02.04.1927
Neðri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

21. mál, fjárlög 1928

Hákon Kristófersson:

Jeg á hjer 2 brtt., sem jeg vildi þó helst hafa verið laus við, vegna þess að báðar fara þær í hækkunaráttina. Er það þá fyrst brtt. við 14. gr. A. b. 7, um húsabætur á prestssetrum, að sá liður hækki um 7000 kr.

Jeg hefi átt tal við háttv. fjvn. um þessa brtt., en hún hefir tjáð mjer, að hún hafi ekki getað tekið afstöðu til hennar vegna þess, að hún hafi ekki haft tækifæri til þess að ráðfæra sig við biskup. Jeg hefi því ákveðið að taka þessa brtt. aftur við þessa umr., í þeirri von, að hv. fjvn. taki hana til rækilegrar yfirvegunar.

Þá kem jeg að hinni brtt. minni, XXXVII. á þskj. 284, þar sem jeg fer fram á það, að þessi hv. deild fallist á að veita Patrekshreppi í Barðastrandarsýslu 20 þús. kr. eftirgjöf á viðlagasjóðsláni. Hreppsnefnd vildi fara fram á að fá helming eftirstöðva eftirgefinn, en jeg sá mjer ekki fært að fara svo langt. Upprunalega var lánið 90 þús. kr., en eftirstöðvar nú 72 þús. kr.

Jeg vil taka það fram, að lán þetta var, sem kunnugt er, tekið fyrir mörgum árum til rafveitu á Patreksfirði. Var til þessa fyrirtækis stofnað í byrjun ófriðarins mikla og hafði verið gerð áætlun um, að það mundi kosta í mesta lagi 20 þús. kr. En þá skall á ófriðurinn og hver óhappaaldan eftir aðra og gerði það að verkum, að kostnaðurinn varð svona hár, eða fullkomlega 4 sinnum meiri en áætlað var.

Má nærri geta og þarf engum orðum að því að eyða, að litlu hreppsfjelagi sem þessu er langsamlega ofvaxið að rísa undir slíkri byrði. Með það fyrir augum snýr það sjer nú til Alþingis, ef verða mætti, að það sæi sjer fært að ljetta þann bagga að nokkru.

Í sambandi við þessa málaleitan vil jeg geta þess, að afborganir og vexti hefir hreppurinn borgað til viðlagasjóðs um 50 þús. kr.

Fram að árinu sem leið hefir hann ætíð getað staðið í skilum. En þá kom kreppan yfir það bygðarlag sem önnur, og það er nú svo lamað, að fullhart mun vera, að það geti klofið þær sjálfsögðustu greiðslur, sem gengið er út frá, að verði að borgast.

Teg skal fúslega viðurkenna, að það er erfitt að fara fram á svona nokkuð. En þess ber að gæta, að það er ekki alveg fordæmalaust. Þarf ekki lengra að vitna en til síðasta þings. er slík eftirgjöf átti sjer stað gagnvart ýmsum hreppum. (TrÞ: Það náði ekki fram að ganga. Var felt). Nú, jæja. Það er þá misskilningur, sem jeg bið velvirðingar á. En nokkuð er það, að fast var það sótt. (KIJ: Já, það var alt annað). Þar stóð líka öðruvísi á en hjer. Þegar slíkar rafveitur máttu heita óþektar hjer á landi, ráðast þessir fátæku hreppsbúar í það stórræði að koma upp hjá sjer einni slíkri rafveitu. Mega þessar fáu krónur því skoðast sem viðurkenningarvottur fyrir framtakssemina. — Ef þetta fyrirtæki hefði ekki mætt mótstöðu og áföllum eftir að verkið var hafið, efast jeg ekki um, að það hefði orðið viðkomandi bygðarlagi til hinnar mestu blessunar. Í stað þess hefir snúist svo fyrir viðburðanna rás, að hreppsfjelagið getur nú ekki lengur staðið straum af því.

Jeg skal kannast við það, að eins og nú er háttað hag ríkissjóðs, er mjer næsta ógeðfelt að fara fram á þetta. En hvernig sem á er litið, er þó hagur ríkissjóðs betur kominn en þessa bygðarlags, sem hjer á hlut að máli.

Það er þýðingarlaust að tala langt mál um þetta, enda ætti mönnum að vera þegar ljóst af því, er jeg hefi sagt, að hjer er knýjandi nauðsyn fyrir dyrum.

