13.04.1927
Efri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (1424)

115. mál, bankavaxtabréf

Jónas Jónsson:

Jeg þarf ekki miklu að svara hæstv. fjrh. Það reyndist eins og jeg bjóst við, að rök þau, sem jeg bar fram, voru of sterk fyrir andstæðinga mína. Hann viðurkendi, að húseigendur gætu grætt á gengishækkuninni, en vildi áfellast mig fyrir að vilja bæta. þeim mönnum upp, sem tekið höfðu lánin á lággengistímanum.

Jeg veit, að í veðdeildinni liggja fyrir fjöldamargar umsóknir um þessi lán, og því mun verða torsótt leið fyrir spekúlantana að ná í þennan gróða. Lánin eru afgreidd í sömu röð og lánbeiðnirnar koma. En með því að boða löngu fyrirfram hækkun krónunnar, býður stjórnin spekúlöntunum með sjer í hækkunarætið. Hitt er hreinasta bíræfni af hæstv. ráðherra, að halda því fram, að hann sje verndarvættur lántakendanna. það er argasta öfugmæli. Enda hefir það heyrst utan af landi, að það sje erfitt að rækta og byggja af lánum ræktunarsjóðsins eins og þau eru nú. Hvað mundi þá verða, ef lántakendur fengju 20% hækkun á lánunum í viðbót? Það er líka óforsvaranleg bíræfni af hæstv. ráðh. að bera þessar lánsstofnanir saman við hliðstæðar stofnanir erlendis, sem framsýnir og duglegir menn hafa komið upp hjá sjer.