08.05.1926
Neðri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

7. mál, fræðsla barna

Halldór Stefánsson:

Það hefir nýlega verið neitað afbrigða um, að brtt. kæmist að um mikilsvert atriði í þessu máli, hvort konur skuli skyldaðar til þess að taka við kosningu til opinberra starfa eða ekki. Það hefir verið ágreiningur á milli deildanna um þetta atriði. Hv. Ed. hefir viljað gera það, sem kallað hefir verið kúgun kvenna, að skyldu, en mikill meiri hl. þessarar háttv. deildar hefir ekki viljað gera þeim það að skyldu, hversu óþægilegt sem það væri fyrir þær. Háttv. Nd. hefir viljað gefa þeim það, sem kalla mætti yfirrjett í þessum efnum. Það má segja, að hv. Ed. sýni talsverða lægni, ef henni tekst að koma sínum vilja að með því að smeygja þessu ákvæði inn í þetta frv. og reyna með því að fá Nd. til þess að láta af sínum vilja um þetta deiluatriði. Jeg verð að álíta, að þetta sje svo mikilsvert atriði, að ekki megi láta hv. Ed. smeygja því þannig inn. Jeg efast mjög um, að meiri hluti kvenna óski eftir þessu „jafnrjetti“, sem sumir kalla, að þeim sje ekki gert lægra undir höfði en karlmönnum. Jeg heyrði nýlega eina frúna orða það svo, að það væru „brönurnar“ á meðal kvenna, sem óskuðu eftir þessu. Það mun hafa átt að skiljast svo, að það væru þær framgjörnustu, þær, sem færu geystast fram og af rasandi ráði — en að fjöldi kvenna myndi gjarnan þiggja undanþágurjettinn. Vitanlega geta þær tekið kosningu, þegar þær vilja. Jeg held, að best fari á því, að þær hafi sjálfar ákvörðunarrjettinn um það. Brtt. fór í þá átt að fá þetta leiðrjett. Nefndin hjelt fast við sína fyrri afstöðu í málinu, og þar sem synjað hefir verið afbrigða, svo að brtt. gæti komist að, álít jeg, að það eigi að verða þess valdandi, að frv. verði felt.