En jeg verð þó að geta þess, að þegar litið er til hinna mörgu þúsunda, er óeftirtalið af mjer fara til hinna ýmsu landsfjórðunga til brúa- og vegagerða, þá er ekki ósanngjarnt, að við Vestfirðingar fáum ívilnun hvað þetta snertir. Eins og hinu háa Alþingi er kunnugt, höfum við ekki af neinum þvílíkum styrk að segja. Það er ekki á Vesturlandi nokkur spotti af því, sem kallast þjóðvegir. Og með símalínum, sem lagðar hafa verið ekki í sambandi við aðallínur, höfum við orðið að leggja á okkur stórfje. Við því er náttúrlega ekkert að segja. En jeg vænti þess, að þeir háttv. þm., sem fengið hafa ekki ólaglegar upphæðir til vegagerða o.s.frv. í sínum kjördæmum, hiki við að leggjast gegn þessu, sjerstaklega þar sem um er að ræða efnahagsatriði annarsvegar.

Læt jeg svo útrætt um það. Jeg var ekki viðstaddur, er hv. þm. Dal. (JG) hjelt sína ræðu, en býst við, að hann hafi minst á styrkbeiðni í brtt. nr. XXXII á þskj. 284 handa Eggerti Magnússyni til dýralækninga.

Jeg beini þeirri spurningu til hv. þm. Dal., hvort þetta sje sá sami Eggert, sem eitt sinn var búsettur í Barðastrandarsýslu. (JG: Jú, svo mun vera). Nú, einmitt það. Kannast jeg við manninn, en ekki var mjer það kunnugt, að hann hefði fengist við dýralækningar. (JG: Ekki í Haga). Háttv. þm. þarf ekki að snúa út úr orðum mínum. Jeg spurði kurteislega og bjóst ekki við, að hann mundi taka það illa upp.

Jeg skal gera ráð fyrir, að þessi maður hafi fengist við dýralækningar í Dölum og hv. þm. (JG) flytji ekki þessa brtt. af öðrum ástæðum en þeim, að viðkomandi hafi gert sig þessa styrks maklegan. (JG: Jeg gat um það alt í ræðu minni). En mjer er ekki kunnugt um hans dýralækningar annað en það, að hann þótti heldur laghentur við að gelda hesta. Aðrar dýralækningar þekti jeg ekki til hans, er hann var í Barðastrandarsýslu, og býst jeg við, að jeg sje þar kunnugri en hv. þm. Dal. Síður en svo, að jeg sje að reyna að koma þessari till. fyrir kattarnef. Upphæðin er svo lítil, til þess að gera. En ef við tökum upp þá reglu, að allir þeir, sem lagnir eru að fara með skepnur, fái opinberan styrk, þá yrðu nokkuð margir styrks maklegir og vandaðist málið að sinna öllum þeim styrkbeiðnafjölda, er rigna mundi yfir þingið. Jeg tel þá stefnu dálítið varhugaverða.

Af gamalli vinsemd get jeg brtt. XVII. á þskj. 284, frá sama hv. þm. (JG) og hv. þm. N.-Ísf. (JAJ). Mjer kemur sú till. ekki á óvart. En jeg vona, að hv. flm. taki mjer það ekki illa upp, þótt jeg geti ekki fylgt till. þeirra samkvæmt fyrri afstöðu minni. Mjer vitanlega liggur ekkert fyrir um það, að skólinn verði Þessa styrks maklegur eða hve mikill nemendafjöldi verði þar og þvíumlíkt.

Jeg held jeg láti hjer staðar numið að sinni.

Jeg treysti hv. þm. til þess að hugsa sig vel um og oftar en einu sinni, áður en þeir greiða atkvæði á móti þessari eftirgjöf á hluta af viðlagasjóðsláninu. Mætti það verða til þess, að hreppurinn geti betur staðið í skilum um það, sem eftir verður af láninu.

Það segir sig sjálft, að ríkinu er enginn hagur að eiga útistandandi skuldir, sem skuldunautarnir geta ekki staðið í skilum með. Eina ráðið er að gera þeim það kleift.

Og loks vil jeg bæta því við, að það er til þingfyrirheit um það, að þetta lán yrði eftirgefið að meira eða minna leyti. Þegar lánið var veitt, spáði þáverandi þm. V.-Ísf. (Matthías Ólafsson) því, að þar kæmi, að lánið yrði alt eftirgefið. Notaði jeg þá tækifærið og sló því föstu, að hjer væri um fyrirheit að ræða. Mótmælti því enginn. En sjáum til um efndirnar.