02.03.1926
Neðri deild: 18. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

14. mál, áveita á Flóann

Pjetur Ottesen:

Út af orðum hæstv. atvrh. (MG), að með samþykt Alþingis á þessu frv. sje því slegið föstu, að áveitan eigi að koma að fullum notum, vil jeg taka þetta fram:

Í athugasemdunum við frv. hæstv. stjórnar er talið, að því aðeins geti áveitan komið að fullum notum, að bættar sjeu samgöngur milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, og þá helst með járnbraut. Í tilefni af þessu vil jeg taka það fram, að með samþykt þessa frv. getur engan veginn verið um það að ræða, að tekin sje nein afstaða til járnbrautarmálsins.

Annars vil jeg taka það fram, að fylsta ástæða væri til að doka nokkuð við og fá reynslu fyrir því, hvort þetta áveitufyrirtæki uppfyllir þær vonir, sem menn hafa gert sjer um það, hvort það ber þann árangur um aukning á grasvexti, sem búist hefir verið við, áður en farið er að leggja í frekari kostnað á áveitusvæðinu. Jeg er ekki í sjálfu sjer að mæla á móti þeim framkvæmdum, sem um ræðir í þessu frv., en allur er varinn góður, og því meiri ástæða er að hafa hjer fulla gát á, þar sem svo mikið er í húfi og efnafræðingur einn hefir skrifað um það nýlega, að mjög vafasamt sje, að það vatn, sem veita á á Flóann, sje svo efnaauðugt, að næg trygging sje fyrir því, að áveitan nái tilætluðum árangri. Það er líka fengin full reynsla fyrir því, þar sem veitt er á ófrjóu vatni, að þó áveitan beri allmikinn árangur fyrstu 2–3 árin, þá bregst hún að þeim tíma liðnum, sem stafar af því, að vatnið flytur burtu meiri næringarefni úr jarðveginum en það færir honum, og get jeg dæmt um þetta af eigin reynd.

Þar sem drepið hefir verið á, að vegirnir á áveitusvæðinu ættu að vera sýsluvegir og fjárframlag til þeirra greitt alt að helmingi úr ríkissjóði, þá vil jeg segja það, að nær lægi, eftir aðstöðu allri þarna og anda vegalaganna, að þetta væru hreppavegir. En þá er hjer gengið inn á nýja braut, því áður hefir ekki þekst, að ríkissjóður veiti fje til hreppavega.