16.03.1927
Neðri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1779 í B-deild Alþingistíðinda. (1331)

6. mál, fátækralög

Bernharð Stefánsson:

Háttv. frsm. allshn. (JK) mótmælti því, að hjer væri verið að blanda saman tveim óskyldum atriðum, kosningarrjetti og veiting sveitarstyrks. Jeg skil ekki, hvernig hann hugsar sjer að mótmæla því. Það hefir þó verið margtekið fram, að till. í 43. gr. væri gerð til þess, að þurfamenn gætu haldið kosningarrjetti. Hann sagði, að þetta væri eina leiðin til þess, að þessir menn gætu fengið kosningarrjett. Það skil jeg ekki, enda nefndi hann og aðra leið, sem sje að breyta ákvæðum stjórnarskrárinnar um þetta atriði. (JK: Hefir háttv. þm. tryggingu fyrir því, að slík breyting næði fram að ganga?). Háttv. frsm. benti á þessa leið og furðaði sig á, að jeg skyldi ekki hafa komið fram með nýtt stjórnarskrárfrv. eða brtt. við stjórnarskrána. Því er þar til að svara, að jeg hefi ekki borið fram neina brtt. við stjórnarskrána, enda ekki talið mikla þörf á að veita þurfamönnum þennan rjett. Það er aftur á móti hæstv. stjórn, sem gerir hvorttveggja, ber bæði fram frv. um breytingu á stjórnarskránni og þetta frv., og hefði henni átt að vera auðvelt að flytja till. um þennan aukna rjett þurfamanna á rjettum stað, sem breytingu á stjórnarskránni og kosningalögunum, úr því hún vill á annað borð veita þurfamönnum kosningarrjett.

Háttv. frsm. sagði, að þessi breyting, sem á að verða með frv. á núverandi skipulagi, sje í því skyni gerð, að nema burt mesta ranglætið, sem kemur fram í því, að þurfamenn missa kosningarrjett. (JK: Jeg sagði: leiðrjetta það). Það kemur út á eitt. En það er ekki mesta ranglætið, sem hjer er verið að leiðrjetta. Nei, mesta ranglætið er það, hversu byrðamar af framfærslunni eru þungar og koma misjafnt niður á einstökum bœjum og sveitum. Og engin tilraun er gerð með þessu frv. til þess að ráða bót á því, ekki einu sinni leiðrjetta. Heldur ekki liggur neitt fyrir, er sýni, að þetta atriði hafi verið tekið til athugunar. Má vel vera, að hæstv. stjórn hafi eitthvað um það hugsað, en ekki hefir hún komið fram með neitt, er sýni viðleitni hennar í þá átt.

Hæstv. ráðh. (MG) vildi mótmæla þeim ummælum mínum, að frv. væri mestmegnis uppprentun á eldri lögum, með því að þar væru sameinaðar allar breytingar, sem gerðar hafa verið á fátækralögunum síðan 1905. En jeg fæ nú ekki sjeð, að það sje annað en uppprentun, þó að lögin, sem prentuð hafa verið upp, sjeu frá fleiri en einu ári. Jeg viðurkenni, að það sje kostur að hafa gildandi lög um sama efni öll í einu lagi, en harla lítill verður sá kostur hjer, þegar þess er gætt, að fátækralögunum hefir ekki oft verið breytt síðan þau voru sett 1905. Jeg hefi ekki fyrir mjer nein gögn um þetta, en man ekki eftir breytingum nema 1913 og 1923. (Atvrh. MG: Og þá líklega 1926!).

Hæstv. ráðh. ímyndar sjer, að óánægja mín stafi af því, að till. mínar um bygðarleyfi hafi ekki verið teknar til greina, og jeg ætli því að hefna mín á öðrum frv. Ekki er það allskostar rjett. En jeg skal kannast við, að óánægja mín er sprottin af því, að engin tilraun er gerð til þess að bæta úr því, sem verst er, sem sje misrjetti sveitanna, hvorki með bygðarleyfi nje öðru.

Um sveitfestina tók hann það fram, að stutt væri síðan þar var gerð breyting á. Jeg hygg, að samfara breytingunni hafi ekki verið rannsakað, á hverju sveitfesti ætti að byggjast. Að minsta kosti hefi jeg ekki sjeð neina greinargerð fyrir því, að sveitfestitíminn skyldi endilega vera 4 ár, en ekki eitthvað annað. Breytingin var gerð án þess, að nokkur grundvallarhugsun lægi þar á bak við. Getur verið að hún hafi verið spor í rjetta átt, en aðeins ekki stigið til fulls. 10 ára sveitfestitíminn bygðist á því, að þá væri maður búinn að gera sveitinni það gagn, að rjett væri að láta hana ala önn fyrir honum, er á þyrfti að halda. Stefnan virðist nú vera sú, að þetta sje ekki sá rjetti grundvöllur til að standa á, og því var tíminn lækkaður úr 10 árum niður í 4. En menn gæta þess ekki, að 4 ár er jafnranglátt, þegar grundvöllurinn, að menn vinni sjer sveit, er ekki lengur viðurkendur. Eins og nú er komið atvinnuháttum þjóðarinnar. hlýtur þetta að verða spurningin, sem bíður úrlausnar í náinni framtíð.

Þótt ástæða væri til að taka fleira fram, vil jeg þó gera mitt til aðatkvgr. geti farið sem fyrst fram.