05.05.1926
Efri deild: 67. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í D-deild Alþingistíðinda. (3161)

100. mál, málshöfðun gegn Sigurði Þórðarsyni

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg ætla að leyfa mjer að fara örfáum orðum um tillögu þá, er hjer liggur fyrir, einungis að því leyti, sem hún snertir mig sjerstaklega sem hjeraðsdómara í Rvík, svo og um ræðu hv. flm. (JJ).

Árás Sigurðar Þórðarsonar fyrv. sýslumanns, í ritinu „Nýja sáttmála“, á mig, beindist, eins og kunnugt er, aðeins að embættisstarfsemi minni, og þó ekki nema að einum af mörgum þáttum hennar, nefnilega meðferð sakamála. Við hina aðra embættisstarfsemi mína virðist hann ekkert hafa að athuga og heldur eigi við manngildi mitt.

Árásinni mátti skifta í tvent, nefnilega algerlega órökstuddar dylgjur um það, að jeg styngi sakamálakærum undir stól og ljeti þær ekki koma fram, og „kritik“ á rannsókninni út af hvarfi Guðjóns sál. frá Melum, eða hinu svo nefnda Guðjónsmáli.

Af því að ómögulegt var að vita, við hvað var átt með dylgjunum, ljet jeg mjer nægja, að því er þær snerti, að lýsa þær opinberlega ósannar og vísa þeim heim til föðurhúsanna sem ómaklegum í garð minn og fulltrúa minna, og hefir höfundurinn orðið að kyngja þeim niður aftur með þögninni.

Um rannsóknina í Guðjónsmálinu skrifaði jeg hinsvegar allítarlega í brjefi, er jeg sendi höf. fáum dögum eftir útkomu pjesa hans, og þykist hafa leitt þar rök að því, að líkurnar fyrir því, að Aðalsteinn hefði myrt Guðjón sál. sjer til fjár, væru ekki aðrar en þær, sem bygðar væru á drykkjurausi „kroniskra alkoholista“ og bæjarþvaðri, er reyndist ekki annað en þvaður, þegar farið væri að rannsaka það. Þetta brjef mitt var síðar birt í Morgunblaðinu og víðar, svo að það er alkunnugt orðið. Ætla jeg mjer ekki að fara að hafa upp innihald brjefsins hjer, til þess að önnur útgáfa komi af því í Alþingistíðindunum, eins og hv. flm. (JJ) hefir með upplestri sínum í gær gert það að verkum, að 3. útgáfa mests hluta af „Nýja sáttmála“ kemur þar.

Auk þess hefir þáverandi fulltrúi minn, sem með rannsóknina fór framan af af minni hálfu, ritað um málið allítarlega í blaði því, „Stormi“, er hann gefur nú út, og haldið um það fjölsótta, opinbera fyrirlestra, bæði hjer og í Hafnarfirði.

Jeg held, að mjer sje því óhætt að treysta því, að allur almenningur sje búinn að átta sig á því, hve rakalaus þessi árás á embættisfærslu mína var, og að jeg standi nokkurn veginn jafnrjettur eftir í almenningsálitinu; að minsta kosti hefi jeg ekki merkt annað.

Hv. flm. (JJ) gat þess, að fyrsta útgáfa „Nýja sáttmála“ væri nú útseld og önnur komin út, og fanst mjer hann vilja ráða þar af, að mikið mark væri tekið á ritinu.

Jeg get nú ekki verið honum sammála um, að svo þurfi að vera.

Íslendingar hafa, því miður, þann ókost, að þeim þykir gaman að hlusta á og lesa skammir um náungann. Sá, sem græða vill á útgáfu pjesa eða blaða, þarf því oft ekki annað, til þess að fá kaupendur, en að ráðast á og skamma menn — því fleiri og því gífurlegar, því betur gengur ritið út. Mjer er t. a. m. kunnugt um, að 2500 eintök hafa selst hjer í bænum á einni viku af „Harðjaxli“ Odds Sigurgeirssonar, „hins sterka af Skaganum“, og hefi jeg þó ekki heyrt, að mark sje tekið á því, sem í því blaði stendur.

Hv. flm. (JJ) er sjálfur riðinn við blað, sem sent er út í þúsundum eintaka vikulega, og get jeg hugsað mjer, að nokkuð af þeirri útbreiðslu, sem það blað hefir fengið, stafi meðfram af því, að í því eru oft skammir.

Þá virðist mjer hv. flm. (JJ) vilja bera saman árás þá, er jeg varð fyrir í „Nýja sáttmála“, og árás þá, er hann varð sjálfur fyrir af hálfu höfundar þessa pjesa, í grein í blaði einu hjer í bænum, og líta svo á, að gæti jeg látið vera að fara í mál út af árásinni á mig, þá gæti hann og látið vera að fara í mál út af árásinni á sig.

Hjer skjöplast hv. flm., sem oftar, mjög, að mínu áliti, því þessar tvær árásir eru að engu leyti sambærilegar.

Eins og jeg tók fram áðan, snertir árásin á mig, þótt á rökum væri bygð, ekki manngildi mitt eða mína borgaralegu æru. Hún snertir aðeins eina hlið embættisstarfsemi minnar, og þótt jeg væri óduglegur sakamáladómari, þá gæti jeg haldið óskertri embættisæru minni fyrir því, ef jeg væri duglegur embættismaður á öðrum sviðum.

Hv. flm. (JJ) hefir hinsvegar verið lýstur „ærulaus lygari og rógberi“, með öðrum orðum, því er lýst yfir, að hann sje búinn að ljúga og rægja svo mikið, að hann sje orðinn ærulaus. Þetta er sú gífurlegasta ásökun, sem jeg get hugsað mjer á nokkurn mann, og ef hún væri fyllilega á rökum bygð — en það getur hún ekki verið, því enginn maður getur verið ærulaus — þá skákaði hún hv. flm. (JJ) eiginlega út úr mannfjelaginu og skipaði honum í flokk með kvikindum, sem menn rökræða eigi mál við, heldur sveia eða sparka í, ef þau verða of nærgöngul — svona gífurleg er ásökunin í garð hv. flm. (JJ)