10.05.1927
Neðri deild: 71. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. síðari kaflans (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg mun ekki frekar venju fara út í almennar aths. viðvíkjandi fjárlagafrv. að þessu sinni. En jeg vil undirstrika það, að fjvn. var það fullljóst, þegar fjárlagafrv. var afgr. hjer frá þessari hv. deild, að taka þurfti sterkari tökum til lagfæringar á því, þegar það kæmi til deildarinnar aftur, og hún gerði ráð fyrir að koma með till. í þá átt. Nú hefir háttv. Ed. gengið inn á þessa braut, og í aðalatriðunum er nefndin samþykk þeim breytingum, sem hún hefir gert á fjárlagafrv., en hún eða meiri hluti hennar telur, að við eigum að fara lengra í því að fella niður og lækka útgjaldaliði, og að þar sje margt, sem eins mikil ástæða sje til að fella burtu eins og það, sem hv. Ed. hefir felt.

Meiri hl. fjvn. ber fram aðeins fjórar hækkunartill., sem nema samtals 24 þús. kr., en lækkunartill. meiri hl. nema samtals 233400 kr., svo að sú hækkun, sem farið er fram á, nemur ekki nema ca. 10% af þeirri upphæð, sem lagt er til að feld sje niður. En áður en jeg vík að brtt. fjvn. við síðari kafla fjárlagafrv., sem mjer tilheyrir, ætla jeg að minnast á eina brtt. við fyrri kaflann, sem meiri hl. nefndarinnar ber fram, um að fella niður fjárveitingu til byggingar landsspítalans.

Fjvn. fór suður að spítalabyggingunni í vetur ásamt húsameistara Guðjóni Samúelssyni, og sagði hann þá nefndinni, að með því fje, sem búið væri að veita til spítalans, mundi hann verða gerður fokheldur í ár.

Nú lít jeg svo á, að ef ríkissjóður þarf að hvíla sig eitthvað með framlag til þessarar byggingar, þá sje rjetti tíminn til að gera það nú, þegar húsið er orðið fokhelt, svo að það liggur ekki undir skemdum, þó að byggingin sje stöðvuð í bili. Þetta var gert með Kleppsspítalann á sínum tíma. Þá komu fjárhagsvandræði fyrir ríkið, eins og menn sjá fram á nú, og því meiri ástæða er til að kippa að sjer hendinni í þessu efni nú, þegar gera má ráð fyrir, að stofnun þessi verði hjerumbil helmingi dýrari en gert var ráð fyrir 1925, þegar samningurinn var gerður.

Við meirihlutamenn í fjvn. gerum það ekki með glöðu geði að leggja þetta til, því að okkur er það öllum ljóst, að það væri mjög ánægjulegt, að byggingunni væri lokið 1930, en við álítum, að við verðum að hvíla okkur. Og því til sönnunar vil jeg leyfa mjer að benda á það, að þessi fjárveiting, 150 þús. kr., sem nú er í fjárlagafrv., gefur ekki nema óljósa hugmynd um það, hvað mikið við verðum að leggja fram til þess, að byggingunni verði lokið 1930, eða til þess að uppfylla þann samning, sem hæstv. stjórn gerði við landsspítalasjóðsnefndina á grundvelli þeirrar þál., sem samþykt var á þinginu 1925. Til þess er það ekki nóg að veita árlega 150 þús. kr., nei, til þess að byggingunni verði lokið 1930, verðum við að leggja fram, auk 150 þús. kr. árið 1928, 450 þús. kr. hvort árið 1929 og 1930. Meiri hl. fjvn. getur ekki sjeð, að neitt vit sje í því að gera ráð fyrir, að ríkið geti lagt svona mikið fje fram á þessum tíma, án þess að fella þá óeðlilega niður framlög til annars.

Það hefði vitanlega ekki komið til mála að kippa að sjer hendinni nú, ef ekki hefði staðið svo á, að hægt er að hvíla sig við bygginguna, án þess að nokkuð skemmist af því, sem unnið hefir verið. En húsið er nú orðið fokhelt, eða verður það af því fje, sem þegar hefir verið veitt.

Eins og hv. frsm. fyrri kaflans (ÞórJ) tók fram, gerði stjórnin samning við landsspítalasjóðsnefndina, og var sá samningur bygður á grundvelli þál., sem samþ. var á þingi 1925. En nú vil jeg benda á, að till. meiri hl. er fram borin beint með tilliti til þessarar þál. Þar segir svo meðal annars:

„ .. Ennfremur ætlast þingið til þess, að verkinu verði haldið áfram á næstu árum og byggingunni lokið í árslok 1929 ef ekki ófyrirsjáanleg fjárhagsvandræði ríkisins gera ókleift að halda henni áfram . . “

Meiri hl. fjvn. Nd. verður að telja, að nú sjeu einmitt fyrirsjáanleg slík fjárhagsvandræði hjá ríkinu.

