26.02.1926
Efri deild: 14. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

20. mál, bankavaxtabréf

Atvinnumálaráðherra (MG):

Háttv. 3. landsk. (JJ) tók það fram, að það, sem okkur bæri á milli, væri það, að hann teldi það heppilegra, að einn banki væri fyrir öllum útlánum til sveita og bæja, og jeg skal ekki neita því, að okkur beri þetta á milli; en jeg verð þá að segja hv. þm. (JJ) það aftur, að jeg sje ekki, hvað landbúnaðurinn hefir gott af því að vera í þeirri samsteypu. (JJ: Væri það ekki hugsanlegt, að skipulagið væri tvískift inn á við, þó að það væri ekki nema einskift út á við?). Víst svo, en sú hugmynd hefir naumast komið fram. Jú, jeg hygg, að þetta hafi komið til umræðu á þinginu 1921, en þá var það felt. En þetta er í mínum augum eitt meginatriði landbúnaðarins, að hafa sjerstaka lánsstofnun út af fyrir sig.

Jeg hefi litlu að svara hv. 1. landsk. (SE), því að við höfum ekki deilt mikið í þessu máli. En jeg vil minna á það, að Íslandsbanki hefir afsalað sjer seðlaútaáfurjettinum, svo að það er ekki rjett að brigsla honum um það, að hann vilji fá hann aftur. (JJ: Jeg hefi ekki sagt það). Hv. þm. (JT) gerði hv. 1. landsk. (SE) þær getsakir, að hann vildi fá seðlaútgáfurjettinn aftur; og það, sem hv. þm. (JJ) sagði, að stjórnin hefði verið á móti því að hagur bankans væri rannsakaður, þá var það heldur ekki rjett, því að hjer sat fimm manna nefnd í eitthvað hálft ár, og það var einmitt þingið, sem skipaði hana, og á þinginn 1922–23 kom fram áskorun um að láta rannsaka hag bankans aftur, sem þó gat ekki orðið öðruvísi en ófullkomið, þar sem nákvæm rannsókn hafði farið fram áður.

Þá vildi jeg svara því, er hv. 1. landsk. sagði um vextina hjá ræktunarsjóði. Jeg er ekki í neinum vafa um það, að vextir eru lægri hjá honum heldur en hjá bönkunum, og þó að menn kunni að geta tekið lán hjá bönkunum, þá hygg jeg, að það verði miklu hægra að taka lán hjá ræktunarsjóði, sem jeg vona, að geti fullnægt þeim kröfum, sem til hans má gera. Og jeg hygg líka, að veðdeildarlánin hljóti að verða ódýrari en venjuleg bankalán, og jeg skil ekki í því, að lán, sem tekið er til 35 –40 ára, verði ekki ódýrara heldur en lán, sem tekið er með 7–8% vöxtum, þó að tekið sje tillit til affallanna. Þessum flokki, sem frv. ræðir um, er ætlað að vera þangað til 10 miljónir hafa verið lánaðar. En hvað lengi það verður, veit enginn, en það sannar heldur ekkert um það, að ræktunarsjóðurinn sje of lítill, því að það er svo miklu meira af lánsfjenu, sem fer til kaupstaðanna.

Um stóra og litla stjórnmálaflokka skal jeg ekkert segja. Það má hv. 1. landsk. (SE) best þekkja til að dæma um, en ef það er rjett, sem hann segir um ókostina við stóru flokkana, þá skil jeg það ekki, hvernig hv. þm. (SE) getur horft með gleði í móti væntanlegum straumi af nýjum flokksmönnum hjer inn í þingið.