29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

1. mál, fjárlög 1927

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg ætla mjer ekki að fara út í deilur út af kaupum á skóglendi Sigríðarstaða. En jeg vil benda á það, út af ummælum hv. frsm. (TrÞ), þar sem hann talaði um kaup á Vöglum og Vaglaskógi, þá er það ekki fordæmi fyrir svona kaupum. Þá var keypt heil jörð með einhverju því stærsta skóglendi, sem er hjer á landi, og síðan var lagt til hennar annað skóglendi og jörðin gerð að bústað fyrir skógarvörð og jafnframt sett þar upp skógræktarstöð. Þetta er ekki fordæmi fyrir því að fara að kaupa bletti úr landeignum víðsvegar. Þó má segja það þessari till. til málsbóta, að þetta skóglendi er svo nærri Vöglum, að þaðan mætti hafa umsjón með því. En það er ekki hægt að girða þetta skóglendi til fulls, og veit jeg, að hv. þm. S.-Þ. (IngB) samsinnir það. Skóglendið liggur í fjallshlíð og verður ekki girt svo tryggilega að ofan, að hægt sje að verja það ásókn sauðfjár á sumrin. Jeg hygg raunar, að þessi till. sje borin fram af ástæðum skógræktinni óviðkomandi. En jeg get að ýmsu leyti virt þær ástæður og vil því ekki leggjast fast á móti till., en vona, að það, sem jeg hefi sagt um þetta, verði nóg til þess, að þetta geti ekki skapað fordæmi fyrir því, að farið verði að kaupa hvein skógarblett, sem halda þarf við.

Út af ummælum, sem fallið hafa um styrk til hafskipahryggju á Ísafirði, vil jeg geta þess, að ef sú brtt. nær fram að ganga, hefi jeg hugsað mjer að koma með brtt. um orðalagið á athugasemdinni við liðinn við 3. umr. Því að eins og till. er orðuð er hún ekki vel greinileg, en jeg vil aðeins sjá fyrst, hvort hún verður samþykt.

Þá vildi jeg biðja lífs einni till. sem mjer skildist hv. frsm. (TrÞ) mæla á móti. Það var heimild til að lána úr viðlagasjóði 5 þús. kr. til byggingar sjúkraskýlis og læknisbústaðar í Mýrdalshjeraði. Það er föst regla að veita lán úr viðlagasjóði til sjúkrahúsbygginga., ef fje er fyrir hendi. Nú veit jeg ekki, hvort það verður til að þessu sinni, en þykir líklegt; a. m. k. hygg jeg, að það sje rjett að hafa heimildina í fjárlögunum. Það er ekki margt, sem á meiri rjett á sjer en lán til sjúkraskýla, að undanteknum lánum til íshúsa, girðinga og þurrabúðarlánum, sem eru auðvitað fremst.