04.05.1926
Neðri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í D-deild Alþingistíðinda. (3214)

107. mál, mæling á siglingaleiðum

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg stend hjer upp til þess að minna á, vegna þess kjördæmis, sem jeg er fulltrúi fyrir, að á Alþingi 1920 samþykti Nd. Alþingis till. til þál., þar sem skorað var á landsstjórnina að láta rannsaka nokkurn hluta af þeirri siglingaleið, sem hjer er talað um, og svo innsiglingu á Bjarnarfjörð hinn syðra í Strandasýslu og hafnarstað við Kaldrananes. Þetta hefir nú enn ekki orðið, og ætla jeg ekki að áfellast stjórnina fyrir það, því að jeg býst við, að það sje satt, sem hæstv. atvrh. (MG) sagði, að hjer sje ekki um mikinn skipakost að ræða til þess, en jeg vil leggja áherslu á það, að það er alveg eins mikil þörf á þessu fyrir austan Vestfjörðu eins og fyrir vestan, og úr því að farið er að árjetta þetta, þá býst jeg við, að mjer þætti rjettast að taka það inn í þessa till., sem var í till. 1920. Jeg skal geta þess, að á tveim fundum þar vestra, sem jeg hefi verið á, hefir verið ýtt á mig með að halda þessu fram, og jeg hefi búist við, að þegar ríkið eignaðist nýtt strandvarnarskip, mundi hægt að sinna þessu máli meira. En jeg vil, um leið og jeg sem sagt tilkynni, að jeg muni koma með brtt. við þetta, beina því til hæstv. atvrh. (MG), að ef hæstv. stjórn lætur fara að rannsaka þessa leið, þá að hafa hina staðina í huga líka. Jeg get sagt frá því um leið, að þegar talað var um þessa staði, var líka minst á Kollafjörð og óskað eftir, að mæling færi þar fram.