15.02.1927
Neðri deild: 6. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2099 í B-deild Alþingistíðinda. (1630)

24. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Jakob Möller:

* Jeg get ekki tekið í sama strenginn og hv. flm. (TrÞ) og hv. þm. Borgf. (PO): og jeg verð að segja, að mjer þykir öllu meiri furða um afstöðu hv. þm. Borgf. en hv. flm., þar sem jeg veit ekki betur en að hv. þm. Borgf. sje einn þeirra, sem halda fastast í aukið latínunám í mentaskólanum. Í sambandi við frv. um lærða skólann hefir því verið haldið fast fram hjer á þingi, að latínukensla væri mjög nauðsynleg, ekki eingöngu sem þroskameðal í skólanum, heldur einnig fyrir vísinda- og bókmentastarfsemi í landinu. Meðan latínu- og grískukensla er ekki meiri en hún er nú í mentaskólanum, skyldi maður halda, að nauðsynlegt væri að halda uppi slíkri kenslu í háskólanum. Jeg hefi ekki heyrt því haldið fram, hvorki af hv. þm. Borgf. nje heldur af hv. flm., að grískukensla sje ekki nauðsynleg við háskólann, heldur halda þeir því fram, að aðrir kenslukraftar geti annað þeirri kenslu jafnhliða öðrum störfum. En það er aðeins til bráðabirgða, sem hægt er að treysta á það. Ef altaf minkar latínu- og grískukensla í mentaskólanum, verða innan skamms engir menn til þess að kenna þessi fög við háskólann. Þó að nú standi svo á, að kennarar háskólans sjeu færir um að taka að sjer þessa kenslu, er ekki hægt að treysta því, að svo verði til langframa. Ef kenslan er nauðsynleg, verður að hafa þennan sjerstaka kennara, ef hún á ekki að falla niður. Enda er þetta ekkert höfuðspursmál í fjármálum. Það, sem á að ráða úrslitum, er þetta: er kenslan nauðsynleg eða ekki? Hv. flm. verður að taka afstöðu til þessa og það er skylda þeirrar nefndar, sem fær málið til meðferðar, að gera sjer og öðrum fulla grein fyrir því. Jeg sje að svo stöddu ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, en eins og hv. þdm. hafa getað dregið af orðum mínum, get jeg ekki ljeð því fylgi mitt.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.