04.03.1926
Neðri deild: 21. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

14. mál, áveita á Flóann

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg hefi leyft mjer á þskj. 90 að koma fram með þrjár litlar brtt. við þetta frv. Fyrsta brtt. er um það, sem jeg tók fram hjer við 2. umr. þessa máls, því að það er ekki alveg rjett að komast svo að orði, sem gert er í brtt. á þskj. 75, því að íbúar áveitusvæðisins geta lagt fram annað fje en það, sem stjórn áveitusvæðisins kemur til að jafna niður, t. d. fje úr sýslusjóði.

Önnur brtt. er flutt eftir beiðni frá stjórn áveitufjelagsins, af því að svo getur farið, ef stjórnin er aðeins kosin til eins árs í senn, að hún fari öll frá í einu, og þá komi ef til vill allir mennirnir ókunnugir í stjórnina, sem geti verið mjög óheppilegt.

Þriðja brtt. er aðeins afleiðing af 2. brtt., þannig, að ef 2. brtt. verður ekki samþykt, þá er 3. brtt. um leið fallin burtu.