04.03.1927
Neðri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1738 í B-deild Alþingistíðinda. (1313)

6. mál, fátækralög

Bernharð Stefánsson:

Jeg ætla aðeins að segja örfá orð til að leiðrjetta misskilning, sem fram kom í ræðu hæstv. atvrh. Hann sagði, að jeg hefði lýst vonbrigðum yfir því, að stjórnin hefði ekki lagt til að gerbreyta grundvelli fátækralaganna. Þetta er ekki rjett. Jeg lýsti vonbrigðum yfir því, að stjórnin hefði ekkert gert til þess að laga misrjetti á milli sveitarfjelaganna. Jeg get hugsað mjer aðra leið en þá að gera landið alt að einu framfærsluhjeraði, t. d. þá, að ríkissjóður beri hluta af fátækrakostnaðinum. Með því móti hjeldist hvöt sveitarstjórnarinnar til þess að gera vel, en mismunurinn yrði þó ekki eins mikill og hann er nú. Jeg get ekki skilið, hvað sem veldur því, að sveitarstyrkur er þeginn, að ekki sje rjett, að styrkþegi endurgreiði hann, ef hann kemst í þær ástæður, að hann sjer sjer það fært.

Út af síðustu orðum háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) um fátækraflutning, vil jeg geta þess, að jeg tel, að tillaga sú, sem hann orðaði í gær, og tillaga hv. 1. þm. N.-M. (HStef) sjeu vel frambærilegar, þar sem báðar þessar tillögur miða að því að gera fátækraflutning óþarfan. Aftur á móti má segja um tillögu hv. 4. þm. Reykv. (HjV), að hún er ósanngjörn, þar sem hann vill, að framfærslusveitin taki á sig þurfamennina, en vill samt hindra, að hún geti flutt þá til sín. Jeg skildi ekki í hvaða sambandi hv. 4. þm. Reykv. (HjV) var að benda mjer á brtt. á þskj. 95 áðan. Jeg er búinn að lesa hana. Mjer finst hún eiginlega óþörf, en jeg mun greiða henni atkvæði, þar sem jeg sje ekkert á móti henni.