12.05.1926
Efri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Björn Kristjánsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, og sá fyrirvari á að þýða það, að jeg tel óviðfeldið að fela stjórninni að leita uppi menn eða fjelög, sem kynnu að vilja stofna stærri fyrirtæki hjer á landi. Myndi jeg hafa felt mig betur við, að þingið sjálft ákvæði, hvaða fjelagi ætti að veita slík rjettindi; en engu að síður, þótt jeg hafi gert þessa athugasemd, mun jeg greiða atkvæði með þessu máli, og það er af því, að jeg tel stofnun slíks banka nauðsynlega, án alls tillits til þess, hvar seðlaútgáfurjetturinn verður, því að það verður jafnmikil þörf á nýjum banka fyrir því, þótt seðlaútgáfan yrði falin sjerstakri stofnun. En þegar endanlega verður ákveðið um það, hvar seðlaútgáfurjetturinn lendir, vona jeg, að fult tillit verði tekið til óska þess hluta þjóðarinnar, sem mest þarf á bönkunum að halda.

Þetta er sú sjerstaka grein, sem jeg vildi gera fyrir atkvæði mínu, og þrátt fyrir þann fyrirkomulagsgalla, sem jeg tel vera á frv., mun jeg greiða því atkv. mitt.