26.02.1927
Efri deild: 15. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg hefi altaf viðurkent, að fresturinn er knappur. Ástæðan til, að svo er lagt til í frv., er sú, að jeg vil gera þeim sýslum til geðs, sem langar til að halda sýslufundi snemma. Jeg sje ekki, að það sje nein goðgá, þótt maður segi, að þar, sem enginn kærir sig um að hafa sýslufund snemma, verði ekki fast gengið eftir ákvæðinu.

Jeg verð að segja, að ef aldrei á að senda brjef út um sveitir nema með pósti, þá getur afgreiðsla oft gengið seint hjá sýslumönnum. Að minsta kosti veit jeg, að jeg sendi venjulega ekki brjef með pósti, þegar jeg gegndi þeim störfum. Til sýslumanna koma á viku hverri menn svo að segja úr öllum hreppum sýslunnar, eða þannig er það þar, sem jeg þekki til. Og þá er ósköp hægt að nota slíkar ferðir. það þarf því ekki að miða eingöngu við póstferðir.

Annars vil jeg í þessu sambandi geta þess, að það er vel athugandi tillaga hv. 1. þm. Eyf. (EÁ), hvort ekki mætti sleppa þessari framlagningu reikninganna í hreppunum; því að jeg er honum sammála um, að hún er mjög lítils virði. Það er efamál, hvort ekki sje hægt að vinna nægan tíma með því að láta hreppsreikningana ekki fara strax til sýslumanna, heldur beint til yfirskoðunarmanns þess, sem sýslunefnd hefir kosið. Jeg hefi — eins og jeg tók fram — altaf viðurkent, að fresturinn væri stuttur, þótt jeg álíti víðast hvar hægt að komast af með hann, og vildi jeg því mælast til, að hv. nefnd athugaði þessa till. til 3. umr.

Hv. 2. þm. S.-M. (IP) þótti ilt, að jeg skyldi segja, að það væri ekki „krítisk“ endurskoðun, sem fer fram heima í hreppunum. En jeg fer eftir þeirri reynslu, sem jeg hefi sjálfur í þeim efnum. Það hefir sem sje oft komið fyrir, að miklar athugasemdir eru gerðar eftir að endurskoðun hafði farið fram heima í hreppunum. Jeg hefi altaf litið á þessa endurskoðun til þess gerða, að hreppsbúum yfirleitt gæfist kostur á að sjá og fylgjast með, hvernig fjárreiðunum er stjórnað, en alls ekki sem „krítiska“ töluendurskoðun.

Þá vík jeg að ákvæðinu um oddvitann. Jeg verð að segja, að það er að gera undantekningar að reglu, þegar hv. þm. (IP) vill láta líta svo út, að yfirleitt geti oddviti afgert mál einsamall. Fyrst og fremst er þess að gæta, að í fáum hreppum eru hreppsnefndarmenn aðeins þrír. Þar af leiðandi getur það ekki komið fyrir nema tiltölulega sjaldan, að oddviti afgreiði einn þessi mál. En jeg vil spyrja: Hver á að ráða máli til lykta, ef ekki eru nema tveir menn á fundi og þá greinir á? Það nægir alls ekki að segja eins og hv. 2. þm. S.-M. (IP), að ekki sje annað en að kalla saman annan fund. Vel getur verið, að þriðji nefndarmaðurinn sje forfallaður. Og víst verður að sníða þessi lög þannig, að það megi samkvæmt þeim afgera mál á þeim tíma, sem önnur lög mæla fyrir. Því að eins og hv. þm. (IP) er kunnugt, þá þurfa hreppsnefndir oft að svara ýmsum erindum innan ákveðins tíma samkvæmt fátækralögunum. Hvernig á að fara að, þegar aðeins tveir eru á fundi og annar segir já, en hinn nei? Þriðji maðurinn getur verið í löngu ferðalagi eða veikur, eða jafnvel dáinn, svo að ómögulegt er að ná honum á fundinn. Lögin verða að sjá fyrir einhverjum útvegi undir þessum kringumstæðum.

Hv. þm. (IP) sagði, að ekki væru komnar neinar sannanir fyrir því, að þetta ákvæði hefði ekki komið að sök. En sönnunarskyldan hvílir á þessum hv. þm. sjálfum, en ekki á okkur, sem viljum halda þessu 50 ára gamla ákvæði og virðist það vera nauðsynlegt.