04.05.1926
Neðri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í D-deild Alþingistíðinda. (3221)

107. mál, mæling á siglingaleiðum

Benedikt Sveinsson:

Jeg man ekki, hve margar hafnir Alþingi hefir löggilt í þetta sinn, en svo mikið er víst, að ein af þessum höfnum er í mínu kjördæmi. Það er Leirhöfn á Sljettu. Nafnið er mörgum kunnugt sakir þess atorkubúskapar, sem þar er rekinn í landi, og um kosti hafnarinnar sjálfrar ritaði kunnugur maður, Einar Sigfússon á Ærlæk, langa og skilmerkilega grein í blaðið „Ægi“ í fyrra. Ennfremur tók formaður Fiskifjelags Íslands sjer ferð á hendur þangað síðastliðið sumar til þess að skoða höfnina, og leist mjög vel á hana. Höfnin liggur vestanvert á Sljettu og er trygg þegar inn er komið, en sá er ljóður á, að leiðin hefir ekki verið mæld. Nú hefi jeg fengið áskorun um að taka í þann sama streng hjer á Alþingi, sem Fiskifjelagið gerði á síðasta þingi sínu, og veit jeg, að forseti Fiskifjelagsins er mjög hlyntur því, að höfnin verði mæld í sumar. Þar er aðdjúpt, en rif fyrir mynni hafnarinnar, og þarf því að mæla upp hafnarmynnið og setja greinileg merki, er vísi mönnum rjetta leið. Það er talið, að þetta þurfi ekki að kosta mikið, þar sem um örstutta leið er að gera, því að djúpleið liggur rjett fyrir framan, og er víst hægt að gera þetta á mjög stuttum tíma. Á hinn bóginn vil jeg benda á, að hver höfn, sem mæld er, svo að hún megi koma að notum, er viðbót við hafnirnar á landi hjer og því fundið fje fyrir sjómenn vora. Vona jeg því, að þessari brtt. verði vel tekið í þessari hv. deild.