16.03.1927
Neðri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2524 í B-deild Alþingistíðinda. (1871)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Magnús Torfason:

Jeg tók ekki til máls við 1. umr., er þetta mál var á ferðinni. Gerði jeg það til þess, að málið kæmist sem fyrst til nefndar og yrði athugað þar æsingalaust í ró og næði. Jeg skal nú ekki við þessa umr. fara út yfir það svið, sem henni er takmarkað, að öðru leyti en því, sem ekki verður hjá komist til þess að mótmæla staðhæfingum þeirra, sem talað hafa á móti þessu máli.

Jeg skal þá byrja á því að lýsa yfir því, að mjer hefði verið það kærast, að þetta fyrirtæki hefði verið stofnað sem ríkisfyrirtæki. Ekki svo að skilja, að jeg geri lítið úr því, sem hjer er á ferðinni, að járnbrautin sje tengd fossafyrirtæki, sem mun verða landbúnaðinum til mikilla hagsbóta. En landbúnaðurinn er nú þannig á sig kominn, að ekki mun af veita, að eitthvað sje fyrir hann gert, til þess að hann geti staðist í baráttunni við aðrar atvinnugreinar. Ef járnbraut kæmist á austur, þá er það trú mín, að hún mundi ýta undir virkjun fossa, ekki aðeins á þessum eina stað, en við, sem heima eigum austanfjalls, vitum, að þar eru fleiri fossar, sem virkja má. Frá þessu sjónarmiði hefði mjer verið það kærast, að frv. frá í fyrra hefði getað gengið fram. En það var ekki því að heilsa, eins og við var að búast á því stigi málsins. Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um málið alment, en aðeins geta þess, að jeg get ekki með öllu varist kvíða um það, að ekki sje með öllu trygt, að fyrirtækið komist í framkvæmd, þótt þetta frv. verði samþykt. Ekki vegna þess, að jeg mistreysti mönnum þeim, sem að því standa, heldur vegna tímanna. Þótt fossavirkjun hafi góðan byr sem stendur, þá er ekki víst, að það standi í mörg ár. Maður veit, að það hefir gengið upp og niður með fossaiðjuna. Því er það, að jeg legg mikla áherslu á, að byrjað verði sem fyrst á þessu verki, meðan fossaiðjan stendur vel og menn hafa trú á henni.

Það hefir nú verið talað um þetta mál eins og það sje hálfgert dulsmál. Jeg skil ekki, hvernig hægt er að segja slíkt, því að jeg veit ekki betur en að það hafi verið farið þinglega á allan hátt með þetta mál og ekkert gert til þess að villa mönnum sýn að neinu leyti. Jeg verð því að skoða þetta sem tilhæfulausa aðdróttun, vegna þess að betri gögn vanta.

Þá hefir því verið slegið fram, að þessi mál, járnbrautin og fossavirkjunin, mundu vera vafasöm hagsbót. Þetta fæ jeg ómögulega skilið. Ef annað þeirra, járnbrautin, kæmist á, er það víst, að við eigum von á að fá lægra flutningsgjald fyrir afurðir okkar. En jeg get skilið það, að þeir, sem búa á sjávarbakkanum, hafi harla lítinn skilning á því. Þá er það ekki síður merkilegt að heyra í þessum sal, að það muni vafasöm hagsbót að fossavirkjuninni, eftir að maður hefir heyrt hinar miklu umræður um áburðarmálið, sem hjer hafa farið fram.

Þá hefir því verið slegið fram, að þetta verk yrði byrjað með því að veita lán til þess. Jeg á ómögulegt með að skilja, hvernig slíkt getur komist í huga nokkurs manns, þar sem það stendur í frv., að það eigi að greiða framlag ríkissjóðs eftir á. Jeg tel það óhæfu að líta á þetta fjelag sem fátækan hrepp, sem ekki geti lagt fram tillag sitt í fyrirtækið. Vitanlega verður fjelagið fyrst að leggja fram peningana, enda mun þeim mönnum, sem að því standa, ekki hafa dottið annað í hug. Vitaskuld eru ekki ítarleg ákvæði um þetta í frv., en þó nógu greinileg til þess, að ráðherrann getur skilið, hvað þingið vill, og ef hann breytir á móti því, þá breytir hann á móti vilja þingsins. Svona aðfinslur bera það með sjer, að sá hv. þm., sem kemur fram með þær, ber alls ekkert traust til stjórnarinnar, og jeg er alveg hissa á því, að hann skuli ekki hafa komið fram með vantraust þegar í stað.

