11.04.1927
Neðri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg þarf ekki að tala langt mál af hálfu fjvn. um þennan kafla fjárlagafrv. Ekki ætla jeg heldur að fara út í neinn almennan samanburð, meðan enn eru á leiðinni till. frá einstökum hv. þm. og jafnvel ekki laust við, að von sje á till. frá fjvn. Af öllum þeim fjölda brtt., sem hjer liggja fyrir, er er alveg hverfandi það, sem frá nefndinni kemur, svoleiðis að ef yfirborðið af þeim verður samþ., þá er framhjá því gengið, að fjvn. hafi nokkur veruleg áhrif á afgreiðslu fjárlaganna.

Jeg ætla þá í sem stystu máli að gera grein fyrir hinum tiltölulega fáu brtt. nefndarinnar. pær er allar að finna á þskj. 336.

Það eru þá fyrst 2 brtt., er snerta Landsbókasafnið. Landsbókavörður kom á fund nefndarinnar og gerði grein fyrir því, að safninu væri mjög bagalegt, ef lækkaðar væru fjárveitingarnar til bókakaupa og bókbands og til samningar handritaskrár, því að þær væru nú helst til lágar. Stjórnin lækkaði þessar upphæðir í frv. sínu, aðra um 1000 kr., en hina um 500 kr. Nefndin hefir fallist á að hækka þær aftur, þannig að þær verði eins og í núgildandi fjárlögum. Landsbókasafninu berst árlega fjöldi góðra bóka, sem engin eign er í og ekki koma að neinu gagni, nema þær sjeu bundnar inn. Um handritaskrána er það að segja, að að henni starfar nú Páll Eggert Ólason, og stendur aðeins á að gefa hana út, svo að hún megi koma að notum. Það er ekki hægt fyrir menn að nota safn þetta, nema til sje yfir það fullkomin skrá. Af því, sem nú er sagt, sjer nefndin sjer ekki annað fært en að hækka þessa liði aftur.

Þá er næsta brtt. nefndarinnar undir tölulið XXXVI. Er hún aðeins leiðrjetting samkvæmt fengnum upplýsingum. Sá partur jarðabókar Árna Magnússonar, sem styrkurinn er veittur til, á að ná yfir Hegranesþing, og er því þessi brtt. sjálfsögð.

3. brtt. nefndarinnar er undir tölulið L. Er þar lagt til, að áætlunarupphæðin viðvíkjandi jarðræktarlögunum verði hækkuð um 100 þús. kr. 1 frv. stjórnarinnar er þessi upphæð áætluð 50 þús. kr., enda lágu þá ekki gögn fyrir um það, hvers vænta mátti. Nú hafa nefndinni borist gögn frá Búnaðarfjelagi Íslands um það, að útgjöldin verða í þetta sinn 176583,20 kr. Það er ljóst, að ef á að fara eftir sama taxta og áður, er ekkert vit í þeirri áætlun, sem nú er í frv., 50 þús. kr. Nefndin ber þessa brtt. fram eftir ósk Búnaðarfjelagsins, og er því tilætlun hennar, að styrkurinn verði greiddur eftir sama taxta og áður.

Þá á nefndin eina brtt. við 17. gr., um að Sjúkrasamlag prentara megi fá styrk eins og önnur sjúkrasamlög. Þetta hefir staðið í fjárlögum áður, enda starfar þetta samlag alveg eins og önnur sjúkrasamlög, en það getur þó ekki heyrt undir ramma laganna eins og þau eru nú, vegna þess að það er bundið við eina stjett manna. Þetta vill nefndin lagfæra, enda mun þetta eigi nema meiru en eitthvað á annað hundrað króna, og vill nefndin leggja það til, að slík greiðsla fari einnig fram fyrir yfirstandandi ár.

Þá vill nefndin, að ekkjum tveggja nýlátinna manna verði greidd nokkur eftirlaun, ekkju Forbergs landssímastjóra og ekkju Sveinbjarnar Sveinbjörnssonar tónskálds. Jeg skal geta þess, að þessar till. flytur nefndin eftir ósk hæstv. stjórnar og till., og skal jeg bæta því við, að að því er ekkju Forbergs snertir er það viðbót við eftirlaun. Jeg vænti, að allir sjeu sammála um, að þessar till. sjeu sjálfsagðar.

Um yfirhjúkrunarkonu Kjær skal jeg taka það fram, að hún hefir á næsta ári starfað hjer á landi 25 ár, og frá henni hefir borist erindi um, að hún óskar eftir að fá þá lausn frá starfi sínu til að hvílast. Erindi hennar fylgja mjög eindregin meðmæli frá yfirlækni Sæm. Bjarnhjeðinssyni, enda mun óhætt að fullyrða, að hún hefir reynst hin mætasta og merkasta kona í alla staði. Okkur er vandfarið við þá útlendinga, sem svo vel reynast, og vill nefndin mæla hið besta með þessari till., með því líka að þessi kona treystir sjer ekki til að láta af starfi sínu, nema hún fái einhver eftirlaun, en þarf hinsvegar mjög að hvílast, eftir langt og vel unnið starf í okkar þágu. Til viðbótar vil jeg benda á það, að ástandið er nú orðið svo breytt, að við þurfum tæplega hjúkrunarkonu með svo mikilli mentun eins og þessi kona hefir. Það er hægt að komast af með ódýrari starfskraft, svo að óvíst er, hvort um nokkur aukin útgjöld verður að ræða.

Þá flytur nefndin brtt. við 23. gr., um að heimila stjórninni að greiða halla þann, er verða kann á tilraunum Sambands íslenskra samvinnufjelaga til að senda frosið kjöt á erlendan markað haustið 1927. Á núgildandi fjárlögum eru samskonar ákvæði fyrir haustið 1926, og mun ekki þurfa til þess að taka, og jeg geri eins ráð fyrir, að þess þurfi heldur ekki nú, en það er þó öruggara fyrir þessa stofnun að hafa þessa tryggingu að baki sjer. Væntanlega verður þetta í síðasta sinn, sem farið er fram á þetta, þar sem við höfum nú eignast skip, sem gert er með sjerstöku tilliti til þessara flutninga. En nú verður að leggja alla áherslu á þetta, með því að aldrei hefir horft óvænlegar en nú með sölu á saltkjöti, og þyrfti að senda út frosið kjöt í miklu stærri stíl en áður hefir verið, og er þá nauðsynlegt og sjálfsagt, að ríkið styðji allar tilraunir í þessa átt.

Fleiri eru ekki till. nefndarinnar. Um till. einstakra þm. ætla jeg ekki að tala fyr en flm. hafa gert grein fyrir þeim.