04.03.1927
Neðri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1730 í B-deild Alþingistíðinda. (1310)

6. mál, fátækralög

Frsm. (Jón Kjartansson):

Jeg vil aðeins skýra stuttlega frá afstöðu allshn. til brtt. á þskj. 80. Það er nú í raun og veru ekki nema ein brtt., sem hv. flm. kemur með, sem sje sú, að afnema sveitfestidvöl sem skilyrði til þess að öðlast framfærslurjett. Eins og hv. flm. tók fram, hefir lengi verið deilt um sveitfestítímann. Hann var lengi vel 10 ár, en var á þinginu 1923 færður niður í 4 ár. Þá vildu sumir færa hann niður í 3 ár og enn aðrir 2 ár, en það varð úr, að hann var gerður 4 ár. En hv. flm. þessara brtt. vill stíga skrefið fult út og afnema með öllu sveitfestidvölina, en láta lögheimilið gefa framfærslurjett. En allshn. getur ekki fallist á þetta. Nefndin lítur svo á, að ef slíkt spor yrði stigið, þá yrði að fylgja því heimild fyrir sveitar- og bæjarstjórnir til þess að hafa hönd í bagga með því, hvaða fólk flyttist inn. Jeg skal ekki segja, hvort þingið vill stíga bæði þessi spor. Við síðara sporið yrði dregið úr því, að fátækir menn gætu leitað sjer atvinnu, því að sveitarfjelögin myndu vitanlega amast við slíkum mönnum. Jeg held, að ekki mundi ríkja friður og spekt um þessi mál, þó þeim yrði breytt í þetta horf. Jeg held, að menn fyndu sjer til deiluatriði, t. d. um það, hvort maður hefði fengið lögheimili eða ekki. Það er ekki rjett að hrófla við sveitfestitímanum núna, rjettara að láta 4 ára tímann reyna sig. En ef menn vilja breyta sveitfestitímanum, þá má ekki stíga skrefið fult út strax, heldur verður að stytta sveitfestitímann t. d. um 1 eða 2 ár, og komast þannig smámsaman þangað, sem hv. 1. þm. N.-M. vill fara nú. Allshn. getur ekki ráðið til þess að stíga sporið hreint út.