Þá hefir verið talað um þjóðernisglötun í sambandi við þetta mál. En það eru ekki annað en skýjaborgir uppi undir bláa gatinu. Ef athugað er, hve mikinn vinnukraft þarf til þess að leggja járnbrautina, þá er það upplýst, að það þarf um 600 verkamenn. Þar af yrðu áreiðanlega yfir 400 íslenskir; það mundi þurfa undir 200 útlendra manna, sem vanir væru járnbrautarlagningu, og minna, þegar fram í sækti. En nú er það vitanlegt, að hingað hafa komið á einu ári alt að 500 erlendra manna, og enginn maður talað um. Þá hefir verið sagt, að þetta fyrirtæki mundi draga vinnukraftinn úr sveitunum. Við því er það að segja, að við Flóaáveituna t. d. hafa unnið 2–3 hundruð manna og á sama tíma um 100 menn að vegabótum, og þess hefir ekki orðið vart, að þetta tæki vinnukraft frá hinum atvinnuvegunum. Jeg sje því ekki, að járnbrautarlagning mundi taka vinnukraft frá atvinnuvegunum svo neinu næmi, sjer í lagi þegar togararnir ganga nú ekki allan tímann, sem þeir voru vanir að ganga.

Að því er snertir fossavirkjunina, þá hefir verið sýnt og sannað, að til hennar þarf í mesta lagi 2500 verkamenn. Af þessum mönnum yrðu ekki nema um 500 útlendingar til þess að byggja orkuverið og það, sem því fylgir. Jeg verð að segja, ef landið þolir ekki þessa 500 útlendinga, þá er ekki til neins að vera að hugsa um þjóðerni. Að því er snertir rekstur fossaiðnaðarins, þá þarf ekki 2000 manns til þess, svo hjer er sannarlega ekki um mikið innstreymi að ræða.

Jeg verð að þakka hæstv. ráðh. (MG) fyrir upplýsingar þær, sem hann gaf, og yfirlýsingu um það, að hann hefði nýlega fengið frjettir af því, að þeir, sem að þessu fyrirtæki standa, mundu verða megnugir þess að koma því í framkvæmd. Annar hv. þm. sagði, að járnbrautin ætti að vera beita fyrir sjerleyfið. Jeg skal nú ekkert segja af eða á um það, en mjer þótti vænt um, að í þessu lá það, að hann hefir töluverða trú á því, að járnbrautin komist á. Jeg hefi mikla trú á því, meiri trú á, að járnbrautin komist á en fossavirkjunin, því að það er sennilegt, að fjelagið geti hagnast á því að leggja brautina. Það gæti selt hlutabrjef sín betur eftir að járnbraut er komin á en áður. Þá hefir verið fundið að því, að ráðherrann hafi ekki vald yfir flutningsgjöldunum. En jeg skil þá ekki íslenskt mál, ef svo er ekki. Altaf þegar yfirvöld eiga að samþykkja taxta, þá er átt við hámarkstaxta, sem ekki má fara yfir. En fjelagið getur ekki rekið járnbrautina nema taxti þess verði samþyktur. Annars mundi ráðherra geta fest þetta betur, þegar hann gefur sjerleyfið. Það er ekki nema gott að taka þetta skýrt fram, enda býst jeg ekki við, að fjelagið hafi nokkuð á móti því.

Þá var líka annað, sem hv. 1. þm. Reykv. benti á, að ekki væri hægt að þvinga fjelagið til að reka járnbraut. Það má eflaust segja, að þetta sje ekki eins skýrt í frv. og vera þarf, enda má ætlast til, að atvrh. setji nánari ákvæði um það í sjerleyfið sjálft.

Þá fann sami hv. þm. að því, að frv. fyrirbygði alls ekki, að brautin yrði bygð úr járnarusli eða jafnvel beinarusli frá Noregi. Að minni hyggju tekur 7. gr. frv. fyrir alt slíkt, þar sem fram er tekið, að járnbrautina skuli gera eftir fyrirmælum ráðherra. Jeg fæ ekki betur sjeð en að þarna falli undir alt fyrirkomulag brautarinnar, þ. á. m. efnið.