Það er rjett, að stjórnin hefir heimild til þess að taka lán, en meiri hluti fjvn. vill láta það koma skýrt fram, að hann telur það algerlega óverjandi, eins og sakir standa nú, og álítur, að við verðum að hvíla okkur nú, okkur sje það algerlega ofvaxið að leggja fram 450 þús. kr. hvort árið 1929 og 1930. Því heldur meiri hl. fjvn. fast við sína till., að fresta fjárveitingu til landsspítalans.

Þá skal jeg víkja að brtt. fjvn. við 14. gr., um að fella niður styrkinn til byggingar stúdentagarðs, 25 þús. kr. Hv. Ed. hefir fært styrkinn úr 50 þús., sem var í stjfrv., niður í 25 þús., en meiri hl. fjvn. Nd. vill fella þessa upphæð niður og þar með gefa til kynna, að þetta verði að bíða.

Okkur fanst það ilt til frásagnar, þegar við komum heim í hjeruð okkar og verðum að segja frá því, að við höfum orðið að klípa af fjárveitingum til brúagerða, vega og símalagninga, að verða um leið að viðurkenna, að við hefðum veitt stórfje til bygginga í Reykjavík, sem við viðurkennum hinsvegar, að eru nauðsynlegar, og við viljum styðja, þegar við teljum fært og afsakanlegt að veita fje til þeirra.

Þá kem jeg að 4 hækkunartill., sem meiri hl. fjvn. ber fram og allar snerta skólahaldið úti um hjeruð landsins og allar voru samþ. hjer í deildinni áður með yfirgnæfandi meiri hluta atkv.

Okkur þótti afgr. hv. Ed. harla einkennileg, að því er snerti þessar till. — Það er þá fyrst 9 þús. kr. hækkun til Hvanneyrarskólans. Það verður að teljast mjög einkennilegt hjá hv. Ed., að hún fellir þessa upphæð niður, en lætur standa tilsvarandi upphæð til fjárhúsbyggingar norður á Hólum. Og nú í dag sje jeg í blöðunum auglýst eftir tilboðum í að byggja þessi fjárhús, áður en samþ. hefir verið að veita þetta fje. Jeg verð að telja það mjög óviðeigandi og beinlínis storkun til fjárveitingarvaldsins að ætla að ráðstafa þessu fje áður en það er veitt. (Forsrh. JÞ: Þetta er alt misskilningur. Það er samkvæmt gildandi fjárlögum, fyrir árið 1927). Nei, í gildandi fjárlögum er veitt fje til að auka búið á Hólum, og byrjunarfjárveiting til fjárhússins, en í frv. er lokafjárveitingin.

Út af þessu verð jeg að mótmæla því, að þannig sje farið að um þessa tvo bændaskóla. Jeg vil einlæglega styðja Hólaskóla, en Hvanneyrarskólinn á það sannarlega skilið, að ekki sje miður um hann búið. Hvers á hann að gjalda? Er minni aðsókn að honum? Nei, vissulega ekki. Það geta meira að segja ekki allir komist að, sem sækja. Er þá búskapur til meiri fyrirmyndar á Hólum? Nei, þar hefir alt verið á eilífu hringli. Stundum er búið leigt, stundum hefir skólastjórinn haft það, og svo hefir orðið að veita til þess sjerstaka fjárveitingu. Um ekkert slíkt er að ræða á Hvanneyri.

Þá kem jeg að hinum tillögunum. Jeg verð að láta í ljós undrun mína yfir því, hvernig hv. Ed. hefir gengið frá þessum skólum. Hún hefir lækkað fjárveitingar til allrar kvennafræðslu úti um land: á Blönduósi, Staðarfelli, kvennadeildinni í Þingeyjarsýslu, og auk þess til hinnar almennu unglingafræðslu, en hækkað til þess skóla, sem hefir besta aðstöðuna, sem sje kvennaskólans í Reykjavík. Jeg hugsa, að hv. þm. hafi sínar hugmyndir um þetta. Jeg vil engum getum að leiða, hvernig á því stendur. Nefndin hjer vill ekki lækka aftur fjárveitinguna til Reykjavíkurskólans, heldur hækka á hinum stöðunum.

Háttv. frsm. fyrri kafla fjárlagafrv. (ÞórJ) hefir vel og rækilega gert grein fyrir því, hversu Blönduósskólinn hefir orðið út undan. Eins og gefur að skilja, er það hermdargjöf að veita ekki nema lítinn hluta þess fjár, sem við þarf, þar sem hjeraðið á fult í fangi með að reka skólann.

