17.05.1927
Neðri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2253 í B-deild Alþingistíðinda. (1744)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg vildi aðeins út af ummælum hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) geta þess, að þetta frv. er engan veginn því til fyrirstöðu, að þessi skip verði gerð að skólaskipum í einhverri mynd, ef mönnum sýnist svo. Það er vegna þess, að lögin tiltaka ekki, hve margir þessir föstu starfsmenn eiga að vera á skipunum. Og jafnvel þótt svo færi, að t. d. væru þarna engir fullgildir menn, sem lögin svo kalla, þá fer það ekki í bága við þetta frv.; ef enginn starfsmaður er til í þessum launaflokkum, eru engum greidd laun.

Hinsvegar geri jeg ráð fyrir, að í öllum starfsmannaflokkum á þessum skipum mundi nauðsynlegt að hafa einhverja fullvana menn, sem tækju laun eftir þessum lögum, jafnvel þótt skipin verði gerð að skólaskipum, eins og hv. þm. hugsar sjer. Því er það alveg rjettmætt að samþ. þetta frv., hvað sem þessari hugmynd líður.