26.03.1927
Efri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2180 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg get verið meiri hl. nefndarinnar þakklátur fyrir meðferð þessa máls. Hann leggur að vísu til, að gerðar verði lítilfjörlegar breytingar til hækkunar á launum 2. og 3. stýrimanns á þessum skipum. Þó jeg sje ekki öldungis sannfærður um, að það sje nauðsynlegt, er breytingin ekki meiri en það og launin ekki hærri en það, að jeg sje ekki ástæðu til að gera ágreining út af þessari brtt.

Þá er nál. á þskj. 137, frá hv. 1. landsk. (JJ), sem lyktar með rökstuddri dagskrá þess efnis, að samþykt frv. virðist útiloka í bráð og lengd, að hægt verði að nota skipin til verklegrar kenslu í sjómensku. Um þetta verð jeg að segja það, að hvaða skoðun sem menn hafa á möguleika þess í framtíðinni eða hve æskilegt kann að þykja, að slík skylduvinna komist á, er það alger misskilningur, að frv. það um laun skipverja og skipstjóra, sem hjer liggur fyrir, útiloki þetta.

Það mun vaka fyrir hv. 1. landsk., að þessi þegnskylduvinna megi koma í staðinn fyrir háseta að einhverju leyti. En jeg hygg, að allir geti orðið sammála um það, að þótt þessi tilhögun væri tekin upp, yrði ómögulegt fyrir skipin að sigla án þess að hafa einhverja fullgilda háseta. Það væri ekki hægt að ætlast til, að þessir menn kæmu í stað þeirra. Frv. þetta gerir heldur ekki annað en ákveða laun háseta. Það segir ekki fyrir um, hve margir þeir skuli vera. Þó enginn háseti væri tekinn, er frv. ekki til neinnar fyrirstöðu. Það færi þá um þessar stöður eins og önnur embætti, sem ákveðin eru laun eftir launalögum. Ef enginn er skipaður til að starfrækja þau, koma engin laun til greina. Það er því alger misskilningur hjá hv. 1. landsk., að þetta frv. komi á nokkurn hátt í bága við þá tilhögun, sem hann virðist hugsa sjer. Þessa misskilnings kennir greinilega í nál. Það byrjar með því að segja, að frv. geri ráð fyrir að skapa 40–50 föst embætti. Hvað segir frv. um það? Ekki nokkurn skapaðan hlut. Um yfirmenn skipa eru áður ákvæði í lögum. Hjer er ekki annað gert en að ákveða laun þeirra. Með þessum lögum eru engar stöður búnar til.

Þá er mikið talað um það í þessu nál., að verið sje að festa starfsmenn um of með þessum launalögum. Það er talað um æfilanga ráðningu. Það stendur nú lítið í þessu frv. um ráðningartímann. En ef hv. 1. landsk. lítur í frv. til laga um varðskip ríkisins og sýslunarmenn á þeim, getur hann sjeð, að þar eru mjög ströng ákvæði um, að víkja megi þeim skipverjum frá starfi, sem á nokkurn hátt gerast brotlegir eða reynast miður hæfir til starfsins. Jeg held, að ekki sje hægt að segja það með sanni, að þessi löggjöf festi skipverjana um of. Enda kemur þessi skoðun hv. 1. landsk. fremur illa heim við skoðun hv. 5. landsk. (JBald), sem lagði mikla áherslu á, að alt of mikil hætta væri á tíðum mannaskiftum. Jeg held, að sannleikurinn liggi mitt á milli öfga þessara háttv. þm. og hjer sje mjög gætilega og hóflega í sakir farið.

Út í ræðu hv. 1. landsk. ætla jeg að öðru leyti ekki að fara. Hún sýndi þann sálarsjúkleik hans, að geta ekki í þessu máli fremur en öðrum stilt sig um að tala um atriði, sem virðist fylla hug hans, sem sje það, ef opinber starfsmaður neytir víns eða veitir það öðrum. Hann talaði um aðstoðarlækninn á Ísafirði, án þess þó að nefna nafn hans. Jeg þekki þann. mann og veit, að í öllu borgaralegu lífi stendur hann á miklu hærra siðferðisstigi en hv. 1. landsk. Það eru til fleiri ódygðir en það að bragða vín, þó að hv. 1. landsk. láti sem hann muni ekki eftir því, þegar hann talar um vínhneigð eða vínnautn meðbræðra sinna í þjóðfjelaginu.