10.05.1927
Neðri deild: 71. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1559 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

21. mál, fjárlög 1928

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg vil algerlega taka undir það álit hv. frsm. minni hl. fjvn., hv. 2. þm. Skagf. (JS), að það muni vera hyggilegra fyrir þá, sem vilja hafa fjárlagafrv. afgreitt tekjuhallalaust, að samþykkja það þá eins og það kemur nú frá hv. Ed., þótt einhverjir smávægis agnúar kunni að þykja á því, heldur en að eiga á hættu, að meira eða minna fari inn af þeim mörgu og misjafnlega þörfu fjárveitingum, sem nú hefir verið stungið upp á í deildinni.

Jeg get náttúrlega ekki annað en virt þá viðleitni hv. meiri hl. fjvn., stjórnarandstæðinga, sem nú kemur fram, þótt seint sje, að þeir vilja fyrir sitt leyti láta sýnast svo, sem þeir eigi einhvern þátt í þeim vilja, sem óneitanlega hefir komið fram í þinginu til að afgreiða forsvaranleg fjárlög. En hinsvegar get jeg ekki tekið allar niðurfærslutillögur þessa hv. meiri hl. alvarlega, og gildir það sjerstaklega um stærstu till., sem er útstrikun á 150 þús. króna fjárveitingu til landsspítalans. Það er ekki hægt að taka þessa till. alvarlega, af því að hv. meiri hl. fjvn. veit það, að landsstjórnin er með samningi, sem gerður var með fullum vilja og vitund þingsins, skuldbundin til að leggja þessa upphæð fram á árinu 1928. Því víkur þannig við, að samningur sá, sem gerður hefir verið á milli ríkisstjórnarinnar annarvegar og stjórnar landsspítalasjóðsins hinsvegar, sem jeg veit, að hv. fjvn. hefir haft á milli handa, hann áskilur, að frá og með árinu 1926 sjeu lagðar fram til samans úr ríkissjóði og landsspítalasjóði að minsta kosti 200 þús. krónur á ári. Þessu hefir nú verið fylgt samkvæmt ákvæðum fjárlaganna fyrir árið 1926, og því verður fylgt fyrir árið 1927, og það er alveg óhjákvæmilegt að fylgja þessu ákvæði einnig árið 1928, því að það er svo ákveðið í samningi, sem landsstjórnin hefir gert eftir beinum fyrirmælum Alþingis og Alþingi sjálft er búið að viðurkenna með því að vísa tveim sinnum í hann í fjárlögum. Að upphæðin er 150 þúsund krónur stafar af því, að landsspítalasjóður leggur á móti ríkissjóði á meðan hann endist til; og á árinu 1928 verða eftir 50 þúsund krónur í sjóðnum, svo að það árið þarf ríkissjóður að leggja fram 150 þús. kr. til þess að standa við samningana. Hinsvegar hefir ríkisstjórnin heimild til að taka að láni það fje, sem þarf til byggingar landsspítalans, en núverandi stjórn lítur svo á, að þess þurfi ekki með ennþá; hún lítur svo á, að eftir þeirri afgreiðslu, sem fjárlagafrv. fyrir árið 1928 hefir fengið frá hv. Ed., þá sje ekki annað sjáanlegt en að fje verði fyrir hendi af ríkistekjum til þess að leggja fram þetta fje fyrir árið 1928.

Hv. þm. Str. (TrÞ) gerði grein fyrir því sem sinni skoðun, að til þess að standa við ákvæði samningsins, um að spítalinn yrði tekinn til afnota árið 1930, þá myndi þurfa um 450 þús. kr. fjárveitingu hvort árið. Jeg skal ekkert segja annað um þessa áætlun hv. þm. en það, að þetta hefir þó ekki legið skjallega fyrir stjórninni ennþá, en jeg sje ekki, að þessar upphæðir árin 1929 og 1930 muni verða neitt minni fyrir það, þótt með samningsrofi verði farið inn á þá leið, sem hv. þm. Str. mælir með, að byggingin sjestöðvuð, þegar hún er orðin fokheld, og ekkert unnið að henni árið 1928. Mjer skilst þá, að fjárframlögin hin tvö árin myndu þá verða að hækka og ekkert ljettara að greiða þá hærri upphæðir heldur en lægri upphæðir öll árin.

