23.04.1926
Neðri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Tryggvi Þórhallsson:

Háttv. frsm. meiri hl. (JakM) þarf jeg að svara nokkrum orðum. Hann vildi ekki viðurkenna sem rjetta mótbáru hjá mjer, að hjer væri verið að veita útlendu fyrirtæki sjerstök hlunnindi. Jeg verð að segja: „Mikil er trú þín“ ef hann heldur, að menn þeir, sem fje leggja fram í þetta fyrirtæki, ætli að afsala sjer öllu valdi yfir peningunum. Jeg hygg nefnilega, að hann segi ekki allan hug sinn, þegar hann segir, að þessir peningar verði fullkomlega á valdi innlendra manna.

Þá sagði þessi háttv. þm., að jeg væri ekki altaf sjálfum mjer samkvæmur, og nefndi sem dæmi, að jeg hefði óspart veifað hlunnindum framan í Norðmenn, þegar kjöttollsmálið var á döfinni. Látum það þá vera svo, en sá var þú munurinn, að það var ekki verið að veifa þeim út í lofti; það kom eitthvað á móti þar. Og þar var um mikið að ræða, að mínu áliti. Og í slíkum samningum verður sá, sem eitthvað vill vinna, að fórna einhverju á móti.

Þá þarf jeg að svara hæstv. fjrh. nokkrum orðum. Hann vildi ekki viðurkenna, að hann væri í mótsögn við sjálfan sig með því að fylgja þessu frumvarpi, en vera á móti „lotteríi“, og rökstuddi það með því, að „lotteríinu“ væri verið að veita fríðindi vegna útlendinga.

En hjer er alveg um sama að ræða. Jeg trúi nefnilega ekki, að nokkur útlendingur flytji inn peninga til Íslands fyrir Íslendinga. Hann gerir það áreiðanlega fyrir sjálfan sig, í von um að fá meiri arð af þeim.

Þá gekk hæstv. fjrh. svo langt, að hann afneitaði sínum gamla og góða læriföður Cassel og sagði, að Svíar hefðu ekkert farið eftir tillögum hans. Hæstv. fjrh. virðist eftir því hafa yfirgefið þennan læriföður sinn af því að einhverjir aðrir hafa gert það.

Þá hjelt hann því fram, að hægt væri að hækka krónuna án þess að nokkur færi á hausinn eða af því hlytust verulegir örðugleikar. Um það atriði þarf jeg að fara nokkrum orðum.

Nú eru fyrst að koma fyllilega í ljós afleiðingar gengishækkunarinnar 1924 og 1925, og jeg vil leyfa mjer að fullyrða, að ástundið nú beri fullkomlega vitni um erfiðleika þá, sem stafa af gengishækkuninni. Jeg vona, að ekki fari margir á hausinn, en hæstv. fjrh. hlýtur að vita, að atvinnuvegirnir standa alveg á heljarþröminni. Af hverju stafa nú þessir örðugleikar fyrst og fremst breyttu fiskverði, eins og hæstv. ráðh. heldur fram eða gengishækkuninni? Jeg er nú að vísu ekki kunnugur fiskverslun, en jeg veit hitt, að merkir menn í flokki hæstv. ráðherra líta öðruvísi á þetta en hann. Og sá maður, sem er allra manna kunnugastur þessu, maður, sem hæstv. ráðh. ber mikla virðingu fyrir, hefir sagt við mig, að ráðh. hafi haldið fram röngu máli með því að segja, að breytt fiskverð hafi valdið mestu örðugleikunum. Hann heldur því fram, að aðalatriðið, sem valdi örðugleikunum, sje gengishækkunin. Því miður er þessi maður ekki viðstaddur nú, en hann mun áreiðanlega bera mjer vitni um það, að þetta sje rjett, sem jeg hefi haft eftir honum. Mjer hefir ennfremur nýlega borist plagg í hendur í þessu máli, sem tekur af öll tvímæli um þetta. Er það skýrsla utanríkisráðuneytisins norska, dagsett 26. mars þ. á., þar sem konsúllinn í Bergen gefur skýrslu um fiskverðið þar, og ætla jeg, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp úr henni:

„Den nye Klipfisk kom paa Markedet til jævne Priser, og disse havde sandynligvis kunnet være gennemfört, til Trods for den store Produktion i andre Lande, hvis ikke den pludselige Kronestigning saa at sige havde ödelagt enhver Kalkulation.“

Aðstaðan í Noregi og á Íslandi er svipuð í þessu efni, og nú segir þessi maður, sem vitanlega hefir sjerþekkingn á þessu, að það, sem aðallega hafi eyðilagt fiskverslunina, hafi verið hin snögga hækkun krónunnar.

Það eru aðeins örfá orð enn til hæstv. ráðh. Seinast í ræðu sinni beindist hann að mjer og vildi, að mig sviði undan. Hann vildi neita því, að nokkur klofningur væri í Íhaldsflokknum í gengismálinu; hann sagði, að það myndi sýna sig, þegar frv. mitt kæmi til umr., hvort um nokkurn slíkan klofning væri að ræða. Hann er nú eflaust kunnari ástandinu í flokknum en jeg, en hann var beinlínis að hælast um yfir þessu. En jeg vil beina því að honum, að hann þarf ekki að hælast um yfir mjer út af þessu. Hann getur hælst um út af öðru og yfir öðrum en mjer. Því að sje ekki orðinn klofningur í flokknum í þessu máli, þá hefir hæstv. ráðherra brotið á bak aftur sannfæringu flokksmanna sinna, því að í Íhaldsflokknum eru menn, sem vita, hvílík bölvun hækkun krónunnar er, og vilja hindra ráðh. í því að hækka hana. Hafi hæstv. ráðh. því brotið á bak aftur sannfæringu sinna manna, þá þarf hann ekki að hælast um yfir mjer, heldur yfir sjálfum flokksbræðrum sínum, sem hann hefir kúgað svo herfilera. Nú vil jeg spyrja hæstv. ráðh., hvort hann vilji ekki hælast um út af ein hverju fleira, t. d. að hann hafi fengið flokksmenn sína til þess að beygja sig líka í bankamálinu. Það mál kom fram í fyrra og hæstv. ráðh. lagði þá mikla áherslu á, að það gengi fram, en það tókst ekki. Nú ber hann það fram aftur, og jeg fullyrði, að flokkur hans sje klofinn. Getur hann hælst um, að hann hafi einnig kúgað flokksmenn sína í því. Jeg vænti þess, að hann lýsi þessu yfir, ef hann getur, og hælist um út af því. Annars finst mjer það koma úr hörðustu átt, að hæstv. ráðh. skuli vera að hælast um út af gengismálinu, þar sem allir vita, hvernig aðstaðan er í hans eigin flokki í því máli.

Jeg ætla svo ekki að segja meira um þetta, en í framhaldi af því, sem jeg hefi sagt um það, hvernig rjettast væri að greiða fram úr þessu máli, álít jeg langbest, að bankarnir útvegi það fjármagn, sent á vantar, sem lánsfje, og að þeir menn, sem kunnugastir eru atvinnuvegunum, ráði yfir þessu fjármagni. Vil jeg því leyfa mjer að bera upp svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

Þar sem deildin lítur svo á, sem eðlilegra sje, ef afla á útlends fjármagns til styrktar atvinnuvegunum, að bankar landsins, sem nú eru, afli þess fjármagns með lántökum, fremur en veita sjerstök hlunnindi nýjum banka — tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.