23.04.1926
Neðri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Að svo stöddu hefi jeg lítið um frv. þetta að segja umfram það, sem stendur í nál.

Mál þetta er ekki nýtt hjer á þingi, því að það mun í þriðja skiftið á mjög stuttum tíma, sem það kemur fram. Frv. það, sem hjer er til umræðu, er nær samhljóða frv., sem borið var fram á þinginu 1923 og varð þá að lögum. En eins og kunnugt er, hafa þau lög ekki komið til framkvæmda.

Það er skoðun fjhn., að enn sje þörf á að fá fje frá útlöndum til þess að starfrækja atvinnuvegina. Síðan þetta kom fram fyrst hefir engin breyting orðið á þessu, nema að því leyti, sem þörfin hefir aukist, sem meðal annars hefir sýnt sig í því, að bankarnir hafa orðið að taka stór erlend lán, til þess að geta annast hlutverk sitt, að sjá atvinnuvegunum fyrir rekstrarfje.

Þessi lán hafa verið miður hagstæð, og liggur því í augum uppi, að miklu hentugra hefði verið að fá slíkt erlent fjármagn sem hlutafje í banka. Örðugleikar undanfarinna ára hafa líka reynst bönkunum þungbærir, og reynslan hefir sýnt, að betra hefði verið, að áhættan við rekstur atvinnuveganna, sem á bönkunum hefir hvílt, hefði dreifst á fleiri staði.

Um hlunnindi þau, sem um er að ræða í frv. fyrir fyrirhugaðan banka, er það að segja, að þau eru útlátalítil fyrir ríkið. Og samskonar hlunnindi hafa þegar verið veitt Íslandsbanka. Og meðan hann sem einkabanki nýtur slíkra hlunninda, hlýtur hver annar einkabanki, sem hjer er stofnaður, að verða að fá þau líka. Því að annars er óhugsandi, að nokkur slíkur banki geti risið hjer upp.

Um tap fyrir ríkissjóð, þó að hlunnindi þessi verði veitt, getur ekki verið að ræða, því að hann hefir þar engu að tapa.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. En fyrir hönd meiri hluta fjhn. vil jeg taka það fram, að hann fær ekki sjeð, að afstaða minni hlutans sje á rökum bygð, að vilja fresta málinu sökum þess, að ekki sje til almenn bankalöggjöf. Þetta virðist engin ástæða, því að banki þessi getur ekki starfað, nema að fá sömu hlunnindi eins og Íslandsbanki hefir nú. En hinsvegar verður hann, þegar leyfistíminn er á enda, að hlíta þeirri bankalöggjöf, er þá kann að hafa verið sett.

Hvað snertir brtt. á þskj. 330, þá sjer meiri hluti nefndarinnar ekki ástæðu til að breyta ákvæðunum um árgjaldið. Það er í frv. þessu alveg eins og það var sett í lögin 1923 og eins og fjhn. 1920 hafði ráðgert, að það væri í frv. því, sem þá var fyrir þinginu. Hitt getur meiri hluti nefndarinnar fallist á að sje sanngjarnt, að miða árgjaldið við hlutafjármagn annarsvegar, en ágóða hinsvegar. En meiri hl. virðist gjald það, sem farið er fram á með brtt. 330, svo hátt, að ekki sjeu líkindi til, að hægt verði að fá samkomulag um það.

Þá á jeg að skila frá nefndinni, að hún geti fallist á brtt. á þskj. 380.

Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um þetta nú og bíða þangað til flm. hafa gert grein fyrir till. sínum.