30.03.1927
Neðri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Jakob Möller:

* Viðvíkjandi brtt. hv. 2. þm. Árn. (JörB) skal jeg taka það fram, að jeg hefi ekki sjeð hana fyr en nú á fundinum, og nefndin hefir því ekki haft tækifæri til þess að bera sig saman um hana. Fyrir mitt leyti og jeg geri ráð fyrir, að jeg geti sagt það fyrir hönd fleiri í nefndinni, að við getum fallist á till. hv. þm., en að öðru leyti munu nefndarmenn hafa óbundnar hendur.

Viðvíkjandi ræðu hæstv. forsrh. (JÞ) skal jeg taka það fram, að það kom til mála í nefndinni að binda ívilnunina með stighækkun á tollinum við þau iðnaðarfyrirtæki, er þegar væru stofnuð, og mun það verða tekið til athugunar til 3. umr., hvort setja beri slíkt ákvæði í frv.

Um brjóstsykurtollinn skal jeg geta þess, að samkvæmt upplýsingum þeim, er nefndin hefir fengið frá forstjórum þeirra fyrirtækja, er framleiða þá vöru, að sá tollur, sem hjer er settur í frv„ mun svara til þess tolls, sem fyrirtækin nú greiða. Þess vegna hefir nefndin ekki breytt því. Mjer skildist á hæstv. forsrh., að hann væri óánægður með brtt. nefndarinnar að því er snertir kaffibætinn. Mjer þykir það nokkuð einkennilegt, vegna þess að kaffibætisgerðin er það fyrirtæki, sem öllum er vitanlegt, að allra síst þolir þann toll, sem frv. fer fram á. Fyrirtækið hefir frá því það var stofnað altaf verið rekið með tapi. Menn geta sagt sjer það sjálfir, að þegar framleiðsla fyrirtækisins er ekki meiri en svo, að hún nemur aðeins 1/10 hluta af þeim kaffibæti, sem notaður er í landinu, eins og hæstv. forsrh. upplýsti, og það svo er borið saman við hin fyrirtækin, sem fengið hafa mikinn markað fyrir vörur sínar, — hvort ekki er ólíkt ástatt fyrir því fyrirtæki og hinum. Nefndin gat ekki farið aðra leið en þá að fá efnahagsskýrslu, tekju- og gjaldareikning fyrirtækisins, er sýndi tap á rekstrinum. Að fyrirtækið getur starfað, kemur til af því, að það hefir verið rekið í sambandi við annað fyrirtæki, sem ber sig vel, sem sje kaffibrenslu.

Mjer virðist hæpin sú fullyrðing hæstv. ráðh. (JÞ), að með brtt. nefndarinnar nyti kaffibætisgerðin meiri tollverndar en hún hefði nú. Jeg get ekki sjeð betur en að tollverndunin verði alt að því hin sama. Tollverndunin verður að vísu í fyrstu minni en verðtollurinn er nú, en það munar sama sem engu. Hæstv. ráðh. gat þess, að ríkissjóður hefði tapað um 20 þús. kr. í kaffibætistolli vegna kaffibætisgerðarinnar, en frá því verður hann að draga vörutoll og verðtoll, svo að tap ríkissjóðs verður allmiklu minna. Auk þess sem jeg þegar hefi tekið fram um kaffibætisgerðina, þá má einnig geta þess, að fyrirtækið veitir mörgum mönnum atvinnu og að það selur framleiðsluvöru sína nokkru ódýrara en samskonar erlend vara er seld hjer, og það ætti að geta vegið nokkuð upp á móti tapi ríkissjóðs í svip, þar eð það verða aðeins fá ár þangað til tollurinn verður kominn upp í 1/3 hluta af aðflutningsgjaldinu.

Jeg skildi ekki vel þá aðgreiningu, sem hæstv. ráðh. vildi gera á ölgerðinni og kaffibætisvinslunni. Það var eins og hann teldi það kost á ölgerðinni, að hún gæti skapað aukna neyslu í landinu. Mjer finst nú öl engin nauðsynjavara, svo að jeg skil ekki, hvaða kostur þetta getur talist. En að því leyti sem tilbúningur á þeim varningi, sem notaður er í landinu, — hvort heldur er öl, kaffibætir eða annað, — flyst inn í landið, verður það að teljast æskilegt og gott. En jeg fæ ekki sjeð, hvað unnið er við að nota sem mestan óþarfa. Það miðar í reyndinni að því að skapa það ástand, að menn lifi hver á öðrum, eins og sagt var um Borgnesinga og frœgt er orðið. (Fjrh. JÞ: Og Bandaríkjamenn). Jeg fæ ekki sjeð, að aukin neysla verði á nokkurn hátt til að bæta þjóðarhaginn, heldur megi hún aðeins teljast til aukinnar eyðslu. — Mjer virðist alveg hið sama eiga við um þessar iðngreinir. Þær stefna báðar að því að flytja vinnu við tilbúning þeirrar vöru, sem hvort sem er er neytt, inn í landið, og eiga því alveg jafnan rjett á sjer. Því skil jeg heldur ekki þá tilhneigingu að vilja íþyngja kaffibætinum meira en ölinu. Fyrir mitt leyti tek jeg kaffi t. d. langt fram yfir öl. (KIJ: Ölið er miklu betra).

Hæstv. ráðherra skildi ekki, hvers vegna við í fjhn. vildum undanskilja sódavatn þessu gjaldi, og skal jeg ekki lá honum það. En ástæðunnar er að leita í d-lið 2. gr. í frv. því, sem hann sjálfur hefir lagt fyrir. Þar stendur: „Fyrir öl, límonaði og aðra samskonar drykki, sem ætlaðir eru óblandaðir til drykkjar, og fyrir sódavatn ...“ Það er þetta orðalag frv., sem komið hefir fjhn. til að leggja til, að sódavatn yrði felt niður, og er algerlega óþarft að fara nánar út í það.

Jeg geri ráð fyrir, að fjhn. geti ekki orðið við þeim tilmælum hæstv. ráðh. að falla frá síðustu brtt. sinni, um að undanþiggja efnivörur til þessa iðnaðar öllu innflutningsgjaldi. Þessi tillaga nefndarinnar er bygð á því, að í verðtollslögunum er beinlínis ætlast til, að slíkar efnivörur sjeu undanþegnar innflutningsgjaldi, þ. e. a. s. ráðherra er heimilað að gefa gjaldið upp. Þær eru ekki berum orðum undanþegnar gjaldinu, af því að ekki þótti ugglaust um, að slík alger undanþága yrði misnotuð. Því var stjórninni falið að gera út um þetta í hvert skifti. Því er það eðlilegt, þegar nefndin lítur svo á, að það sje tilgangur verðtollslaganna, að slíkar vörur sjeu undanþegnar tolli, að þá setji hún það ákveðið í frv., þegar á að fara að tolla innlendar vörur.

Út af ummælum hæstv. ráðh. vil jeg taka það fram, að samþykt brtt. er skilyrði fyrir því, að töluverður. hluti af fjhn. geti fylgt frv. Óbreytt hygg jeg, að nefndin í heild geti alls ekki fallist á það.

Loks vil jeg geta þess, að láðst hefir að taka upp eina brtt., sem búið var að samþykkja í nefndinni, um að lögin ættu að ganga í gildi 1. jan. 1928, og verður sú till. væntanlega tekin upp við 3. umr.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.