Um unglingaskóla utan Reykjavíkur þarf jeg ekki að tala. Hv. þm. V.- Ísf. (ÁÁ) gerði það við 2. umr. Nefndinni finst óhugsandi, ef ríkið ætlar sjer að styðja myndarlega hjeraðsskóla úti um landið, að farið sje að klípa af rekstrarstyrk til þeirra. Það er gert alveg út í bláinn að skera niður þessa fjárveitingu, eins og hv Ed. hefir gert, svo að meiri hl. fjvn. leggur fast að mönnum að samþ. hans tillögu.

Þá kemur síðasta till., um styrkinn til húsmæðradeildar við Laugaskólann. Um þennan skóla var talað svo rækilega við 2. umr., að óþarfi er að orðlengja mikið um hann. Aðeins vil jeg taka það fram, að þarna hefir komið fram alveg sjerstakur áhugi og dugnaður, þannig, að ef nokkurn tíma er ástæða til að koma á móti fólkinu og heiðra myndarskap þess, þá er það hjer.

Næst koma 5 till. frá nefndinni um að fella niður styrki til einstakra manna. Hv. Ed. gerði mikið að því að samræma slíkar styrkveitingar. Fjvn. Nd. hefir engu breytt þar um, en leggur hinsvegar til, að feldir verði niður styrkir til þeirra, sem komust inn utan nefndarinnar við 3. umr. Jeg tel ekki ástæðu til að fara orðum um neinn af þeim sjerstaklega. Erindi hafa legið fyrir nefndinni. Hún hefir áður hafnað þeim og er enn þeirrar sömu skoðunar.

Nefndin leggur til, að lækkuð sje sú upphæð, sem stjórnin hefir í höndum til ferðastyrkja. Fjvn. lagði til í fyrra, að sú fjárveiting yrði alveg feld niður. Hún treystir sjer ekki til að ganga svo langt nú, en vill sem sagt lækka hana. Og það er því meiri ástæða til að lækka hana, sem fleiri utanfararstyrkir til einstakra manna eru í fjárlögunum.

Fjvn. Ed. bar fram tillögu um að lækka framlag til hafnarbóta í Ólafsvík úr 15 þús. kr. niður í 12 þús. kr. Það náði ekki samþykki í Ed., en upphæðin var færð niður í 14 þús. kr. Nú hefir fjvn. borið fram tillögu fjvn. Ed. Það þarf ekki að gera mikla grein fyrir henni. Það er öllum kunnugt, að þessi styrkur er sjerstaks eðlis, þar sem hann er veittur án nokkurs framlags annarsstaðar að.

Þá vill nefndin fella styrkinn til markaðsleitar niður í 15 þús. krónur. Miklar deilur hafa orðið um þennan styrk. Hv. sjútvn. bar fram háar fjárkröfur, sem að vísu lækkuðu í meðferð hv. Ed., en eru þó fjórum sinnum hærri en gert var ráð fyrir í frv. upphaflega. Fjvn. álítur nóg að veita 15 þús. kr. til þessa, enda hefir enn ekki orðið mikill árangur af sendiförum til markaðsleitar, hvað sem síðar kann að verða.

Næstsíðasta tillagan er þess efnis að fella niður styrk til Verslunarráðsins til símskeytagjalda. Þessi liður var feldur niður úr frv. við 2. umr. Till. um að taka hann upp aftur var borin fram við 3. umr. og feld. Hv. Ed. setti liðinn inn aftur, en fjvn. þessarar hv. deildar heldur fast við sína skoðun um að liðurinn sje óþarfur.

Loks er brtt. við 22. gr. Menn minnast þess, að vegna brunans á Stokkseyri í vetur, þar sem fjöldi fólks varð fyrir miklu tjóni, var veitt viðlagasjóðslán. Nú hefir verið borin fram tillaga af fjvn. Nd. um að gefa lánið eftir, og var hún samþykt. Háttv. Ed. feldi niður fjárveitinguna, sem nota átti til greiðslu lánsins. Við viljum ekki halda þessu til streitu, en viljum fara meðalveginn og gefa upp vexti og frest á afborgunum.

Jeg vil loks lýsa yfir því af hálfu meiri hl. fjvn., að ef till. við fyrri kafla fjárlagafrv. til lækkunar verða ekki samþ., þannig, að legið getur við, að tekjuhalli fjárlagafrv. hækki, þá mun meiri hl. nefndarinnar taka aftur allar sínar hækkunartill.

Tilgangurinn er að hafa sem minstan tekjuhalla, og það er ekki síst þörf á að gæta þess núna, því að það er óhætt að segja, að fjárlagafrv. er mjög óvarlega gert, einkum með tilliti til tekjuáætlunarinnar, sem áreiðanlega er óvarlega há.