættismann ríkisins og bæjarfógetann í Reykjavík að höfða mál gegn Sigurði Þórðarsyni. Það var sú tíð, að embættismenn voru látnir höfða meiðyrðamál, og það oft, en verst var þó, að þeir gátu eftir eigin beiðni látið skipa sjer að höfða mál. Enda höfðu þeir rjett til gjafsóknar. En fyrir aldamótin kom upp megn óánægja yfir þessum einkarjetti til gjafsóknar, og árið 1894 kom fram krafa um, að þessi rjettur fjelli burt. Þetta komst þó ekki lengra í það sinn. En jafnframt kom þá fram krafa um það, að rjettur hins opinbera til þess að skipa embættismönnum að höfða mál, fjelli og niður, því að þegar rjetturinn til gjafsóknar fjelli burt, yrði þetta einnig að fylgja. Öllum þeim, sem fremstir stóðu í þessari baráttu, sem stóð í 14 ár hjá þinginu, t. d. þeim Guðjóni á Ljúfustöðum og Skúla Thoroddsen, þótti og þessi krafa sjálfsögð. Var þetta þó felt í Ed., en vakti megna óánægju meðal almennings, því að mönnum þótti þetta „ódemokratiskt“.

Árið 1907 kom svo fram frv. um þetta frá stjórninni, og varð það að lögum. Þar með var rjettur embættismanna til gjafsóknar af tekinn og einnig rjettur hins opinbera til að skipa mönnum að höfða mál, og numin úr gildi ákvæði í prentfrelsislögunum þessu viðkomandi.

Það sem nú hv. flm. (JJ) fer fram á með þáltill. er það, að þingið fari að samþ. það, sem er á móti lögunum, eða endurreisa lög með þál. Þetta er hreinasta fáviska hjá hv. flm. (JJ) og er alveg óboðlegt deildinni. Er ekki hægt að komast hjá því að víta það, að þm. skuli bera fram till., sem fer í bág við gildandi lög. Maður skyldi nú halda, að rjett væri að skipa embættismönnum að hreinsa sig af sökum. Um það skal jeg ekki segja neitt að svo stöddu. En í ástæðunum fyrir frv. frá 1907 stendur þetta: „Hjer veltur því alt á því, hvort nokkuð verulegt sje því til fyrirstöðu, að umrædd ákvæði tilskipunar 27. sept. 1799 sjeu úr gildi numin. Það er að vísu nú sem fyrir áríðandi, að „mannorð embættismanna sje óflekkað“, svo að bæði landsstjórn og almenningur geti borið fult traust til þeirra. En það er mjög efasamt oft og einatt, hvort meiðyrðamál hjálpar mikið til þess að halda mannorði manns óflekkuðu. Það getur sannast í meiðyrðamáli, að ærumeiðandi áburður, hvort er á embættismann eða annan mann, sje beint ósannur, og þá nær málið auðvitað tilgangi sínum, en hitt mun tíðara, eins og eðlilegt er með því rjettarfari, er hjer er í meiðyrðamálum, að hinn ærumeiðandi áburður er dæmdur ógildur, af því að eigi hafa verið færðar sönnur á hann. Það getur því vel farið svo, að þótt embættismaður vinni meiðyrðamál, þá dæmi almenmngsálitið hann sekan eins fyrir það. Á hinn bóginn er yfirboðurum embættismanna hjer eða landsstjórninni ekki þörf á þeim rjetti, er tilsk. 27. septbr. 1799 veitir í þessu efni, enda er rjettur þessi fremur gagnslítið meðal til þess að hafa eftirlit með embættismönnum og sýslunarmönnum. Ef alvarlegar sakir eru bornar á embættismann, hvort er í riti eða ræðu, þá er landsstjórninni innan handar að láta rannsaka áburðinn, þyki hann annars þess verður, annaðhvort með sakamálarannsókn eða þá með því að heimta skýrslur og yfirlýsingar af viðkomandi embættismanni“.

En ef sakir eru líklegar, svo að embættismaður getur ekki setið lengur í embætti, má auðvitað taka það af honum.

Jeg verð að segja fyrir mitt leyti, að það sje fáviska að ætla nú að fara að reisa við þessi gömlu lög. En ef menn endilega vilja, að embættismennirnir beri af sjer áburð, þá á að stofna sjerstaka dómstóla, er dæma í þeim málum einum. Eiga dómararnir þar fullan rjett á sjálfstæðri rannsókn, en þurfa ekki aðeins að hlýða á framburð beggja aðilja. Þetta yrði þá einskonar ærurjettur. En eins og fram kom í ástæðunum fyrir stjfrv. frá 1907, er gersamlega óleyfilegt og jafnframt minkun fyrir þingið að þurfa að standa hjer dag eftir dag og ræða um annað eins ófjeti og þessi till. er.

1) Ræðumaður hafði ekki yfirfarið þessa ræðu lengra en hingað, þegar hann fjell frá.