Jeg vona, að hv. deild fari ekki að sýna það hverflyndi að ganga á gerða samninga, og jeg tel þess vegna víst, að ef þessi brtt. hv. meiri hl. fjvn. kemur til atkvæða, þá verði hún feld. Það er engum ófyrirsjáanlegum fjárhagsvandræðum til að dreifa, sem staðið geti fyrir framkvæmdum þessa verks, því að þótt óvíst sje um fjárhagsástæður ríkisins árið 1928, þá hefir ríkið þó lánstraust til þess að geta staðið við samninga sína. En stjórnin álítur ekki tímabært að fara strax að gera ákvarðanir um lántöku. Þegar jeg þess vegna geri þessar tillögur upp, um hækkun og lækkun, þá tek jeg hana ekki með, vegna þess að það er fje, sem þarf að greiða af hendi, hvort sem það verður veitt í fjárlögum eða ekki, en þá líta tillögurnar svoleiðis út, að hv. meiri hl. fjvn. kemur með till. um niðurfærslu útgjalda, sem nemur 83400 krónum. Þar af eru 20 þús. krónur teknar af fje til brúa, 10 þús. kr. af símafje, 10 þús. kr. af nýjum vitum, sem þó á að leggja til eins mikið fje annarsstaðar frá, og loks eru 25 þús. kr. teknar frá stúdentagarðinum. Þetta er samtals 65 þús. kr., eða fullir 3/4 af upphæðinni, sem þannig á að taka af nauðsynlegum verklegum framkvæmdum, en allar fjárveitingartillögur hv. nefndar var áður búið að færa niður í hv. Ed. við meðferð fjárlagafrv. þar, svo að þessi nýja uppástunga um frekari niðurfærslu kemur náttúrlega þeim mun harðar niður.

Hitt eru svo 6 smábitlingar, sem hv. meiri hl. leggur til að verði feldir niður, að upphæð 7400 krónur, og svo nokkur þúsund krónur, sem eru í ýmsum öðrum smækkunum. En á móti þessu liggja fyrir hækkunartillögur að upphæð 24 þús. kr. frá hv. meiri hl. nefndarinnar, en frá öðrum hv. þm. fullar 35 þús. kr. Hækkunartill. eru flest persónulegir styrkir, sem orðið hafa að meira eða minna leyti ágreiningsefni hjer áður, og ef nú meiri hlutinn af þessum hækkunartillögum á að komast inn, þá sýnist mjer, að fjárlagafrv. myndi ekki taka neinni breytingu til bóta. Jafnvel þótt þessi litli tekjuhalli, sem nú er, hyrfi alveg burt, þá myndi svipurinn aðeins breytast þannig, að í staðinn fyrir fjárframlög til verklegra framkvæmda, nokkur þúsund krónur, má búast við að komi fjárframlög til annars, sem ekki er eins nauðsynlegt, í mörgum fleiri liðum.

Mjer er kunnugt um, að það er ósk Íhaldsflokksins hjer í þessari hv. þingdeild, að það verði tekið við fjárlagafrv. og það afgreitt eins og það kemur frá hv. Ed. heldur en að eiga á hættu það, sem nú má búast við að komist inn, ef annars er farið að samþykkja breytingar á því.

Vil jeg nú hjer beina þeim tilmælum til hv. formanns Framsóknarflokksins, að hann vilji nú leitast fyrir um það í sínum flokki, hvort ekki sje hægt að fá samkomulag um, að sá flokkur geti einnig fallist á þetta. Jeg vona, að formaður Framsóknarflokksins láti mig vita um sína afstöðu í þann mund, þegar fundur byrjar hjer aftur eftir það fundarhlje, sem væntanlega verður gefið hjer innan skamms.

