13.04.1926
Efri deild: 49. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

12. mál, kynbætur hesta

Guðmundur Ólafsson:

Jeg gat þess við upphaf umr., að jeg hefði ekki kynt mjer frv. nægilega eftir að það kom aftur frá Nd., en sá hinsvegar, að það hafði tekið miklum breytingum þar, og var það ein ástæðan til þess, að jeg óskaði, að málið yrði tekið út af dagskrá. Jeg verð nú að segja það sama og jeg hjelt þá fram, að breytingar Nd. hafa verið mjög til bóta, sjerstaklega breytingarnar við 3. gr., og hin nýja gr. er einnig nauðsynleg, því að engin ákvæði voru í frv. áður, t. d. um fundi nefndanna, reikningsskil o. fl.

En að því er snertir brtt. mína, þá kem jeg með hana til þess, að samræmi sje milli kosninga í þessar nefndir og kosninga til bæjar- og sveitarstjórna. En í bæjar- og sveitarstjórnarlögunum eiga að vera ákvæðin um kosningarrjett og kjörgengi, en ekki í smærri lögum, sem heyra undir þau, svo sem hjer er. Því að ef ákvæði þessi eiga að koma hjer inn, þá eiga þau alveg eins heima í fræðslulögunum og víðar.

Þá er nákvæmlegar orðað hjá mjer í breytingartill. en í frv., til hve langs tíma nefndin skuli kosin. Virðist vera rjett, að hún sje kosin til 6 ára og að kosning hinnar fyrstu nefndar gildi þar til næst verði kosið í hreppsnefnd. Nú er venjan sumstaðar sú, að hrossakynbótanefndir eru aðeins kosnar til 3 ára, en mjer finst eðlilegt, að þær sjeu kosnar til 6 ára eins og hreppsnefndirnar, því að engin ástæða er til að hafa mismunandi ákvæði í svona skyldum málum. Og ef till. mín verður samþykt, þá gengur minni hl. nefndarinnar úr eftir 3 ár, en meiri hl. eftir 6 ár.

Hvað snertir brtt. hv. l. landsk. (SE) um að konur sjeu skyldar til þess að taka sæti í kynbótanefnd, þá finst mjer, að best sje að ákvæðið um það felist í aðallögunum um kosningar í málefnum sveita og kaupstaða, og gildi svo jafnt fyrir öll þessi mál. Sje jeg ekki ástæðu til þess að tala meira um það. En jeg býst ekki við, að hv. deild álíti nauðsynlegt að taka ákvæðið um kosningarrjett og kjörgengi inn í þessi lög, og vona því að brtt. mín á þskj. 324 verði samþykt.