13.04.1926
Efri deild: 49. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

12. mál, kynbætur hesta

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg vil taka vægt á hv. l. landsk. (SE), þar sem hann er dauður. Mín skoðun er sú, að kvenfólkið vilji heldur ríkisskóla en einkaskóla. Hv. 1. landsk. hefir aðra skoðun. Við því er ekkert að segja. En það er ofurskiljanlegt, að kvenfólkinu þyki tryggara að fá vissa fjárveitingu í eitt skifti fyrir öll en að þurfa að fara fram á hana frá ári til árs, enda er þetta jafnt á komið, þegar til eru ríkisskólar fyrir karlmenn. Aftur á móti mundu þær skoða það lítils virði að fá að vera í kynbótanefnd. Mjer finst mikill munur á þessu tvennu. Nei, hv. 1. landsk. er vinur kvenfólksins meðan það kostar ekkert. Hann vill lofa þeim að vera í kynbótanefnd, en hann vill ekki láta þær fá skóla.

Hv. 3. landsk. (JJ) var að fara fram á, að jeg sæi um, að deildin sneri aftur í þessu máli. Jeg er hv. 3. landsk. þakklátur fyrir hann stuðning, sem hann hefir veitt mjer, því að ef hægt er á nokkurn hátt að fá hv. deild til að snúast ekki, er það með því að bera henni á brýn, að hún hafi fyrir fortölur mínar snúist.