04.04.1927
Neðri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (1077)

21. mál, fjárlög 1928

Björn Líndal:

Jeg býst ekki við, að hægt verði að ræða til hlítar þetta mál, Laugaskólann, við hv. þm. S.-Þ. (IngB), því að hann ber höfðinu við steininn, eins og fyrri, og segir ekki nema undan og ofan af um fjárreiður skólans. En jeg held, að það sje betra að þegja og skýra engu frá um fjármál skólans heldur en að gera það jafn hlutdrægt og gallað eins og hv. þm. (IngB) gerir.

Hann veit það, hv. þm., að skólinn skuldar langtum meira en þessar 25 þús. krónur, sem hann er altaf að stagast á. Jeg veit ekki hvað mikið, og þess vegna vil jeg einmitt fá það skýrt út sagt, af vörum hv. þm. S.-Þ., eða þá einhvers annars, hvað skuldir skólans eru miklar. En um þetta er vendilega þagað og svarað með eintómum blekkingum og vafningum.

Það mætti líka minna á, að þessi bakábyrgð er tímabundin, miðuð við 15 ár, að því er jeg best veit, enda áreiðanlegt, að lánið verður ekki endurgreitt á þeim tíma, eða þá eins víst — ef menn þessir borga —, að svo gæti farið, að þeir gengju að skólahúsinu, því að eflaust er það ekki lengur lán en ljeð er hjá sumum þeim mönnum, sem að bakábyrgðinni standa. Þeir hafa trygt sig svo, þessir guðsmenn og góðir menn, að þeir sleppa. Þess vegna er sýslan í hættu stödd, en ekkert um það hægt að segja, hve stór sú hætta er, af því allar fjárreiður skólans eru á huldu.

Hv. þm. S.-Þ. vildi halda því fram, að skólinn væri rekinn með þeirri fyrirhyggju, að hann gæti á sínum tíma borgað allar sínar skuldir. En engin rök færði hann fyrir því, sem heldur ekki er von, því að það er alkunnugt, að skólar hjer í landi eru engin gróðafyrirtæki, jafnvel þótt reknir sjeu af mestu forsjálni og fyrirhyggju, hvað þá heldur þegar reksturinn er í höndum þeirra manna, er engu kunna vel að stjórna. — Auk þess er það auðskilið mál, að skóli, sem engar tekjur hefir aðrar en opinbert fje og skólagjöld, þarf þeim mun meira af þessu fje, því meira sem hann skuldar, til vaxtagreiðslu og afborgana. Laugaskólinn getur því ekki komist úr skuldum sínum nema hann fái til þess beinlínis eða óbeinlínis fje úr opinberum sjóðum, eða taki miklum mun hærri skólagjöld en ella þyrfti, og er hvorttveggja ilt og óverjandi. Það gengur ósvífni næst að fara í vasa annara eftir fje til þess að greiða skuldir, seni stofnað hefir verið til með frekju og fyrirhyggjuleysi nokkurra pólitískra angurgapa. Til þessa skóla var leitað frjálsra samskota um sýsluna, og átti hann upphaflega að rísa skuldlaus frá grunni, svo að fyrir það væri bygt, að hann þyrfti að koma á eftir til sýslufjelagsins og beiðast hjálpar þess. En frá þessu heilbrigða marki var horfið og anað út í fyrirtækið fyrirhyggjulaust.

Hv. þm. (IngB) vildi láta það lesast út úr orðum sínum, að jeg hefði frá upphafi verið sjerstaklega óánægður yfir því, hvað litlu jeg hefði getað áorkað í þessu skólamáli. Jeg þykist nú vita, að slíkt muni varla hryggja hann mjög, heldur gleðja, og get jeg vel unt honum þeirrar gleði, gleðinnar yfir því, að ekki hefir tekist að koma í veg fyrir, að skólinn lenti í því öngþveiti, sem í er komið.

Þá sagði hann, að jeg hefði óstjórnlega löngun til þess að sverta og ófrægja menn og málefni í mínu hjeraði. Því mótmæli jeg harðlega. En hitt skal jeg játa, að jeg hefi oft óstjórnlega löngun til þess að segja satt og rjett um menn og málefni, hvort sem öðrum líkar það betur eða ver. En sannleikurinn er því miður oft og einatt þannig, að hann verður ekki sagður án þess að verði einstökum mönnum og málefnum til ófrægingar og álitshnekkis.