07.04.1926
Neðri deild: 47. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

12. mál, kynbætur hesta

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Eins og kunnugt er, hefir hv. Ed. gert nokkrar breytingar á frv. þessu, sem eru í því fólgnar, að Ed. gerir ráð fyrir, að ákveðnum útgjöldum sje jafnað niður á ákveðinn hátt. En hvorki í frv. hæstv. stjórnar nje í tillögum nefndarinnar hafði verið gengið inn á þá braut. Landbn. Ed. lítur svo á, að þetta hafi mikla þýðingu fyrir kynbótastarfsemina. Nefndin hjer er því velviljuð þessum breytingum, en af þessu leiðir, að inn í frv. þurfa að koma ný ákvæði, einkum viðvíkjandi reikningsskilum kynbótanefndarinnar. Um það verða að vera ákveðnar reglur. Að öðru leyti liggur mál þetta svo augljóst fyrir, að ekki þarf að skýra það nánar.

Breytingin við 3. gr. er eðlileg afleiðing af brtt. nefndarinnar í Ed. Nefndin hjer leggur til, til þess að komast hjá vandræðum, að yfirleitt sje fylgt þeirri reglu, að þeir hestar, sem valdir eru af kynbótanefnd, sjeu teknir á leigu til afnota fyrir hrossaeigendur sveitarinnar, gegn hæfilegu gjaldi. Hefir landbn. Ed. gert um það smáorðabreytingu.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta.