12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (1131)

21. mál, fjárlög 1928

Björn Líndal:

Jeg var ekki viðstaddur, þegar hv. frsm. byrjaði að tala og þegar hann mintist á brtt. mínar. Jeg hefi heyrt, að hann hafi einkum vikið nokkrum orðum að brtt. minni um 85 þús. kr. fjárveitingu til húsmæðraskóla Norðurlands. Jeg get ekki látið orðum hv. þm. ósvarað og ætla um leið að víkja alment að þessu máli. Hv. frsm. gat þess, að málið væri illa undirbúið, skólastaðurinn væri ekki ákveðinn og ekkert erindi hefði legið fyrir fjvn. um þennan skóla, engin kostnaðaráætlun o. s. frv.

Það er satt, að skólastaðurinn hefir ekki enn verið ákveðinn. En þetta er ekkert aðalatriði, því að fyrst þegar var veitt fje til heilsuhælis Norðurlands, þá var ekki búið að ákveða neinn stað fyrir það. Jeg get fullvissað hv. frsm. um það, að engin hætta er á því, að ekki náist samkomulag um skólastaðinn. Og jeg get upplýst það, að skólanum hefir boðist staður í nánd við Akureyri, þar sem hann getur fengið til umráða, og jafnvel gefins, 70 dagslátta ræktað land. Um kostnaðaráætlun fyrir þennan húsmæðraskóla er það að segja, að þar er ekki mikill munur á og þeim Skóla, sem hv. frsm. hefir barist fyrir, húsmæðraskólanum á Laugum. Kostnaðaráætlun sú, sem legið hefir fyrir um þann skóla, er verri en engin, því að hún sýnir það best sjálf, að ekkert er á henni að byggja. Jeg get því ekki fallist á, að hjer sje nokkur munur á, enda væri stjórninni í lófa lagið að neita að borga þetta fjárframlag út, nema kostnaðaráætlun og teikning af skólanum lægi fyrir, að því meðtöldu, að þá væri búið að ákveða skólastaðinn. Hvað fjárhagshlið þessa máls snertir, þá vil jeg geta þess, að fyrir hendi eru 35 þús. kr., sem lagðar verða móti ríkissjóðstillaginu. Samkv. lögunum frá 1917 á ríkissjóður að leggja fram 2/3 byggingarkostnaðar skólans. Gert er ráð fyrir, að allur kostnaður við bygginguna muni ekki fara fram úr 100 þús. krónum, og fer þá tillag ríkissjóðs ekki fram úr 70 þúsund krónum.

En jeg vildi leggja áherslu á það, að æskilegt væri, að það kæmi hjer skýrt fram, hvort Alþingi telur, að það geti látið sjer sæma að svíkja loforð, gefin í lagaformi, eða að minsta kosti leyft sjer að stofna aðra húsmæðraskóla áður en þetta loforð er efnt. Það er alger óhæfa, ef Alþingi gengur á undan öðrum með slíkt framferði. Hjer er ekki farið fram á annað en að efnt sje gamalt loforð. En hitt er satt, að það var af hlífð við ríkissjóðinn, að ekki var farið fram á fjárveitingu til húsmæðraskóla Norðurlands fyr en nú, eins og jeg hefi áður tekið fram. Og jeg vildi mega beina því til þeirra manna, sem berjast fyrir Laugaskólanum, að þeir hefðu verið menn að meiri, hefðu þeir gætt svipaðs hófs í fjárkröfum sínum og Eyfirðingar.

Það er algerður misskilningur, að heilsuhæli Norðurlands sje bygt fyrir Eyfirðinga eina. Það er bygt fyrir alt Norðurland og jafnvel fyrir alt landið.

Það gengur frekju næst, að meðan þeir, sem barist hafa fyrir húsmæðraskóla Norðurlands, hafa látið það mál liggja niðri vegna heilsuhælisbyggingarinnar, þá skuli Þingeyingar rísa upp og heimta húsmæðraskóla hjá sjer, í í trássi við lög og loforð um húsmæðraskóla Norðurlands.

Nú þætti mjer fróðlegt að vita, hvað þingið samþykti í þessu efni, hvort það fellir þennan skóla til þess að verða við óskum nokkurra kvenna í Þingeyjarsýslu um húsmæðraskóla þar.

Þá vil jeg minnast á brtt. LV á þskj. 336, um 10 þús. kr. til markaðsleitar fyrir síld. Fjvn. leggur eindregið á móti þessari upphæð. Mjer þykir harla undarlegt, hverjar undirtektir slíkar fjárbænir í þágu sjávarútvegsins fá altaf hjer á Alþingi. Það er undrunarvert, að nokkur þeirra þm. skuli mæla á móti þeim, sem altaf við öll tækifæri eru reiðubúnir til þess að sópa hundruðum þúsunda í þarfir landbúnaðarins. Hjerna rjett fyrir ofan á þessu þskj. er till. um 100 þús. kr. hækkun á styrk til bænda vegna jarðræktarlaganna. Jeg þykist vera bóndi fyrst og fremst og ekki áhugaminni um jarðrækt en bændur alment gerast, en jeg er þó ekki svo blindur af stjettarhagsmunum, að jeg verði ekki að játa, að það misrjetti, sem hjer á sjer stað á Alþingi milli tveggja aðalatvinnuvega þjóðarinnar, sje með öllu óverjandi. Til að sýna hvað gert er til þess að hjálpa bændum til að fá góðan markað fyrir landafurðirnar, vil jeg geta þess, að ríkissjóður á að taka að sjer halla þann, sem verða kann af útflutningi á frosnu kjöti til Englands. Og í fyrra var lagður fram 350 þús. kr. styrkur til þess að byggja kæliskip, sem einkum á að nota í þarfir landbúnaðarins. Og enn má nefna 150 þús. kr. fjárveitingu samkv. jarðræktarlögunum og stórfje til Búnaðarfjelagsins, auk allra smærri fjárveitinga. — En þegar um það er að ræða að hjálpa síldarútveginum með 10 þús. kr. styrk til markaðsleitar fyrir afurðir hans, þá kveður við annan tón.

Og nú má telja víst, að síldarsamlagið verði stofnað samkvæmt lögum frá í fyrra. En þá þarf starfsemi samlagsins að byrja með því að leita að síldarmarkaði. En í byrjuninni hefir samlagið ekkert fje undir höndum til þess að byrja starfsemi sína með, því að því áskotnast ekkert fje fyr en það fer að selja síldina. En verði nú þessi fjárveiting feld, er loku fyrir það skotið, að samlagið geti komið að fullum notum í byrjun, og hún verður vitanlega erfiðust. Það ætti flestum hv. þm. að vera vitanlegt, í hvaða ástandi sjávarútvegurinn er nú sem stendur. Og þeir ættu að vera svo glöggir menn að sjá það, að það skiftir ekki svo litlu máli fyrir þjóðfjelagið í heild sinni, hvernig fer um hinn íslenska útveg. En þar ber sannarlega ekki vott um mikinn skilning á þessu máli, ef neita á um örlítið brot af öllum þeim blóðpeningum, sem teknir eru beinlínis til almennra þarfa af síldinni, til þess að leita henni nýrra markaða, þótt það sje alkunnugt, að það er eina bjargarvonin fyrir þennan útveg, að þetta takist. Og eigi ekki að gera svo lítið sem það að borga aðeins örlítið brot af kostnaðinum við það að koma síldarafurðunum á nýja markaði, þá má segja, að mjög illa sje að verið.

Jeg trúi því ekki fyr en jeg má til, að Alþingi felli þennan lið niður.