Þá var því ennfremur slegið fram, að 5. liður 1. gr. skuldbindi alls ekki fjelagið til að vinna að saltpjetursvinslu. Þetta má sjálfsagt til sanns vegar færa eftir orðanna hljóðan, þar sem aðeins er um heimild að ræða. En eins og liðurinn verður eftir brtt. hv. samgmn., held jeg, að ráðherra sje skyldugur til að taka af fjelaginu fulla skuldbindingu um þetta. Annars breytir hann á móti vilja þingsins, og það get jeg ekki ætlað honum að óreyndu.

Hjer hafa verið höfð stór orð um það, að með þessu væru Íslendingar að gera tilraun til að glata þjóðerni sínu Jeg hjelt nú, að jeg hefði eins næma tilfinningu fyrir íslensku þjóðerni og flestir menn aðrir, en jeg fæ ekki sjeð, að af þessu stafi stórkostleg hætta. Jeg held, að alt of mikið hafi verið gert úr þessu fyrirtæki, um það hve risavaxið það verði. Stærstu fossaverksmiðjurnar í Noregi hafa tiltölulega mjög lítinn vinnukraft. Þetta fyrirtæki, sem hjer á að stofna, er margfalt minna en t. d. Rjukanverksmiðjurnar í Noregi, og þyrfti því margfalt færra fólk. Er því mjög svo orðum aukið, að þjóðerninu stafi af þessu nokkur hætta. Allar hugleiðingar í þá átt stefna að því einu, að aldrei megi virkja fossana, aldrei nota þessi auðæfi landsins, sem guð og náttúran hafa gefið því. En jeg er sannfærður um, að þar þýðir ekkert að ætla sjer að spyrna á móti broddunum.

Þá var síðast höfð frammi sú firra, að þetta mundi verða til þess að eyðileggja landbúnaðinn hjer á landi. Við fylgismenn frv. álítum þvert á móti, að þetta verði landbúnaðinum til hinna mestu nytja. — Og þó að Reykjavík ætti að tvöfaldast eða svo, þá er ekki svo stór hætta á því. Það tæki áreiðanlega langan tíma, og vöxtur Reykjavíkur hefir auk þess verið svo hraðfara til þessa, að jeg býst við, að engin hætta sje á því, að þessi nýi staður vaxi nærri eins ört. Og jeg hefi ekki orðið var við, að íslensku þjóðerni hafi stafað nein sjerleg hætta af Reykjavík. Og það er áreiðanlega reynslan, að stórir kaupstaðir eða borgir eyðileggja ekki landbúnaðinn í kringum sig. Get jeg í því sambandi bent á Reykjavík og nágrenni hennar. Líka mætti þar vísa til vorrar kæru Kaupmannahafnar, þar sem 800 þús. manns lifir á svæði kringum hana, sem ekki er stærra um sig en Suðurlandsundirlendið. Enginn blettur í allri Danmörku er eins vel ræktaður og nágrenni Kaupmannahafnar, Sjáland. — Og ef járnbrautin kemur, verður Suðurlandsundirlendið bókstaflega nágrenni Reykjavíkur, og þar mundi skapast markaður fyrir afurðir bænda á þessu svæði. En það er öllum mönnum kunnugt, að innlendi markaðurinn er jafnan sá besti.

Í fyrra var því kviðið, að togaraútgerðin mundi fara þverrandi; sumir vildu bera á móti því, en jeg er fastlega þeirrar skoðunar, að hún heldur áfram að þverra, af því að þessi atvinnuvegur verður ekki rekinn öðruvísi en með miklu tapi og er rányrkja. Þetta tap lendir á peningastofnunum landsins, og hljóta þær einhverntíma að verða að hætta að leggja fram fje til þessara atvinnuvega. — Ef til þessa kemur, er gott, að þarna verði kominn annar tryggari atvinnuvegur til að taka við fólkinu. Og ekki mega menn gleyma þeim skatti, sem sjórinn tekur ætíð af landsmönnum í mannslífum og ekki verður í tölum talinn. En slíkur skattur kemur þarna ekki til greina.