06.05.1927
Efri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

21. mál, fjárlög 1928

Forseti (HSteins):

Út af brtt. hæstv. fjrh. (JÞ) á þskj. 316 skal jeg geta þess, að í 3. málsgr. 32. gr. þingskapanna segir svo, að „breytingartillögu um atriði, sem búið er að fella í deild, má eigi bera upp aftur í sömu deild á sama þingi . . . . “

Nú er það að vísu svo, að það atriði, sem felst í brtt. hæstv. fjrh., hefir ekki verið felt í þessari hv. deild, en hefir hinsvegar verið samþ. hjer við 2. umræðu. En jeg tel, að samkvæmt þingsköpunum beri að líta svo á, að sama gildi um samþ. brtt. og þær, sem feldar hafa verið, enda er sá skilningur í samræmi við úrskurð, sem jeg feldi á síðasta þingi um samskonar atriði. Samkvæmt þessu verð jeg að líta svo á, að síðari brtt. (aðaltill.) á þskj. 516 geti ekki komið til atkvæða, og vísa jeg henni frá. Hinsvegar tel jeg sjálfsagt, að varatill. á sama þskj. verði tekin til greina, og mun jeg láta hana koma til atkvæða.

Að svo mæltu hefst atkvæðagreiðslan.