15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

20. mál, bankavaxtabréf

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Það þarf ekki langa framsögu um þetta mál. Frv. er að mestu leyti sniðið eftir lögunum frá 1913 um 4. flokk geðdeildarinnar. En sú breyting er þó hjer frá lögum um hina fyrri flokka veðdeildar, að eftir frv. er Landsbankanum leyfilegt að stofna fleiri flokka (seríur), og það jafnvel samtímis, með alt að 70 milj. kr. Þá er því eins varið með þá flokka sem hjer eftir verða stofnaðir, og 4. flokk, að lántakendur ábyrgjast hver með öðrum (in solidum) með alt að 10% af láninu eins og það er á hverjum tíma, að veðdeildin standi í skilum með greiðslu vaxtabrjefanna og vaxta af þeim.

Eins og menn vita, þá er hjer venjulega talsverður skortur á veltufje handa atvinnuvegunum, og þá einkum nú, þegar að kreppir að öðru leyti. Hjer er nú komin talsverð kreppa, og er ekki líklegt, að henni ljetti mjög bráðlega. Sökum þessa má búast við, að vextir verði hærri og því minni hvöt fyrir menn að festa fje sitt í skuldabrjefum. En það er eingöngu á þann hátt, sem veðdeildin útvegar sjer veltufje, að hún selur bankavaxtabrjef fyrir sömu upphæð og lán eru veitt. Það er því mjög mikil þörf á því að útvega á einhvern hátt fje til veðlána öðruvísi en selja veðdeildarbrjef hjer innanlands.

Nefndin hefir nú í samráði við hæstv. fjrh. stungið upp á þeirri leið, að stjórninni skuli heimilað að taka alt að 3 milj. kr. lán til þess að kaupa brjef af veðdeildinni. Þetta er sama leið og farin var 1903, er veðdeildin var stofnuð. Jeg skal geta þess, að frá mínu sjónarmiði álít jeg ekki rjett að taka slíkt lán, nema því aðeins, að sæmileg vaxtakjör fáist. Jeg tel líka heppilegra, að lánin verði til stutts tíma, og þá með minni afföllum, heldur en þau sjeu veitt til langs tíma, en afföllin mikil. Því þótt þessir flokkar veðdeildar, sem teiknaðir hafa verið með það fyrir augum, að ríkissjóður útvegaði fje til þess að kaupa brjefin, sjeu til stutts tíma, þá gerir það ekki mikið til, þar sem gert er ráð fyrir því, að 2 flokkar megi starfa samtímis með mismunandi vaxtakjörum.

Sumir óska að fá lánin til sem lengst tíma, þ. e. með sem minstum afborgunum, og vilja þá heldur borga hærri vexti. Þetta á einkum við um jarðakaupalán. Aðrir vilja fá lánin með sem lægstum vöxtum, en borga þau á styttri tíma, einkum húsabyggingalán.

Væri því best að geta orðið við óskum beggja.

Það er vitanlega mjög mikil þörf á lánsfje til veðlána, og ef það tækist að fá sæmileg vaxtakjör, þá væri stórt skref stigið í þá átt að lækka dýrtíðina í landinu. Því það er álit margra skynbærra manna, að dýrtíðin muni ekki lækka eins verulega og allir óska, nema húsaleiga í Reykjavík geti lækkað. En húsaleiga í Reykjavík getur ekki lækkað nema menn geti fengið lán til húsabygginga með sæmilegum kjörum.

Jeg skal geta þess, að ef horfið verður að því ráði að stofna Ríkisbanka Íslands, eins og frv., sem hjer liggur fyrir deildinni, fer fram á, þá virðist sjálfsagt, að veðdeildin falli til þess banka. Og ef ekki er áður búið að taka lán til þess að útvega fje handa veðdeildinni, þá megi alveg eins taka lánið til þess að kaupa vaxtabrjef af ríkisbankanum.