Það er ekki margt, sem jeg þarf að svara. Jeg hygg, að það sje misskilningur hjá hv. þm. Str., að það sje búið að afráða framkvæmdir nokkurra þeirra mannvirkja, sem ekki er búið að veita fje til. Það er t. d. fjárveiting til skólans á Hólum fyrir yfirstandandi ár, og auk þess er brunabótaupphæð, sem einnig á að nota til hússins.

Hv. þm gat þess viðvíkjandi till. hv. meiri hl. fjvn. um niðurfærslu á fjárveitingu til utanfararstyrkja, úr 6000 krónum í 4000 kr., að ástæðan væri að einhverju leyti sú, að komnir væru inn í fjárlagafrv. utanfararstyrkir bundnir við nafn, og stjórnin þyrfti því minna fje til umráða. Jeg vil nú út af þessu minna á það, að þegar hv. meiri hl. fjvn. ætlar stjórninni 4000 krónur til umráða í þessu skyni, þá er það jöfn upphæð og það, sem þingið í sama fjárlagafrv., 12. gr., 13, ætlar einum einasta manni til utanfarar í erindum, sem jeg hefi ekki áður heyrt getið um. Á jeg hjer við utanfararstyrkinn til Magnúsar bæjarlæknis Pjeturssonar til þess að kynna sjer millilandasóttvarnir. Jeg hefi leyft mjer að bera fram till. um, að þessi sjerstaki utanfararstyrkur til M. P. falli niður, en mun samt taka hana aftur, ef samkomulag fæst um að afgreiða frv. óbreytt. En að öðrum kosti vona jeg, að till. fái að koma til atkvæða, og að þessi utanfararstyrkur verði feldur niður, en vil þá mælast til þess, að sú upphæð, sem stjórninni hefir verið ætluð til að styrkja einstaka menn, fái að vera óbreytt. Og það er alveg sjálfsagt, ef það verður gerð grein fyrir því fyrir stjórninni og það reynist að vera rjettmætt, að styrkja bæjarlæknirinn í þessum erindagerðum, þá á hann sem aðrir rjett til þess að fá styrk af fje því, sem stjórnin hefir til umráða.

Þá hefir hv. meiri hl. fjvn. borið fram brtt. við 22. gr. fjárlagafrv., að af viðlagasjóðsláni Stokkseyrarhrepps vegna brunatjóns skuli veita uppgjöf vaxta og greiðslufrest afborgana árin 1927–’28. Það hafði nú við meðferð fjárlagafrv. hjer í deildinni verið settur inn liður þess efnis, að þetta svokallaða viðlagasjóðslán Stokkseyrarhrepps, krónur 10000, skyldi greitt viðlagasjóði með fjárveitingu úr ríkissjóði. Þetta var felt niður í hv. Ed., en er nú komið hjer fram í nýrri mynd, en það er aðeins það að athuga við þetta alt saman, að Stokkseyrarhreppur hefir ekkert lán úr viðlagasjóði, svo að þetta er af sama misskilningi sprottið og sá liðurinn, sem numinn var burt í hv. Ed. Og mjer er kunnugt um, að þetta hefir vakið eftirtekt hreppsnefndarinnar í Stokkseyrarhreppi, og henni hefir þótt leitt, að það skuli hafa komið til orða, að hreppnum verði gefið eftir lán, sem hann aldrei hefir fengið. En svo stendur á þessu, að 5–6 útgerðarmenn þar fengu í vetur viðlagasjóðslán vegna brunatjóns, sem þeir höfðu orðið fyrir, og var þess krafist, að hreppsnefndin gengi í ábyrgð fyrir þá, og það gerði hún. En jeg býst við, að henni þyki sjer ekki vel borgað með því, að altaf sje verið að tala um að gefa henni upp það, sem hún hefir aldrei fengið. Annars verð jeg að líta eins á þetta og hv. Ed., að það sje nógur tími til þess að fara að tala um eftirgjöf til þessara góðu manna, þegar fyrsti gjalddaginn er kominn og ekki er borgað, og jeg vil sjerstaklega af þessari fyrnefndu ástæðu mælast til þess, að brtt. VII á þskj. 536 verði feld.

