09.04.1927
Neðri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

21. mál, fjárlög 1928

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg ætla aðeins að gera að umtalsefni tiltölulega fáar brtt. við þennan kafla, og það eru þá aðallega þær brtt., sem við koma mínu starfi sjerstaklega. Vil jeg þá byrja á IX. brtt. háttv. fjvn., til Heilsuhælisins í Kristnesi. Nefndin hefir tekið þetta upp eftir minni beiðni, og er jeg henni þakklátur fyrir. Það er vitaskuld svo, að þessi liður hlýtur að vera aðeins lausleg áætlun, því að hælið er ekki tekið til starfa, en ef ráða má eftir kostnaðinum við heilsuhælið á Vífilsstöðum, þá ætti þessi liður ekki að þurfa að verða útgjaldaliður til margra ára.

Þá er XV. og XVI. brtt. til vegagerða, frá hv. þm. Dal. (JG) og hv 1. þm. S.-M. (SvÓ). Þar sem hjer er um að ræða till., sem fer fram á fjárveitingu til nýrra vega, þá hefði jeg haft mikla löngun til að vera með henni. En eins og jeg tók fram við 2. umr., þá er búið að ráðstafa svo miklum peningum til vega, að jeg sje ekki fært að bæta neinu við það. Og þar sem farið hefir verið eftir áliti vegamálastjóra með framlögin til nýrra vega, og álits hans hefir verið leitað um þessa vegalagningu, þá verð jeg að telja, að hann álíti þessa vegi ekki eins nauðsynlega og þá vegi, sem teknir hafa verið upp í stjfrv.

Viðvíkjandi brtt. hv. 1. þm. S.-M. um veg á Hólmahálsi er það að segja, að það er altaf góður mælikvarði á þörfina á vegum, ef hjeraðsbúar vilja leggja fram nokkurn hluta kostnaðarins. En það er tæpast hægt að sinna þessari beiðni, eins og nú er ástatt um fjárhaginn.

Þá er 17. brtt. frá hv. þm. Mýr. (PÞ). Hann vill flytja liðinn um fjárveitinguna til vegarins í Vestmannaeyjum úr 16. í 13. gr. fjárlagafrv. og færir það til, að þar eigi vegamálin heima. En þessi vegur er annars eðlis en aðrir vegir; hann er ekki fyrst og fremst samgönguvegur, heldur ræktunarvegur til þess að gera Vestmannaeyingum fært að rækta sem mest land. Þessi vegur er því alt annars eðlis en þeir vegir, sem ræðir um í 13. gr., og þess vegna sje jeg ekkert á móti því, að hafa hann í 16. gr., þar sem öll framlög til ræktunar eru sett. Hinsvegar bætir þessi vegur lítið úr samgönguþörfinni þar í eyjunum, heldur er hann svo að segja eingöngu lagður vegna ræktunarinnar.

Um brtt. hv. samgmn. hefi jeg lítið að segja, annað en að jeg get tekið undir það með nefndinni, að styrkurinn til Eyjafjarðarbátsins sje altof lágt áætlaður. En það má bæta úr því með því að greiða til hans einhverja upphæð úr póstsjóði. Þá hygg jeg, að á næsta ári megi fá kostnaðinn niður í 12 þús. kr. Þetta er fyrsta rekstrarár bátsins og þær ferðir, sem honum er ætlað að fara, eru svo margar, að það hlýtur að mega draga eitthvað úr þeim. Annars mun jeg ekkert kapp leggja á það, að þessi upphæð hækki. Það má þá koma með fjárveitingu á aukafjárlögum, ef ekki fæst samkomulag við eigendur bátsins um 12 þús. kr. En jeg vil benda á það atriði, að jeg held, að það sje ekki rjett að vera að telja upp í opinberum þingskjölum, hvernig þessum styrk til bátanna eigi að skifta. Það gerir stjórninni erfiðara fyrir með að semja við hlutaðeigandi bátaeigendur, þegar þeir hafa fengið vonarbrjef frá hv. samgmn. um ákveðnar upphæðir. En hinsvegar er hægt að binda stjórnina við ákveðin tillög, þótt það sje ekki gert í opinberum þingskjölum. En það er talsvert erfiðara að fá eigendur bátanna til þess að færa kröfur sínar niður, þegar þeir geta bent á ákveðnar fjárveitingar til sín í opinberum þingskjölum.

Þá vil jeg minnast á till. frá hv. sjútvn. og fjvn. um nýja vita. Jeg álít það rjett hjá hv. fjvn. að binda það ekki við borð, að þeir vitar, sem bygðir verða árið 1928, sjeu eingöngu radiovitar. Og ef samkomulag næðist um 50 þús. kr. fjárveitingu hv. fjvn. til vita, en nefndin fjelli hinsvegar frá till. sinni um að fella burtu dufl á Valhúsgrunni, og ef hv. sjútvn. tæki aftur till. sína, þá hygg jeg, að svo vel væri ráðið fram úr þessu máli, að allir mættu við una.

Þótt þetta verði gert, þá er samt fjárveitingin til vitanna talsvert lægri en vera ætti. En þar sem svo erfitt er að fá tekjur ríkissjóðs til að hrökkva fyrir öllum útgjöldunum, þá verður að teljast sómasamlegt að láta sitja við 60 þús. kr. til nýrra vita. En búast má við því, að rekstrarkostnaður vitanna, sem er áætlunarupphæð, fari eitthvað talsvert fram úr áætlun, því að nýr viti, Dyrhólaeyjarvitinn, bætist við á þessu ári, og hann verður dýr í rekstri.