12.05.1926
Efri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og borið fram af hæstv. stjórn. Eins og komið hefir fram hjá nefnd þeirri, sem skipuð var til þess að rannsaka bankamálin, hefir sú skoðun orðið ofan á, að þörf væri á því, að settur væri hjer á stofn nýr einkabanki. Ástæðan er vitanlega sú, að álitið er, að atvinnuvegir landsins hafi ekki nægan stuðning hjá bönkum þeim, sem fyrir eru. Þá skorti alltilfinnanlega nauðsynlegt rekstrarfje. Jeg skal ekki fjölyrða neitt um frv. sjálft; jeg býst við því, að hæstv. fjrh. muni gera það, ef umræður verða hjer um þetta. Jeg vildi aðeins skýra frá því, að meiri hl. fjhn. er samþykkur frv. og fellst á, að ríkisstjórninni sje veitt heimild til þess að neita fyrirhuguðum nýjum banka svipuð hlunnindi sem Íslandsbanki hefir nú, að undanskildum seðlaútgáfurjettinum. Jeg býst við, að menn hafi tekið eftir því, að leyfistíminn á að vera eins langur og leyfistími Íslandsbanka. — Það hafa ekki verið gerðar stórvægilegar breytingar á frv. í Nd., en þó var þar gerð ein breyting, sem jeg tel til bóta, en það er, að eftir leyfistímann njóti bankinn eins góðra kjara og aðrir einkabankar hjer á landi. Minni hl. fjhn. er hinsvegar á móti frv. þessu, og mun hann gera grein fyrir skoðun sinni.