14.05.1926
Efri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Jónas Jónsson:

Jeg vil ekki láta þetta mál hverfa svo út úr deildinni, að jeg rifji ekki upp að nokkru andmæli þau, er jeg hefi komið fram með við fyrri umræður. Hjer hafa nú gerst undarlegir hlutir í dag. Það er búið að samþykkja happdrætti, sem stjórnin vill ekkert hafa með að gera. Þeir, sem mest hafa barist á móti einkasölu, hafa nú samþykt einkasölufrumvvarp, þótt þeir að vísu áður hafi drepið einkasölufrv. um tilbúinn áburð, sem þó hefði mátt samþykkja með eins miklum rjetti, þar sem útlendir „spekúlantar“ höfðu náð áburðinum á sínar hendur og útilokað alla samkepni. Nú er hjer farið fram á að gefa stjórninni heimild til þess að veita hverjum sem vill færi á að koma á fót stofnun, sem á sínum tíma getur orðið mjög áhrifamikil. Því hefir nú verið neitað hjer, að nokkur hætta gæti stafað af því að veita útlendingum þessi rjettindi. En í dag hefir það sýnt sig, að menn, sem oft hafa borið orðin „frjáls verslun“ á vörum sjer, hafa fengist til að samþykkja einkasölufrv. vegna hræðslu við leppa. Þessi hræðsla hefir fengið flokk til að skifta um stefnu. Nú skal jeg aðeins nefna eitt dæmi þess, að ekki er ástæðulaust að vera á verði. Það er öllum kunnugt, að stjórnin hefir lagt fram frv. um seðlaútgáfurjett til handa Landsbankanum. Það er ennfremur kunnugt, að meiri hl. stjórnarandstæðinganna var frv. þessu fylgjandi. En þrátt fyrir það var það dæmt af dagskrá hjer ekki alls fyrir löngu. En hví komst þetta frv. ekki fram? Það var eingöngu vegna þess, að hjer er útlendur banki, sem hefir hagsmuni af því, að þetta frv. nái ekki fram að ganga og legst á móti því. Þessi útlenda peningastofnun hefir svo mikil áhrif, að hún getur hindrað stjórnina í því að koma frv. sínu fram. Og þó er þessi stofnun svo veik, að hún þarf að fá hjálp landsins. Nú er í dag verið að samþykkja í Nd. hlunnindi fyrir hana, til þess að hún geti haldið áfram að starfa. Þegar nú þessi peningastofnun, svo veik sem hún er, getur hindrað framgang stærsta og merkasta stjórnarfrumvarpsins, hve mörg frv. mundu þá ekki vera stöðvuð, ef hjer kæmi upp verulega sterkur erlendur banki? En í þessu frv. liggur sá möguleiki. Einasta afsökun fyrir að samþykkja þetta frv. væri sú, ef hjer lægju fyrir skilríki frá þektum fjármálamönnum, sem þingið gæti borið fult traust til að þeir vildu nota þessi hlunnindi, svo fyrir það væri girt, að hægt væri að selja hvaða gyðingi sem væri þessi rjettindi í hendur. En því er ekki hjer til að dreifa. Jeg hefi áður haft þá ánægju hjer á þingi að vara menn við hinum svokallaða norska banka. Hann var drifinn hjer í gegn með afbrigðum frá þing sköpum og ekki beðið eftir áliti frá nefnd.

Hvað hafðist svo upp úr því? Ekki annað en það, að einn eða fleiri „spekúlantar“ ferðuðust út um lönd í nokkur missiri og buðu mönnum þessi fríðindi. Pappírarnir voru sýndir utanlands og hundsaðir. Sömu menn berjast nú með sömu rökum fyrir þessum banka. En meðan ekki eru færð nein nýtileg rök fyrir þessu frv., þýðir ekki að fjölyrða um það. En jeg verð að segja, að það er vafasamur heiður fyrir stjórnina, er hún gefst upp á því að koma því frv. í gegn, sem á lá, að gengi fram, en setur svo þetta frv. í gegn í þess stað.