26.02.1927
Efri deild: 15. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. það, sem um það er að segja, er tekið fram í nál. á þskj. 53. Breytingarnar, sem farið er fram á, að gerðar verði á núgildandi ákvæðum í sveitarstjórnarlögunum, eru fáar og skifta ekki miklu máli, en þó hefir allshn. viljað koma með nokkrar brtt. við frv. það má segja það sama um þær breytingar. Þær eru fáar og skifta ekki miklu máli.

1. brtt. er við 23. gr., að fyrir 4 kr. komi 5 kr. Nefndin var sammála um, að það myndi borga sig vel að hafa oddvitalaunin ekki mjög lág. Þá mundi fást betri maður til starfans og yfir lengri tíma í einu. Ef launin eru svo lág, að það sje beinn skaði að gegna starfinu, fá hrepparnir miklu síður góðan oddvita til lengdar. Þá kemur það einnig til álita, að vegna þess, hvað oddvitalaunin eru lítil, hefir það sumstaðar orðið til þess, að farið var að taka sjerstök innheimtulaun, og sú regla er sjáanlega miklu kostnaðarsamari fyrir sveitarsjóðina.

30. gr. er sú grein, sem gerir aðalbreytinguna á frv. Hún er um það, hvernig fara skuli að, ef hreppsnefnd sýni vanrækslu í að inna af hendi lögboðnar greiðslur og svara fyrirspurnum æðri stjórnarvalda.

Við þá gr. hefir nefndin gert 2 brtt.,sem eingöngu miða að því að gera ákvæðin skýrari. í 30. gr. stendur, að sektir megi tiltaka í brjefi til oddvita, en nefndin álítur betra að hafa í ábyrgðarbrjefi. Þá er frekar hægt að sanna, ef á þarf að halda, hvenær oddviti hefir fengið brjefið. Ennfremur vill nefndin bæta aftan við fyrri málsgrein greinarinnar: „ef hann á sök á drættinum“. Sýslumaður getur ekki um það vitað, þó að vanrækslan stafi frá öðrum nefndarmanni. Hann verður að eigna oddvita það. Oddviti einn getur um þetta vitað, og verður að gera viðkomanda aðvart strax. þessar tvær brtt., 2. a og b, held jeg að hv. deild hljóti að fallast á, að geri greinina skýrari.

Þá leggur nefndin til, að bætt verði inn í 36. gr. í enda fyrri málsgreinar: „Ef atkvæði eru jöfn, ræður atkvæði oddvita“. Þetta stóð fyrst í sveitarstjórnarlögunum frá 1905, en var felt úr þeim 1914. Jeg hefi kynt mjer ástæðurnar fyrir því, en get ekki fallist á þær. Flm. segir, að þetta hafi verið misskilið svo, að oddviti mætti ekki greiða atkvæði, nema atkvæðatala væri jöfn. Auðvitað má hann altaf greiða atkvæði, en atkvæði hans er tvígilt, ef atkvæðatala er jöfn. Það má líka gjarnan vera svo. Hann er sá, sem fyrst og fremst ber ábyrgð á gerðum nefndarinnar.

Í síðari málsgrein 38. gr. vill nefndin í staðinn fyrir „einhverja aðra ráðstöfun“ hafa: „einhverja ráðstöfun.“ Jeg býst við, að hv. dm. hafi flestir frv. fyrir sjer og geti fylgst með brtt. nefndarinnar og fallist á, að þessi brtt. sje nauðsynleg.

Næsta brtt. er við 44. gr., um að fyrir orðið „hvert“ komi „yfirstandandi“. Það er ekki ætlunin að semja áætlun nema fyrir eitt reikningsár á hverjum fundi, nefnilega það, sem þegar er byrjað, yfirstandandi ár.

Síðasta brtt. er við 53. gr. þar hafa í upptalningunni fallið úr ein lög: Lög nr. 46, 26. okt. 1917, um breyting á sveitarstjórnarlögum 10. nóv. 1905. Þar af kemur máske villan í aths. um, að oddvitalaun sjeu hækkuð um helming. þau hafa verið 3 kr., en eru samkvæmt frv. 4 kr.

Þá hefi jeg ekki meira um frv. að segja, en legg til, fyrir nefndarinnar hönd, að það verði samþ. svo breytt.