Þá hefi jeg ekki meira að segja vegna þessa fjárlagafrv., en af því að jeg hefi þann heiður að eiga sæti í stjórn Eimskipafjelags Íslands, þá vildi jeg mega nota þetta tækifæri til þess að segja nokkur orð út af ummœlum hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) um fjelagið og brtt. þeirri, sem hv. þm. (ÞórJ) flytur, um að færa úr 85 þús. kr. niður í 55 þús. kr. þá upphæð, sem stjórninni samkvæmt 23. gr. fjárlagafrv. er heimilað að greiða fjelaginu sem rekstrarstyrk.

Það hefir vakið óánægju hjá þessum hv. þm. (ÞórJ) og kannske fleirum, hve fáir viðkomustaðir „Brúarfoss“ hafa verið áætlaðir. En jeg get upplýst það frá fyrstu hendi, að þótt þessir viðkomustaðir hafi verið setti” svo fáir á áætlunina, þá er það ekki af því, að fjelagið þar með vildi taka ákvörðun um það, að skipið ætti að koma á svo sjerstaklega fáar hafnir. Ástæðan var sú, að af því að þetta var fyrsta árið, sem þetta kæliskip átti að vera í ferðum hjer, og af því að við í stjórn fjelagsins þóttumst ekki hafa nægilegan kunnugleik á því, hvenær skipið þyrfti að hafa viðkomu á hverjum stað til þess að koma að sem bestum notum, þá varð það ofan á hjá okkur við samningu áætlunar um ferðir skipsins kringum landið, að við skyldum aðeins setja fáa viðkomustaði, en hafa áætlunina svo rúma, að hægt væri að bæta á skipið viðkomustöðum eftir því, sem þurfa þætti, og þó sjerstaklega viðkomustöðum, þegar óskað væri eftir því, eða þegar upplýst væri, að nægilegur flutningur fengist handa skipinu. Við ætluðumst svo til, að ferðir skipsins og sú reynsla, sem fengist á þessu ári, miðuðu til þess, að fjelagsstjórnin gæti sett fyllri áætlun fyrir skipið næsta ár.

Hv. þm. (ÞórJ) sagði t. d., að það mætti vænta útflutnings á laxi frá Blönduósi. Jeg þori að fullyrða, að ef skipið á þeim tíma á að vera á ferðinni þarna nálægt, þá er hægt að fá skipið til að koma þar við, og nú er einmitt tækifæri til þess að snúa sjer til framkvæmdarstjóra fjelagsins og gefa honum upplýsingar um, hvenær sú vara geti legið fyrir, og hve mikið af henni. Það verður að taka við öllum upplýsingum um það, og ekki síst þó með tilliti til að semja áætlun fyrir skipið til næsta árs.

Mjer skildist hv. þm. (ÞórJ) óska eftir umbótum í þá átt, að fleiri viðkomur yrðu á Blönduósi og öðrum höfnum en nú er á áætluninni. í fjárlögum fyrir næsta ár er heimild til fjárframlaga til Eimskipafjelagsins. En það er ekki rjett leið fyrir þá menn, sem vilja láta skip fjelagsins koma að meiri notum með því að hafa fleiri viðkomustaði, að fara fram á, að styrkurinn til þess verði lækkaður. Það má eiga það víst, að því minni sem styrkurinn verður, því meira neyðist fjelagið til að hlaupa fram hjá smærri höfnunum, en því meiri sem styrkurinn er, því færara verður það til þess að hafa fleiri viðkomur og taka smáhafnirnar með. Till. háttv. þm. gengur því ekki í rjetta átt. — Jeg játa, að það sje óviðkunnanlegt að hafa svona stóra fjárveitingu í 23. gr. fjárlaganna, þar sem hennar er ekki getið í samlagningunni.

Hvað „Brúarfoss“ snertir, þá væri rjett að hækka styrkinn beinlínis, en gera svo aftur þær kröfur á móti, að hann hafi fleiri viðkomur en nú er áætlað. Annars álít jeg ekki nauðsynlegt að hækka strandferðastyrkinn, svo framarlega sem heimildin í 23. gr. fær að standa óbreytt, eins og hún nú er.