04.05.1926
Neðri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

8. mál, skipströnd og vogrek

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg stend aðeins upp út af því, sem hv. frsm. (PÞ) sagði síðast. Jeg nefndi aldrei innlend skip, heldur innlenda vátryggjendur. Því að það getur oft komið fyrir, og hefir oft komið fyrir, að íslensk fjelög vátryggja erlend skip og vörur í þeim. — Hv. frsm. þótti mikil trygging í því, að eigendur vátryggjendur skipanna mættu koma á strandstaðinn. Hjelt hann að það væri ekki margt, sem bagaði þá í að koma austur á Sanda og sjá um björgunina. En það er nú alls ekki hlaupið að því.

Jeg væni ekki lögreglustjóra og hreppstjóra um að vilja beita þá ofríki, sem nauðulega eru staddir, en það er athugaleysi að gera lögin þannig úr garði, að það sje hægt að misbeita þeim herfilega. Hv. þm. V.-Sk. sagði, að breytingin á niðurlagi 2. gr. væri í samræmi við það, sem vátryggingarfjelögin óskuðu, að fela hreppstjórum og lögreglustjórum að úrskurða, hvort skip sjeu strönduð eða ekki. En jeg sje ekki, að þeim sje með þessu falið neitt úrskurðarvald í því efni. Þeir eiga aðeins að tilnefna tvo valinkunna menn. En jeg sje ekki, að nokkur trygging sje fyrir því, að slíkir menn hafi vit á því, sem þeir eiga að dæma um. Það er ekki víst, að þeir menn verði tilnefndir, sem hafa lengi verið á fjörunum, heldur getur slík útnefning fallið í hlut sveitamanna, sem ekki hafa komið nærri sjó í 20–30 ár. Hv. frsm. sagði, að það væri meiri von til þess, að miklu yrði bjargað, ef björgunarlaunin væru ákveðin há. En hjer eru björgunarlaunin ákveðin hærri en þekkist nokkursstaðar. Jeg efast um, að björgunarfjelög, sem hafa atvinnu af því að fást við slíkt, taki svona há björgunarlaun. Það er vafalaust mikil hætta að fást við björgun þarna suður frá, en hættan er ekki jöfn alstaðar; sumstaðar er engin hætta og lítil vinna. Jeg held, að það væri rjettara að hafa sjerstök ákvæði fyrir slík svæði, sem eins stendur á og þar, en almenn ákvæði um aðra landshluta. Jeg heyri, að nefndin heldur því fram, að það sje venjulegt að taka af andvirði þess, sem bjargast, til þess að annast heimsendingu erlendra skipbrotsmanna. Mjer þætti fróðlegt að heyra, hvort þetta er rjett, því að jeg er því ekki svo kunnugur.