29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

126. mál, verðtollur

Jón Baldvinsson:

Þetta mál var tekið út af dagskrá í gær vegna skriflegrar brtt., sem kom fram frá mjer undir umr. og er á þskj. 445. Hæstv. fjrh. óskaði eftir því, að umr. yrði frestað þar til hann hefði haft tækifæri til þess að kynna sjer till. og láta álit sitt í ljós um hana. Þessi till. er varatill. við brtt. mína á þskj. 444, og fer jeg fram á það, að falli það ákvæði, að lögin skuli aðeins gilda til 1. maí 1927, skuli varatill. koma til atkv., að lögin falli úr gildi 1. maí 1928.

Jeg bar fram þessa till. í gær af því, að einn maður úr hv. fjhn. ljet í ljós, að hann hefði getað aðhyllst brtt. mína, ef jeg hefði sett 1928 í staðinn fyrir 1927. Þótt jeg geri það ekki með glöðu geði að framlengja þetta svona lengi, þá er það þó betra en að slá því algert föstu, að það sje ætlun Alþingis að láta þennan toll standa um aldur og æfi. Tel jeg þetta því betra en ekki neitt. Og þótt seinni till. verði samþ., verður næsta þing eða þingið 1928 að taka þetta mál til meðferðar, og má vera, að það finni þá ástæðu til þess að fella burt að einhverju leyti tolla og skatta, eða a. m. k. að draga eitthvað úr þeim, þar sem þeir liggja á nauðsynjum.

Jeg þykist vita, að varatill. verði samþykt, því að jeg geri ekki ráð fyrir því, að hv. þm. sjeu svo einráðnir í því að láta þennan toll verða að föstum tekjustofni fyrir ríkissjóð, og svo var til hans stofnað, að ólíklegt er, að þingið vilji festa hann.