13.04.1927
Efri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1892 í B-deild Alþingistíðinda. (1419)

115. mál, bankavaxtabréf

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg held, að þessi till. á þskj. 359 sje alveg samhljóða brtt. við þetta sama frv., sem hv. þm. Str. (TrÞ) bar fram í hv. Nd.brtt. var feld þar með miklum atkvæðamun, enda ekki annars að vænta eftir efni hennar. Þótt till. væri nokkuð ítarlega rædd þar, þá vil jeg með fáeinum orðum gera grein fyrir því hjer í hv. deild, hvað það er, sem till. fer fram á. Hv. flm. (JJ) láðist það eiginlega alveg.

Fyrri greinin fer fram á það, að ef íslensk króna á einhverju augnabliki hækkar upp í 95% af lögmæltu gullverði úr 811/2 eyri, sem hún nú er í, þá á samstundis að færa niður öll lán, sem hafa verið veitt úr 5., 6. og 7. flokki veðdeildarinnar og ræktunarsjóði hinum nýja, um 1/5 hluta eða 20%. Þetta er gjöf til lántakenda, sem þeir eiga að fá á þessu gefna augnabliki, samkv. lögum, og auðvitað verður ekki tekin aftur, hvernig sem framtíðin kann nú að verða. Það er ekki hægt að segja öldungis nákvæmlega, hve mikil gjöf það verður, því það færi nokkuð eftir því, hvað langt er þangað til þennan atburð ber að höndum, að íslensk króna er skráð á 95 gullaura. Geri maður ráð fyrir, að það verði um það bil, sem lokið er útlánum úr þessum þrem veðdeildarflokkum, þá má búast við, að þau útlán, sem þetta snertir, nemi 13 milj. króna; það er 10 milj. úr þessum 3 veðdeildarflokkum, og það má giska á, að lán úr ræktunarsjóði verði þá orðin 3 milj. kr. Eitthvað ofturlítið verður búið að endurborga af þessu, en afborganir veðdeildarlána eru mjög lágar fyrstu árin. Geri jeg ráð fyrir, að það gangi frá 1/2 milj. af því, sem búið er að afborga upp í lánin, þannig, að raunveruleg niðurfærsla yrði 20% af 121/2 milj., þ. e. 21/2 milj. kr.

Nú bætir seinni greinin því við, að samtímis því, sem þetta er gert, eigi að greiða úr ríkissjóði til veðdeildarinnar og ræktunarsjóðs alla þessa upphæð. Hvort ríkissjóður verður við því búinn að svara henni út, get jeg ekki sagt um og býst ekki við, að hv. flm. sje heldur maður til þess; yrði þá að leita lánsheimildar.

Nú er það að vísu svo, að ef íslensk króna heldur áfram að vera í 95 gullaurum þau 30 ár, sem líða þangað til lán, sem hjer ræðir um og áður hafa verið tekin til veðdeildarinnar, eru uppborguð, þá vinnur ríkissjóður smám saman inn aftur dálítið af þessu framlagi sínu. Má vænta þess, að það yrði fram undir 1 milj. kr., sem ríkissjóður fengi upp í þetta, sem gengishagnað af þessum tveimur erlendu lánum sínum. Hækkaði krónan upp í fult gullgildi, yrði það dálítið meira, kannske alt að 1250 þús. kr. Alt um það verður beint tap ríkissjóðs, — beint fjárframlag, sem verður að heimta með sköttum af gjaldendum landsins, — altaf í minsta lagi milli 1 og 11/2 milj. kr., getur orðið fullar 2 milj., ef tækist svo ógæfusamlega til, að krónan fjelli aftur úr 95 aurum í það, sem nú er. (JJ: Eða neðar). Ef hún fjelli neðar, þá bíður ríkissjóður þar að auki gengistap á sjálfum lántökunum, auk þess að verða að svara út þessum 21/2 milj. kr. Þetta er mesta fjárausturstillagan, sem borin hefir verið fram á Alþingi þau ár, sem jeg hefi átt hjer sæti, og sú lakast rökstudda. Rjettmætið á að felast í því, að menn eigi ekki að borga með hækkuðum krónum þau lán, sem þeir taka nú í verðföllnum krónum. En það er ómögulegt að leggja fram neina sönnun fyrir því, að það sje nein sanngirni að gefa öllum þessum lántakendum eftir af fasteignaveðlánum, þótt krónan hækki í gullgildi. Það hefir staðið svo í kaupstöðum undanfarin ár, að húsaleiga hefir þótt há, og þeir, sem leigja út húsin, hafa þótt bera meira úr býtum móts við aðra borgara þjóðfjelagsins en sanngjarnt var. Enginn veit nema þetta yrði öldungis eins á þeim tíma, sem gjöfin ætti að greiðast, og það getur haldið áfram svo og svo lengi á eftir. Og það er sannarlega engin sanngirni að færa niður með framlagi úr ríkissjóði skuldir þeirra borgara þjóðfjelagsins, er einmitt hafa sjerstaka aðstöðu til þess, ef svo ber undir, að láta aðra greiða sjer vexti og afborganir af fasteignalánum í húsaleigu, og það með álagningu umfram tilkostnað húseigenda.

Hjer við bætist það, sem jeg að vísu vildi ekki nefna, þegar till. kom fram í fyrsta sinn, af því að jeg hjelt þá, að það væri í grandleysi gert, en ekki verður komist hjá, þegar þetta er sótt svona fast, — en það er það, að bak við þessa till. liggur bein tilraun „spekúlanta“ til þess að skapa sjer gengisgróða á kostnað ríkissjóðs. Fjölmargir menn hjer á landi eiga fasteignir, — og það eru ekki lakast stöddu mennirnir, — sem þeir hafa ekki einu sinni þurft að taka 1. veðrjettar lán út á. Þetta frv. býður þeim öllum upp á að fara í þá veðdeildarflokka, sem nú á að efla með þessum lántökum, og fá sjer lán út á hús sín og geyma peningana á vöxtum, til þess að taka á móti 20% niðurfærslu á skuldinni, þegar það augnablik kemur, að íslensk króna hefir komist upp í 95 gullaura. Jeg hika ekki við að segja, að þegar þessi till. er borin fram hvað eftir annað, þá sje það af því, — hvort sem hv. flm. vita það eða ekki, — að hjer standa á bak við efnaðir „spekúlantar“, sem eru að reyna að nota þessa flutningsmenn til þess að útvega sjer möguleika fyrir alveg fyrirhafnarlausum gróða með fjárframlagi úr ríkissjóði, sem svo verður að reyta inn með sköttum frá gjaldendum landsins.

Jeg þarf ekki meira um þessa till. að segja; vona, að þessi háttv. deild sýni henni sömu skil og hv. Nd. og felli hana.